Ókeypis lóðir fyrir hommahatara?

Sú ákvörðun Reykjavíkurborgar að veita ekki styrk til trúfélags sem opinberlega veitist að samkynhneigðum er eðlileg. Það mætti raunar spyrja sig hvort mörg trúfélög uppfylla yfirhöfuð þau skilyrði að starfa að fullu í takt við nútímahugmyndir um siðferði og mannréttindi. Líklegast ekki.

Það eru nokkrir hlutir sem flest trúarbrögð heimsins deila. Af þeim síðri má nefna að þær gefa börnum rangar skýringar á tilurð heimsins og hafa gjarnan skoðun á því hver megi sofa hjá hverjum og með hvaða hætti. Þá leggja margir stórir trúsöfnuðir áherslu á mikilvægi þess að menn skipti ekki yfir í trúarbrögð. Sum hóta hörmungum í svokölluðu næsta lífi geri menn það, önnur strax í þessu. Sum standa við þessar hótanir.

Ekkert af þessu er til sérstakrar eftirbreytni. Sumt er ólöglegt, annað kjánalegt. Ég hef nákvæmlega engan áhuga á því að láta skattfé mitt renna til þeirra sem vilja breiða út þann boðskap að hommar, lesbíur og tvíkynhneigðir séu rangri braut í lífinu. Umburðarlyndi felst í öðru en því að saklaust fólk þurfi að sitja undir ávirðingum vegna einhvers sem það ræður engu um.

Ef gæta ætti jafnræðis ætti auðvitað að halda áfram og úthluta einungis styrkjum til þeirra trúfélaga sem sannarlega bjóða samkynhneigt fólk velkomið í sínar raðir. Þau eru því miður vart í meirihluta. Við setningu laga um hjónabönd samkynhneigðra þurfti að huga sérstaklega að svokölluðu “frelsi vígslumanna” til að meina fólki um hjónavígslu vegna trúarsannfæringar. Ætli slíks rangnefnds “umburðarlyndis” væri gætt með sama hætti ef um íþróttafélög, fyrirtæki eða stéttarfélög, eða einhver önnur samtök væri að ræða?

Þær upphæðir sem um ræðir í tilfelli Kristskirkjunnar eru lágar samanburði við mörg önnur fjárhagsleg forréttindi trúfélaga. Þau fá úthlutað ókeypis lóðum. Félagsgjöld þeirra eru innheimt af ríkinu í formi skatts. Flest af þessu mætti heyra sögunni til.

Leave a Reply

Your email address will not be published.