Að bera fram “Łódź”

Skjaldarmerki Łódź

Ég sé nú sé komin út íslensku söguleg skáldsaga um Łódź-gettóið. (http://www.uppheimar.is/verslun/product.asp?ID=196). Ef einhver ætlar að lesa þessa bók eða tala um hana þá auðveldar það að kunna að bera fram nafn þessarar borgar, (sem þýðir “bátur”).

Sé nafnið skrifað án krúttstafa þá skrifast hún “Lodz” og menn enda á því að segja eitthvað eins og “lots” sem er ansi langt frá raunverulegum framburði.

Nafn borgarinnar “Łódź” samanstendur af 4 stöfum, en raunar einungis þremur hljóðungum.

Ł = Borið fram eins og það á að bera fram “W” í ensku. Það er ekki eins og “V” heldur meira eins og stutt “ú”.

Ó = Borið fram eins og íslenskt “Ú”.

 = Þessi samsetning, núna þar sem hún stendur aftast í orði á að vera órödduð og er því borin fram eins og stafurinn “Ć” (eins og það segi einhverjum eitthvað). Þetta er svipað og “CH” í enska orðinu “cheers”.

Hér eru svo nokkur hljóðdæmi:
http://www.forvo.com/word/%C5%82%C3%B3d%C5%BA/

Sem að þér þykir sístur

Tvær „auglýsingar“ úr formannskjöri Sjálfstæðisflokksins voru minnistæðar. Í þeirri fyrstu vildi Hanna Birna að flytja flugvöllinn úr Vatnsmýri, í þeirri síðari vildi Bjarni Benediktsson sækja um að aðild að ESB. Hvort tveggja virkaði vel á þann sem þetta skrifar þótt markmiðið hafi líkast til verið annað.

Báðar þessar „auglýsingar“ voru leðjuskot andstæðinganna. Líklegast ekki þau verstu sem þekkjast en engu að síður má þó velta fyrir sér hvers vegna kosningabaráttur þurfa svo gjarnan að snúast um láta að frambjóðendur sverja af sér eitthvað sem þeim finnst eða hefur einhvern tímann fundist. Og hvers vegna svo margir kjósendur sætta sig fremur við frambjóðanda sem er tilbúinn að ljúga, annað hvort að þeim sjálfum eða sjálfum sér, fremur einhvern sem þeir kunna að vera ósammála um nokkur mál.

Flestir þurfa tíu ástæður til að kjósa einhvern en dugar ein til að kjósa hann ekki. Þetta veldur því að frambjóðendur hafa almennt tilhneigingu til að svara sjaldan spurningum um erfið mál og svari þeir á annað borð er það gert með ritgerðum þar sem báðum sjónarmiðum eru gerð skil og hugsanlega hallast örlítið í átt til þess sem ögn meira fylgis nýtur.

Þetta lýsir auðvitað ástandi þar sem völd trompa hugsjónir, það skiptir meira máli að breyta sjálfur þótt breytt sé rangt, fremur en að fá ekki að breyta neinu. Og þótt ég geti alveg trúað því að það sé til dæmis „flókið mál“ að skilja að ríki og kirkju eða „snúið“ að fella niður tolla á kjúkling þá vil ég sem kjósandi ekki heyra djúpar greiningar á flækjustiginu heldur hvort stjórnmálamaðurinn hyggist gera það og hvenær.

Við einföldum spurningum geta vissulega verið flókin svör. Það er samt þannig að í þinginu eru samt oftast þrír takkar, einn fyrir já, einn fyrir nei og einn fyrir hjásetu. Starf stjórnmálamanna gengur út á að ýta á þessa takka. Það er ekki of mikils ætlast að þeir skýri okkur stundum frá því hvern þeirra þeir myndu helst láta fingur sinn rata á.

Mín ákveðna virðing fyrir framsóknarmönnum

Það er tiltölulega öruggt veðmál að tala illa um Framsóknarflokkinn í mínum aldurs- og búsetuhópi. En til eru verri flokkar og sumt af því sem framsóknarstefna hefur gert fyrir heiminn verðskuldar jafnvel virðingu okkar.

Framsóknarmenn eru ákveðið stöðugleikaafl. Ef það er laus stóll við borðið þá er framsóknarmaður til í að setjast í hann. Framsóknarmenn eru ekki með mörg stefnumál sem þeir hvika ekki frá, nema þá í málum sem flestum öðrum er sama um hvort sem er. Þannig veit maður að það eru meiri líkur en minni á því að hægt verði að komast að einhverri niðurstöðu ef framsóknarmaður er á svæðinu. Ef það er Framsóknarflokkur í landinu þínu þá þarftu ekki lengur meirihluta þingsæta til að mynda stjórn heldur bara 50%-(fylgi Framsóknar). Enda munu þeir alltaf mynda stjórn með þér fyrir landbúnaðarráðuneytið sitt.

Framsóknarmenn voru þannig eina teljandi stjórnmálaaflið úr hópi þeirra sem mynduðu útlagastjórn Póllands á tímum seinni heimsstyrjaldar sem sneru aftur til landsins og eftir stríð. Fljótt urðu Framsóknarmenn í Póllandi helsta stjórnarandstöðuaflið, nutu stuðnings stórs hluta almennings og kirkjunnar og hefðu hæglega unnið sigur í fyrstu kosningum eftir stríð ef morð og ofsóknir á hendur framsóknarmönnum og víðtæk kosningasvik hefðu ekki snúið við gangi leiksins. Helsta aðferð við kosningasvikin var að hagræða úrslitum á þeim kjörstöðum þangað sem Framsóknarflokkurinn náði ekki að senda fulltrúa sína. Bara pæling, í ljósi þess að sumum hérlendis finnast fulltrúar flokka á kjörstöðum mesta hneisa.

Kommúnistarnir óttuðust endurtekningu frá Ungverjalandi þar sem Framsóknarflokkurinn hafði unnið stórsigur í fyrstu og einu frjálsu eftirstríðskosningum þar í. Í kjölfar mynduðu ungverskir framsóknarmenn stjórn og nokkur ár tók að hrekja þá á hliðarlínu stjórnmála. Það tókst, því miður, með blöndu ofbeldis og klækjastjórnmála. Ein slík klækjaaðferð kallast „Salami-aðferðin“ og gengur út á það að skipta andstæðingnum í sífellt minni sneiðar, kalla sumar „fasista“ en kalla aðrar til viðræðna. Eftir nokkrar umferðir situr hluti stjórnarandstöðunnar í fangelsi og hinn hlutinn eru leppar sitjandi stjórnvalda. Framsóknarmenn eru því miður veikir fyrir „Salami-aðferðinni“ enda alltaf til í að tala við fólk, sama hve vont fólkið er.

Engu að síður þá tókst Framsóknarmönnum þó áfram að vera til sem flokkur í flestum austantjaldsríkjanna og oftast voru þeir næststærsti flokkur á eftir kommúnistaflokki viðkomandi lands. Og þótt þeir hafi oftast í raun gert lítið annað en að vera talsmenn opinberrar stefnu ríkisins í málefnum bænda, þá höfðu þeir þó stundum þau áhrif að leggja áherslu á málefni „síns fólks“, í anda þeirra grunnhugmyndafræði framsóknar að það sé alltaf betra að sitja við borðið og reyna að hafa áhrif fremur en standa í götuóeirðum. Og sú pragmatíska hugmyndafræði er í sjálfu sér virðingaverð, þótt hún bylti ekki harðstjórnum.

Framsóknarmenn áttu stóran þátt í því að umskiptin í Póllandi voru jafn friðsæl og raun bar vitni. Í fyrstu hálffrjálsu kosningunum til pólska þingsins árið 1989 fengu frambjóðendur Samstöðunnar þann 1/3 þingmanna sem þeir gátu fengið. Hinir 2/3 komu úr hópi frambjóðenda „skipulagðra flokka“ þ.m.t. Framsóknarflokksins. Samstöðan hvatti fólk til að kjósa Framsóknarflokkinn frekar enn kommúnistana og myndaði meirihlutastjórn með þessum gamla leppflokki stjórnvalda ásamt nokkrum öðrum slíkum flokkum. Það er slík næmni framsóknarmanna á pólitískar aðstæður og fyrirsjáanlegur vilji þeirra til að taka þátt í hvaða meirihlutasamstarfi sem er gerir þá að ágætistöðugleikasafli í pólitísku litrófi lands.

Ein skondin afleiðing þessa er að framsóknarmenn eru almenn andvígir ESB-aðild í þeim ríkjum sem standa utan ESB, en styðja hana í þeim ríkjum sem eru hluti Sambandsins. Það endurspeglar þann realisma að þótt margir framsóknarmenn séu ekki alltaf beint stuðningsmenn frjálsari verslunar með landbúnaðarvörur þá trúa þeir því að á endanum hafi maður meiri áhrif með því að reyna að vinna málum sínum innan gildandi stjórnkerfis fremur en að eyða krafti í baráttu við orðinn hlut. Framsóknarmenn eru ekki fólk sem tekur ekki sæti í nefndum af prinsippafstæðum eða hrópar slagorð á torgum. Þeir vita að það kemur þeim skammt. Þeir vilja setjast í lausa stólinn. Og eru alltaf til í kaffi.

Tölfræðilega marktæk vændiskona

Aðgerðir hóps fólks á einkamálavef hafa kallað fram umræðu um kynlífsþjónustu. Það er gott, það getur verið gott að tala um þennan málaflokk. Og í þeirri siðferðislegu umræðu á að taka mest mark á þeim sem beita fyrir sér bestum rökum og rannsóknum og síður þeim sem nota gildishlöðnustu lýsingarorðin um skoðanir sínar og annarra, ef fyrir þeim er lítil innistæða.

Byrjum á einu. Skoðun manna á þeim aðgerðum að beita tálbeitum til að góma einhvern við tiltekinn verknað er oftast tengd skoðun manna á þeim tiltekna verknaði. Það mundi flestum þykja annað mál að reyna að reyna leiða barnaníðinga í gildru eða til dæmis að „fletta ofan“ af framhjáhaldi með sama hætti.

Og það hvort verknaðurinn sé löglegur í gefnu landi hefur varla mikið að gera með siðferðislegu hliðinu á þessu. Það er ekki skárra að beita tálbeituaðferðum til að „fletta ofan af samkynhneigð“ þar sem hún er ólögleg. Það er margfalt ógeðfeldara, ef eitthvað er.

Þannig snúa efasemdir þeirra sem efast um það að rétt sé að koma fyrir gildrum fyrir fólk í leit að kynlífsþjónustu oftar en ekki að því að þeir efast um það að það að kaupa eða að veita slíka þjónustu eigi að vera ólöglegt. Það er ekki fáranlegt að vilja svara þeim siðferðislegu spurningum sem snúa að frjálsu vali fólks með því að virða frjálsa valið.

Þetta er auðvitað ekki algjörlega einhlítt. Til dæmis væri hæpið að nota frjálst val í umræðu um „rétt verkamanna“ til að anda að sér asbesti. Þeir sem vilja banna kynlífsþjónustu, eða kaup á henni munu líklega halda því fram að vændi sé eins eða margfalt verra. Það er verðugt deiluefni.

Hollendingar leyfðu og vændishús um aldamótin en hertu jafnframt viðurlög við svokallaðri refsiverðri vændisþjónustu. Um svipað leyti breyttu Svíar sinni löggjöf um kaup á kynlífsþjónustu. Um báðar þessar leiðir má finna ýmsar rannsóknir. Hér er til dæmis rannsókn hollenskra stjórnvalda á reynslu það í landi. Erfitt er að taka djúpt í árinni miðað við þá skýrslu. Framboð og eftirspurn virðist hafa minnkað á rannsóknartímabilinu þótt það sé ekki rakið til laganna. Hins vegar verður heldur ekki séð að lögunum hafi tekist að stemma stigum við ólöglegri vændisstarfssemi eða öðrum óæskilegum áhrifum vændis. Að sama skapi er hæpið að fullyrða um að það að sænska leiðin hafi dregið stórlega úr framboði á kynlífsþjónustu þar í landi.

Spurningin um lögleiðingu eða bann við vændi er siðferðileg, en í framhaldinu framhaldinu einnig vísindaleg, því vísindin eiga og geta verið grundvöllur svara við spurningum um siðferði. En rannsóknir eru ekki alltaf á þessu viðfangsefni eru ekki auðveldar, niðurstöður sjaldnast tölfræðilega marktækar, tilfinningar miklar og bilið milli rannsakenda og baráttufólks stundum óskýrara en æskilegt getur talist.