Láglaunaherinn

Samkvæmt úttekt OECD er íslenska menntakerfið eitt það dýrasta í heimi þegar kostnaður á nemanda er borinn saman. Við erum þannig með nánast tvöfalt dýrara kerfi en Finnar, sem þykja hafa mjög gott menntakerfi. Þrátt fyrir þetta eru laun kennara í meðallagi og árangur íslenskra nemenda í meðallagi. Ófremdarástand er ef til vill ekki rétta orðið, við erum hins vegar ekki að fá það sem við erum að borga fyrir.

Sökudólgarnir eru tveir, Kennarasamband Íslands, sem berst með kjafti og klóm gegn hverri þeirri hugmynd sem dregið gæti afburðafólk inn í stéttina og stjórnvöld sem þora ekki í slag gegn þeirri vitleysu. Þannig mega forystumenn kennararasamtaka ekki heyra á það minnst að einn kennari fái hærri laun en annar vegna þess að hann er eftirsóknarverðari starfskraftur en einhver annar. Já auðvitað væri það fáranlegt.

Þar sem ofurjafnaðarmennirnir í kennaraforystunni hafa barist gegn öllu sem auðveldað gæti skólastjórnendum að leysa úr vandamálum með því að færa peninga þangað sem þeirra er þörf þá hafa menn þurft að leysa úr þeim með einhverju bulli. Ein slík leið er að greina nemendur með hinn og þennan kvillann, og þá er hægt að fá fjármagn til að ráða einn láglaunamanninn til að létta undir með hinum. Ekki það að þetta sé allt uppspuni en sums staðar er það orðið svo að upp undir helmingur drengja er flokkaður með “sérþarfir”. Sorrý, helmingur barna getur ekki verið óvenjuerfiður.

Maður getur ekki annað en grátið yfir því hve mikið er eytt í það að gera líf eins láglaunafólks ögn bærilegra með því að ráða inn menn á rétt svo atvinnuleysisbótum til að vísa börnum til sætis í matartímanum og fylgjast með þeim róla, svo kennarinn gæti hvílt sig. Hvernig væri að borga einum manni tvöfalt fremur en tveimur skítt? Hvernig væri að eyða brotabroti af þessu skólaliða- og sérþarfafé til að búa til dæmis til sjóð þar sem toppkennarar úr hverjum útskriftarárgangi fá 200 þúsund króna álag á laun sín til að kenna í skólum sem eiga erfitt með að manna sig? Peningar eru ekki einu sinni aðalatriðið hér. Heiðurinn einn mundi duga langleiðina. “Er að kenna á Hólmafirði núna. Gangstas Paradise sjóðurinn er að smyrja ofan á launin hjá mér.”

Mig dreymir um fleiri töffara í kennarastéttina. Menn og konur sem koma inn óerðarbekki í Fellunum og gera börnin að origami-snillingum. Íþróttakennara sem koma klíkufautum inn í NBA. Fá svo kannski heil gjaldkeralaun fyrir og uppskera öfund og virðingu samkennara sinna.

En nei, við skulum einungis sníða kennarastarfið að áhættufælnum öryggisfíklum sem velja starfsöryggi á kostnað launa. Við skulum ekki leyfa neina launabreidd því það gæti farið illa í einhvern undirmálskennarann. Við skulum áfram eyða of miklu fé í að borga of mörgum of lítið. Og uppskera í meðallagi.

Skógur og tré

Þegar fyrsta og elsta stjórnarskrá heims var samin í Bandaríkjunum byrjuðu menn á því að ákveða sjálfa stjórnskipunina, hvernig samspilið ætti að vera milli forseta, þings og dómsstóla, hvernig velja ætti fólk í þessar stöður og hvernig mætti koma því frá. Þar var það stef ráðandi að ekkert eitt vald ætti að vera of öflugt, enginn einn maður of valdamikill.

Menn útkljáðu því fyrst hvernig deiluefnin skyldu leyst áður en þeir fóru að leysa þau. Þannig eiga góðar stjórnarskrár að vera.  Þær eiga að segja hvernig við tökumst á um hluti, þær eiga ekki endilega að tilgreina hver niðurstaðan eigi að vera.Það er auðvitað freistandi að bjóða sig fram til stjórnlagaþings og reyna að koma öllum sínum hjartdýpstu stefnumálum inn í grunnlögin. Ég hef til dæmis lengi verið þeirrar skoðunar að fólk fullorðið fólk ætti að geta keypt bjór ef það vildi og að gaman væri fyrir Íslendinga að geta keypt franskan ost án þess að borga aðra hendina fyrir. Mér þætti vissulega gaman að berjast fyrir tollabanni í stjórnarskrá, en það á ekki heima þar. Ekki frekar ákvörðun um það hvort fyrirtæki, bændur eða útlendingar megi eiga virkjanir eða tappa á vatnsflöskur.

Menn þurfa að sjá skóginn fyrir trjánum. Þingræðið á að veita ráðherrum aðhald, en í raun hefur það þýtt að þingið framselur lagasetningarvald sitt til ráðherra um leið og það samþykkir þá í starfið. Finnst mönnum þetta hafa gengið mjög vel? Finnst mönnum sem kerfið hafi skilað hæfu fólki í störfin?

Það væri heillandi hugmynd að kjósa ríkisstjórn beint. Þá þyrftu menn að leggja undir ákveðna stefnu, vera tilbúnir starfið strax eftir kosningar og þyrftu að svara fyrir það sem þeir lofuðu að gera. Á sama tíma ætti að láta Alþingi sjá alfarið um lagasetningu, löggjafarvaldið mun þá sjá um að setja lög og framkvæmdarvaldið framkvæma þau. Hvernig væri það?

Uppbygging stjórnkerfis er aðalatriðið í stjórnaraskrá. Stjórnlagaþingið á ekki að snúast um það að hver hugsjóna- eða hagsmunagæsluhópur fái að koma sinni línu að. Fólk má alveg berjast gegn kvótakerfinu, tollum, eða fyrir hinum og þessum réttindum. En þeim tveimur mánuðum sem stjórnlagaþinginu er ætlað að starfa er ekki best varið í umræður um hver megi kaupa fisk, bjór eða virkjun.

Skógur og tré

Þegar fyrsta og elsta stjórnarskrá heims var samin í Bandaríkjunum byrjuðu menn á því að ákveða sjálfa stjórnskipunina, hvernig samspilið ætti að vera milli forseta, þings og dómsstóla, hvernig velja ætti fólk í þessar stöður og hvernig mætti koma því frá. Þar var það stef ráðandi að ekkert eitt vald ætti að vera of öflugt, enginn einn maður of valdamikill.

Menn útkljáðu því fyrst hvernig deiluefnin skyldu leyst áður en þeir fóru að leysa þau. Þannig eiga góðar stjórnarskrár að vera. Þær eiga að segja hvernig við tökumst á um hluti, þær eiga ekki endilega að tilgreina hver niðurstaðan eigi að vera.
Það er auðvitað freistandi að bjóða sig fram til stjórnlagaþings og reyna að koma öllum sínum hjartdýpstu stefnumálum inn í grunnlögin. Ég hef til dæmis lengi verið þeirrar skoðunar að fólk fullorðið fólk ætti að geta keypt bjór ef það vildi og að gaman væri fyrir Íslendinga að geta keypt franskan ost án þess að borga aðra hendina fyrir. Mér þætti vissulega gaman að berjast fyrir tollabanni í stjórnarskrá, en það á ekki heima þar. Ekki frekar ákvörðun um það hvort fyrirtæki, bændur eða útlendingar megi eiga virkjanir eða tappa á vatnsflöskur.

Menn þurfa að sjá skóginn fyrir trjánum. Þingræðið á að veita ráðherrum aðhald, en í raun hefur það þýtt að þingið framselur lagasetningarvald sitt til ráðherra um leið og það samþykkir þá í starfið. Finnst mönnum þetta hafa gengið mjög vel? Finnst mönnum sem kerfið hafi skilað hæfu fólki í störfin?

Það væri heillandi hugmynd að kjósa ríkisstjórn beint. Þá þyrftu menn að leggja undir ákveðna stefnu, vera tilbúnir starfið strax eftir kosningar og þyrftu að svara fyrir það sem þeir lofuðu að gera. Á sama tíma ætti að láta Alþingi sjá alfarið um lagasetningu, löggjafarvaldið mun þá sjá um að setja lög og framkvæmdarvaldið framkvæma þau. Hvernig væri það?

Uppbygging stjórnkerfis er aðalatriðið í stjórnaraskrá. Stjórnlagaþingið á ekki að snúast um það að hver hugsjóna- eða hagsmunagæsluhópur fái að koma sinni línu að. Fólk má alveg berjast gegn kvótakerfinu, tollum, eða fyrir hinum og þessum réttindum. En þeim tveimur mánuðum sem stjórnlagaþinginu er ætlað að starfa er ekki best varið í umræður um hver megi kaupa fisk, bjór eða virkjun.

Sýndalýðræði

Árið 1971 er merkilegt ár í íslenskri kosningasögu. Það er eina skiptið á lýðveldistímanum kjósendum tókst að koma ríkisstjórn frá í almennum kosningum, með þeim hætti að stjórnin tapaði völdum og stjórnarandstaðan tók við. Í öðrum kosningum, hafa ríkisstjórnir haldið velli, og þá sjaldan sem þær hafa fallið þá hafa menn stoppað upp í stjórnarsamstarfið eða skipt út hluta stjórnarinnar.

Stjórnir á Íslandi falla oftast annað hvort á miðju kjörtímabili eða í leynimakkinu skömmu eftir kosningar. Óánægja eða “þreyta” í stjórnarsamstarfi á þannig mun meiri þátt í því hver stjórnar landinu og með hverjum, heldur en vilji kjósenda. Allir ganga óbundnir til kosninga og bjóða svo hver öðrum í sumarbústaði til að “þreifa fyrir sér”. Væri ekki betra væri ef baráttan um ráðherraembættin færi fram í kjörklefanum, en ekki á kaffistofu Alþingis?

Á Íslandi er þannig í raun algengast að stjórnir falli fyrst og svo komi kosningar, en þetta ætti í raun að vera öfugt. Með öðrum orðum þá skila forsætisráðherrar og ríkisstjórnir inn uppsagnarbréfum til þjóðarinnar áður en þau eru rekin, svo finna menn eftirmenn sem þjóðin samþykkir. Svoleiðis er þetta ekki alls staðar. Í Bretlandi hafa kjósendur rekið ríkisstjórnir sjö sinnum frá stríðslokum. Bretland þykir nú samt ekkert óstöðugt lýðræðisríki.

Ástandið á Íslandi stafar að einhverju leyti afleiðing þess kosningakerfis sem við búum við, í bland við vondar hefðir. Menn græða ekki endilega á því að sannmælast um einhverja stefnu fyrir kosningar og bjóða fram saman, það er alveg jafngott að bjóða fram sundruð og skilja málin eftir óleyst þangað til eftir kosningar. Það eru ágætis hlutskipti að vera meðalstór miðjuflokkur, sem getur unnið með öllum. Niðurstaðan hefur því orðið sú að allir flokkar á Íslandi þykjast einmitt vera miðjuflokkar sem geti unnið með öllum.

Einmenningskjördæmi líkt og tíðkast í Bretlandi eru fjarri því að vera fullkomin. Stærsti galli þeirra, mikið ósamræmi milli fylgis á landsvísu og fjölda þingsæta, er á sinn hátt þeirra stærsti kostur, því þar með gerist það oftar að einn flokkur ber skýra ábyrgð á stjórnun landsins og nokkurra prósenta sveiflur eru líklegri til að hafa áhrif á það hvort stjórn heldur eða fellur. Annar, ótvíræður kostur er að lýðræðislegt umboð þingmanna er skýrara og tengsl þeirra við kjósendur meiri. Enda er flokksagi almennt minni í löndum þar sem þingmenn eru ekki kosnir af löngum flokkslistum.

Í öllu falli væri heppilegt að auka aðkomu kjósenda að því hver það í raun er sem situr í ríkisstjórn, ýmist með því að flokkar lýsi þá yfir stuðningi við eitthvað tiltekið forsætisráðherraefni eða jafnvel að ríkisstjórnin sjálf verði kosin beint. Þótt eflaust má finna eitthvað að því kerfi getur það varla verið verra en kerfið sem gerði Björgvin G. að viðskiptaráðherra. Ég er með nafn á það kerfi: Gúbbræði.

Hérlendis eru ráðherrar með meistarapróf sjaldgæf sjón, og en nær útilokað er að sjá menn með skírteini frá toppháskólum rata í toppstöður í stjórnmálum. Til þess þyrftu þeir líklegast að brjóta sér leið fram hjá of mörgum verr gefnum en þolinmóðari mönnum sem nýtt hafa tímann í að kreista krumlur í sveitinni og tala vel um yfirmenn sína. En hvers vegna gerum við ekki meiri kröfur? Ég er ekki að segja að lög eigi að krefjast þess að ráðherrar hafi menntun eða reynslu sem hæfi starfinu, ég er að segja að við sjálf eigum að gera það.

Staðreyndin er nefnilega sú að langflestir ráðherrar seinustu áratuga hefðu ekki einu sinni þorað að bjóða sig fram til setu í þeim ráðherraembættum sem þeir á endanum hlutu, ef kosið hefði verið um þau. Hefði Árni Matthiesen þótt sterkur kandídat í stöðu fjármálaráðherra? Hefði konan sem ekki kunni ensku þótt koma sterklega til greina sem utanríkisráðherra? Nei, ég held að þau og margir aðrir hefðu ekki einu sinni þorað að mæta í atvinnuviðtöl um þessi störf, hvað þá að nokkurt skynsamt fyrirtæki hefði ráðið þau. Við eigum betri umsækjendur. Við þurfum bara kerfi sem finnur þá.

Ósóun

Ég hef alist upp við þá möntru að nefna “sóun” og “hið opinbera” nánast alltaf í sömu setningu. “Ríkið sólundar peningum í gæluverkefni stjórnmálamanna,” bergmálar mín eigin rödd í huga mér eftir margra ára endurtekningar. En sóun er ekki endilega rétta orðið.

Nýlega fékk ég að vinna á frístundaheimili í Reykjavík í um tveggja vikna skeið. Það var afskaplega næs. Margt kemur upp í hugann við upprifjun á þeirri reynslu en stórfeld sóun á fjármunum er ekki eitt af því. Þar kunnu menn sko að gera gott úr engu. Grilluð samloka með hálfri ostsneið og vatnsglas? Það er föstudagur, krakkar!

Vandi hins opinbera er þannig ekki endilega alltaf sóun heldur röng verðlagning. Gjald fyrir að hafa börn í frístundastarfi í hálfan dag með fæði er um 500 krónur. Það þarf því eiginlega verulega góða ástæðu til að láta börn sín ekki tefla og kubba við opinbera starfsmenn. Fyrir vikið er allt morandi af börnum. Launin eru svo auðvitað eins og þau eru. Í bullandi samkeppni við atvinnuleysisbæturnar um hvort sé lægra. Er hægt að kalla það sóun?

Raunar finnst manni ekki endilega vandamálið vera að starfsmennirnir í menntakerfinu séu almennt of fáir og líklegast væri ráð að hafa færri en borga þeim hærri laun. En launaguðirnir myndu auðvitað fara yfir um ef einhver legði það til. Þá væru laun einhvers orðin hærri en laun einhvers annars sem væri hræðilegt. Það er því frekar brugðið á það ráð að gera vinnu fólks auðveldari með því að ráða inn enn fleira láglaunafólk til að létta undir með þeim. Eins og skólaliða sem bíður á kaffistofunni eftir að frímínúturnar byrji.

Flest sem snýr að skólakerfinu er þannig verðlagt illa en jafnt. Sumir þeirra kennara sem hafa kennt mér hefðu átt að fá milljón á mánuði, aðrir hefðu átt að fá uppsagnarbréf. En ef það er eitthvað sem sósíalistarnir í kennaraforystunni geta barist gegn af fullum krafti þá er það að þeir sem leggja sig meira fram en aðrir í kennarastarfinu verði verðlaunaðir fyrir það.

Sósíalistanna í kennaraforystunni skortir þannig grunnþekkingu á mannlegu eðli og því hvað það er sem fær fólk til að velja sér starfsleið. Hægfara og flöt launahækkun mun ekki skila sé í fleira afburðarfólki í kennaranám. Hvað segirðu 230 þúsund en ekki 214? Hvar skrái ég mig? En ef 5% kennara hefði hálfa milljón á mánuði, og 1% hefði yfir milljón þá mundi það strax ýta fleira ungu afburðarfólki inn á þessa braut, því flestir myndu að sjálfsögðu sjá sig í þessu hlutverki. En hvatinn til að skara fram úr er enginn eða öfugur. Menn hækka um 10 þúsund krónur á mánuði við það að bæta við sig eins árs námi, hvaða rugl er það?

Kannski er sóunin í menntakerfinu einmitt of lítil. Það er ekki þar með sagt að við sem samfélag eigum að hlaua upp til handa og fóta og strá meira klinki jafnt yfir alla. En kannski væri ágætt að við, hvert og eitt okkar, myndum venja okkur við þá tilhugsun að sóa meiri peningum í menntun okkar og barnanna í stað þess að sóa þeim í hús, bíla og húsbíla.