Bless bless völd

Nelson Mandela verður alltaf einhvers konar forseti Suður-Afríku í mínum huga. Ég held raunar að svipað gildi um marga íbúa þess ríkis sem hann barðist fyrir og stýrði. Enda hefði Mandela auðveldlega geta verið forseti Suður-Afríku áfram, hefði hann kært sig um það. En hann kaus samt að stíga til hliðar.

Auðvitað var það það rétta í stöðunni. Til að lýðræðislegar stoðir lýðræðisríkja blómstri þurfa stórleiðtogar á borð við Mandela að kunna að draga sig í hlé á réttum tíma. Ellegar er hætta á að ekki reyni á stjórnarskrána og kosningahefðir fyrr en eftir að þeir látast í hárri elli og í því upplausnarástandi sem því fylgir er auðvelt fyrir ungt lýðræðisríki að fara af leið.

George Washington, fyrsti forseti Bandaríkjanna sat einungis í tvö kjörtímabil, þrátt fyrir að ákaft hafði verið lagt að honum að gegna embættinu lengur. Hann taldi mikilvægt að það færi að reyna á stjórnarskrána nýju. Bandaríkin voru á þessum tíma með einstakt stjórnkerfi, og auðvitað hefði verið auðvelt að detta aftur í “stöðugleika” konungsveldisins. Sem betur fer gerðist það ekki.

Sú hefð að Bandaríkjaforsetar sætu í tvö kjörtímabil hefur nú verið bundin í stjórnarskrána, og mörg ríki hafa raunar tekið hana upp. Margir Tékkar gátu þannig ekki hugsað þá hugsun til enda að einhver annar en Vaclav Havel ætti eftir að veita lýðveldinu forstöðu. Hann var þannig í svipaðri stöðu og Mandela. En líkt og hann skildi hann að kraftur lýðvelda er ekki bundin við sjarma og dugnað þeirra leiðtoga sem stýra þeim hverju sinni. Hann er bundin í stjórnkerfinu sjálfu, þessum stöðuga óstöðugleika, þar sem engin fær að ráða endalaust og synir kóngsins taka ekki sjálfkrafa við að honum látnum.

Eins freistandi og það hefði líklegast orðið fyrir þessi stórmenni að berjast fyrir sínum stefnumálum í mörg ár til viðbótar þá gerðu þeir sér líka grein fyrir að mannorð þeirri nýttist best í að tryggja friðsöm valdaskipti og treysta hefðir lýðræðisins. Að því loknu þurftu þeir að ganga burt af vellinum, og raunar alla leið upp í stúku. Það er nefnilega ekki gott að hafa einhverja skuggaleiðtoga á bekknum. Einhvern David Beckham sem enginn skilur hvað sé að gera þarna.

Leave a Reply

Your email address will not be published.