Bless bless völd

Nelson Mandela verður alltaf einhvers konar forseti Suður-Afríku í mínum huga. Ég held raunar að svipað gildi um marga íbúa þess ríkis sem hann barðist fyrir og stýrði. Enda hefði Mandela auðveldlega geta verið forseti Suður-Afríku áfram, hefði hann kært sig um það. En hann kaus samt að stíga til hliðar.

Auðvitað var það það rétta í stöðunni. Til að lýðræðislegar stoðir lýðræðisríkja blómstri þurfa stórleiðtogar á borð við Mandela að kunna að draga sig í hlé á réttum tíma. Ellegar er hætta á að ekki reyni á stjórnarskrána og kosningahefðir fyrr en eftir að þeir látast í hárri elli og í því upplausnarástandi sem því fylgir er auðvelt fyrir ungt lýðræðisríki að fara af leið.

George Washington, fyrsti forseti Bandaríkjanna sat einungis í tvö kjörtímabil, þrátt fyrir að ákaft hafði verið lagt að honum að gegna embættinu lengur. Hann taldi mikilvægt að það færi að reyna á stjórnarskrána nýju. Bandaríkin voru á þessum tíma með einstakt stjórnkerfi, og auðvitað hefði verið auðvelt að detta aftur í “stöðugleika” konungsveldisins. Sem betur fer gerðist það ekki.

Sú hefð að Bandaríkjaforsetar sætu í tvö kjörtímabil hefur nú verið bundin í stjórnarskrána, og mörg ríki hafa raunar tekið hana upp. Margir Tékkar gátu þannig ekki hugsað þá hugsun til enda að einhver annar en Vaclav Havel ætti eftir að veita lýðveldinu forstöðu. Hann var þannig í svipaðri stöðu og Mandela. En líkt og hann skildi hann að kraftur lýðvelda er ekki bundin við sjarma og dugnað þeirra leiðtoga sem stýra þeim hverju sinni. Hann er bundin í stjórnkerfinu sjálfu, þessum stöðuga óstöðugleika, þar sem engin fær að ráða endalaust og synir kóngsins taka ekki sjálfkrafa við að honum látnum.

Eins freistandi og það hefði líklegast orðið fyrir þessi stórmenni að berjast fyrir sínum stefnumálum í mörg ár til viðbótar þá gerðu þeir sér líka grein fyrir að mannorð þeirri nýttist best í að tryggja friðsöm valdaskipti og treysta hefðir lýðræðisins. Að því loknu þurftu þeir að ganga burt af vellinum, og raunar alla leið upp í stúku. Það er nefnilega ekki gott að hafa einhverja skuggaleiðtoga á bekknum. Einhvern David Beckham sem enginn skilur hvað sé að gera þarna.

Niður með HM kvenna

Í dag hefst HM karla í knattspyrnu, sem í daglegu máli er einfaldlega kallað HM í knattspyrnu. Eins og fáir vita verður HM kvenna haldið í Þýskalandi á næsta ári. Vonandi munu menn hafa þor til að leggja þá kynjuðu samkomu af í framtíðinni.

Hinn mikli munur í launum og virðingu karla- og kvennaboltans hefur ekkert með það að gera að stelpurnar sparki lausar eða að karlamarkverðirnir hoppi hærra. Skýringin er sáraeinföld. Þær íþróttir þar sem karla- og kvennaflokkar keppa á sömu mótum, búa við jöfnuð. Í þeim íþróttum þar sem keppt er á aðskildum mótum þar hallar mjög á konur. Hafi FIFA einhvern áhuga á því að kvennaboltinn öðlist jafnháan sess í hugum fólks og karlaboltinn, sem þessi rótrotni fitupungaklúbbur auðvitað hefur ekki, þá er eina vitræna skrefið til þess að leggja niður þessi sérstöku kvennamót og koma á fót einu sameiginlegu heimsmeistaramóti, sem gæti þá staðið undir nafni sem HM. Vitanlega yrði áfram keppt í karla- og kvennaflokki, en bara á sama stað.

Í tennis, frjálsum íþróttum, fimleikum og sundi njóta karl- og kvenkynskeppendur sömu virðingar. Í fótbolta, handbolta og mörgum öðrum hópíþróttum hallar mjög á konur. Það er í raun ekki skrýtið. HM í knattspyrnu er þannig 80 ára gamalt mót með sínar hefðir og goðsagnir, sinn fasta sess í hugum fólks. Í stað þess að bæta kvennakeppni við það mót og leyfa konunum að njóta þess orðstírs sem HM hefur skapað sér, og þeirrar umfjöllunar sem mótinu fylgir, var ákveðið búa til aðskilda keppni og láta hana byrja frá grunni. Af hverju í ösköpunum?

Það má ganga út frá því vísu að ef ákveðið hefði verið að búa til sérstakt kvenna-Wimbledon, sex vikum eftir „alvöru-Wimbledon“ þá hefðum við aldrei heyrt um Williams-systurnar. Ef ákveðið hefði verið að halda sérstaka kvennaólympíuleika, á einhverjum helvítis oddatöluárum, þá hefði engin frjálsíþróttakona geta haldið sér uppi af iðju sinni.

HM-kvenna eru mót sem vekja lítinn áhuga utan þess ríkis sem þau eru haldin í, og jafnvel þá einungis í sumum ríkjanna sem taka þátt. Enginn þar fyrir utan fær yfir höfuð að heyra þessi mót, hvað þá að hann hafi möguleika á að fylgjast með þeim í sjónvarpi. Áhorfendapallarnir eru yfirleitt hálftómir, nema þegar gestgjafarnir spila. Það væri auðvitað kjörið að nýta þá áhorfendur sem leggja leið sína HM-karla til að fylla kvennaleikina. Áður en langt en langt um liði yrði troðfullt á þá leiki einnig.

Sé einhverjum annt um jöfnuð í knattspyrnu þá eru sameiginleg stórmót fyrsta og langmikilvægasta skrefið, því annað, eins og laun og athygli mun sjálfkrafa fylgja. Því miður hafa æðstu yfirvöld knattspyrnuheimsins aðrar hugmyndir. Fyrir nokkrum árum lagði Sepp Blatter til að knattspyrnukonur klæddust meira eggjandi fötum. Fín hugmynd. Ef maður er fáviti.