Sýndalýðræði

Árið 1971 er merkilegt ár í íslenskri kosningasögu. Það er eina skiptið á lýðveldistímanum kjósendum tókst að koma ríkisstjórn frá í almennum kosningum, með þeim hætti að stjórnin tapaði völdum og stjórnarandstaðan tók við. Í öðrum kosningum, hafa ríkisstjórnir haldið velli, og þá sjaldan sem þær hafa fallið þá hafa menn stoppað upp í stjórnarsamstarfið eða skipt út hluta stjórnarinnar.

Stjórnir á Íslandi falla oftast annað hvort á miðju kjörtímabili eða í leynimakkinu skömmu eftir kosningar. Óánægja eða “þreyta” í stjórnarsamstarfi á þannig mun meiri þátt í því hver stjórnar landinu og með hverjum, heldur en vilji kjósenda. Allir ganga óbundnir til kosninga og bjóða svo hver öðrum í sumarbústaði til að “þreifa fyrir sér”. Væri ekki betra væri ef baráttan um ráðherraembættin færi fram í kjörklefanum, en ekki á kaffistofu Alþingis?

Á Íslandi er þannig í raun algengast að stjórnir falli fyrst og svo komi kosningar, en þetta ætti í raun að vera öfugt. Með öðrum orðum þá skila forsætisráðherrar og ríkisstjórnir inn uppsagnarbréfum til þjóðarinnar áður en þau eru rekin, svo finna menn eftirmenn sem þjóðin samþykkir. Svoleiðis er þetta ekki alls staðar. Í Bretlandi hafa kjósendur rekið ríkisstjórnir sjö sinnum frá stríðslokum. Bretland þykir nú samt ekkert óstöðugt lýðræðisríki.

Ástandið á Íslandi stafar að einhverju leyti afleiðing þess kosningakerfis sem við búum við, í bland við vondar hefðir. Menn græða ekki endilega á því að sannmælast um einhverja stefnu fyrir kosningar og bjóða fram saman, það er alveg jafngott að bjóða fram sundruð og skilja málin eftir óleyst þangað til eftir kosningar. Það eru ágætis hlutskipti að vera meðalstór miðjuflokkur, sem getur unnið með öllum. Niðurstaðan hefur því orðið sú að allir flokkar á Íslandi þykjast einmitt vera miðjuflokkar sem geti unnið með öllum.

Einmenningskjördæmi líkt og tíðkast í Bretlandi eru fjarri því að vera fullkomin. Stærsti galli þeirra, mikið ósamræmi milli fylgis á landsvísu og fjölda þingsæta, er á sinn hátt þeirra stærsti kostur, því þar með gerist það oftar að einn flokkur ber skýra ábyrgð á stjórnun landsins og nokkurra prósenta sveiflur eru líklegri til að hafa áhrif á það hvort stjórn heldur eða fellur. Annar, ótvíræður kostur er að lýðræðislegt umboð þingmanna er skýrara og tengsl þeirra við kjósendur meiri. Enda er flokksagi almennt minni í löndum þar sem þingmenn eru ekki kosnir af löngum flokkslistum.

Í öllu falli væri heppilegt að auka aðkomu kjósenda að því hver það í raun er sem situr í ríkisstjórn, ýmist með því að flokkar lýsi þá yfir stuðningi við eitthvað tiltekið forsætisráðherraefni eða jafnvel að ríkisstjórnin sjálf verði kosin beint. Þótt eflaust má finna eitthvað að því kerfi getur það varla verið verra en kerfið sem gerði Björgvin G. að viðskiptaráðherra. Ég er með nafn á það kerfi: Gúbbræði.

Hérlendis eru ráðherrar með meistarapróf sjaldgæf sjón, og en nær útilokað er að sjá menn með skírteini frá toppháskólum rata í toppstöður í stjórnmálum. Til þess þyrftu þeir líklegast að brjóta sér leið fram hjá of mörgum verr gefnum en þolinmóðari mönnum sem nýtt hafa tímann í að kreista krumlur í sveitinni og tala vel um yfirmenn sína. En hvers vegna gerum við ekki meiri kröfur? Ég er ekki að segja að lög eigi að krefjast þess að ráðherrar hafi menntun eða reynslu sem hæfi starfinu, ég er að segja að við sjálf eigum að gera það.

Staðreyndin er nefnilega sú að langflestir ráðherrar seinustu áratuga hefðu ekki einu sinni þorað að bjóða sig fram til setu í þeim ráðherraembættum sem þeir á endanum hlutu, ef kosið hefði verið um þau. Hefði Árni Matthiesen þótt sterkur kandídat í stöðu fjármálaráðherra? Hefði konan sem ekki kunni ensku þótt koma sterklega til greina sem utanríkisráðherra? Nei, ég held að þau og margir aðrir hefðu ekki einu sinni þorað að mæta í atvinnuviðtöl um þessi störf, hvað þá að nokkurt skynsamt fyrirtæki hefði ráðið þau. Við eigum betri umsækjendur. Við þurfum bara kerfi sem finnur þá.

Leave a Reply

Your email address will not be published.