Skógur og tré

Þegar fyrsta og elsta stjórnarskrá heims var samin í Bandaríkjunum byrjuðu menn á því að ákveða sjálfa stjórnskipunina, hvernig samspilið ætti að vera milli forseta, þings og dómsstóla, hvernig velja ætti fólk í þessar stöður og hvernig mætti koma því frá. Þar var það stef ráðandi að ekkert eitt vald ætti að vera of öflugt, enginn einn maður of valdamikill.

Menn útkljáðu því fyrst hvernig deiluefnin skyldu leyst áður en þeir fóru að leysa þau. Þannig eiga góðar stjórnarskrár að vera.  Þær eiga að segja hvernig við tökumst á um hluti, þær eiga ekki endilega að tilgreina hver niðurstaðan eigi að vera.Það er auðvitað freistandi að bjóða sig fram til stjórnlagaþings og reyna að koma öllum sínum hjartdýpstu stefnumálum inn í grunnlögin. Ég hef til dæmis lengi verið þeirrar skoðunar að fólk fullorðið fólk ætti að geta keypt bjór ef það vildi og að gaman væri fyrir Íslendinga að geta keypt franskan ost án þess að borga aðra hendina fyrir. Mér þætti vissulega gaman að berjast fyrir tollabanni í stjórnarskrá, en það á ekki heima þar. Ekki frekar ákvörðun um það hvort fyrirtæki, bændur eða útlendingar megi eiga virkjanir eða tappa á vatnsflöskur.

Menn þurfa að sjá skóginn fyrir trjánum. Þingræðið á að veita ráðherrum aðhald, en í raun hefur það þýtt að þingið framselur lagasetningarvald sitt til ráðherra um leið og það samþykkir þá í starfið. Finnst mönnum þetta hafa gengið mjög vel? Finnst mönnum sem kerfið hafi skilað hæfu fólki í störfin?

Það væri heillandi hugmynd að kjósa ríkisstjórn beint. Þá þyrftu menn að leggja undir ákveðna stefnu, vera tilbúnir starfið strax eftir kosningar og þyrftu að svara fyrir það sem þeir lofuðu að gera. Á sama tíma ætti að láta Alþingi sjá alfarið um lagasetningu, löggjafarvaldið mun þá sjá um að setja lög og framkvæmdarvaldið framkvæma þau. Hvernig væri það?

Uppbygging stjórnkerfis er aðalatriðið í stjórnaraskrá. Stjórnlagaþingið á ekki að snúast um það að hver hugsjóna- eða hagsmunagæsluhópur fái að koma sinni línu að. Fólk má alveg berjast gegn kvótakerfinu, tollum, eða fyrir hinum og þessum réttindum. En þeim tveimur mánuðum sem stjórnlagaþinginu er ætlað að starfa er ekki best varið í umræður um hver megi kaupa fisk, bjór eða virkjun.

Leave a Reply

Your email address will not be published.