Skíthrædd við ranga hluti

Í umræðunni vantar ekki ömurlegar, vondar, þjóðernislegar og sósíalískar ástæður fyrir því að vera á móti því að ríkur útlendur gaur kaupi land. Það er ekki þar með sagt að við höfum ekkert til að óttast. Það er alltaf ástæða til að óttast þá tilhneigingu íslenskra stjórnmálamanna að þurfa annað hvort að berjast gegn fjárfestingum eða leggja þeim lið.

Til að byrja með þá finnst mér hugmyndin um að reisa golfvöll og lúxushótel á þessum stað vera bilun. Ekki legði ég krónu í þá fjárfestingu, en það er þá bara ég.

Það er hins vegar full ástæða til að óttast beina eða óbeina þátttöku opinbera eða hálfopinbera aðila í þessari áhættufjárfestingu. Þetta er það sem ég óttast:

1) Erlendi fjárfestirinn setur upp flotta glærusýningu, þar sem búið að að búa til fullt af störfum og skatttekjum og setja upp í töflu.

2) Sveitarfélögin á svæðinu verða yfir sig spennt og lofa stuðningi.

3) Byggðastofnun eipar af spenningi.

4) Lífeyrissjóðir og aðrir íslenskir fjárfestar koma inn með fjármagn, enda stórkostlegt tækifæri, og ekki getur útlendingurinn verið einn að græða á þessu.

5) Ríkið tvöfaldar veginn frá Egilsstöðum að Grímsstöðum með fjármagni frá lífeyrissjóðum og ræðst í endurbætur á flugvellinum. Áreiðanleiki samgangna er atriði. Ekki gengur að menn komist ekki í golf þótt það sé smá óveður.

6) Sérstakt skattasvæði er myndað umhverfis Grímsstaði, til að greiða fyrir uppbyggingunni, enda lykilatriði ef langtímaplön um uppbyggingu eiga að ganga eftir.

7) Plönin ganga ekki eftir og framkvæmdirnar stöðvast á miðri leið.

8) Nú vantar aðeins að klára þakið á sundlaugagarðinum, byggja tvær efstur hæðir á hótelinu, innrétta öll herbergin og fullklára flatirnar á golfvellinum. Ríkið verður fyrir gríðarlega miklum þrýstingi um að koma með viðbótarfjármagn til að verkið verði klárað svo að “það tapist ekki allt”. Leiðinlegt að sjá svona lúxúshótel standa óklárað.

9) Ríkið mun verða við þeim óskum. Dæla in milljörðum til viðbótar í því skyni að halda uppi atvinnustigi.

10) Íslenska ríkið eignast fimm stjörnu hótel og golfvöll á norðurslóðum. Jibbí.

Það er full ástæða til að óttast að stórar fjárfestingar á litlum stöðum geti tekið á sig mynd hálfopinberra framkvæmda eftir því sem samfélagið og stjórnsýslan á staðnum verða þeim háðari. Þar má með sanni segja að ástæða sé til að “varast” og “skoða hlutina vel”. Ekkert af þessu breytir því að þegar einn maður vill selja jörð og annar kaupa þá er sá gjörningur mál þeirra tveggja en ekki okkar hinna. Sama hvers lenskir þeir eru.

Á svona stundum verða áköll um hvers kyns opinber afskipti hávær. Bæði verða þeir til sem krefjast sérstaks stuðnings við umrædd ævintýri, í þágu atvinnusköpunar, og svo þeir sem setja fram vitlausar hugmyndir eins og þær að ríkið kaupi upp nær óbyggð landssvæði bara til að forða þeim frá því að komast í eigu vondra útlendinga. Skella ætti skollaeyrum við hvoru tveggja.

Leave a Reply

Your email address will not be published.