Enginn jafnari en aðrir

Nýjar innritunarreglur í framhaldsskólanna litast talsvert af hugmyndum um að jafna gæði framhaldsskólanna. Með því að trampa á þeim grösum sem dirfast að standa upp úr.

Með breyttum reglum um inntöku í framhaldsskólanna, sem settar voru í vetur, er skólum skylt að taka inn 45% allra nýnema úr skólum í grenndinni. Reglurnar voru settar í kjölfar töluverðrar ringulreiðar við nýskráningu seinasta haust, óvenjumargir fengu ekki inngöngu í neinn þeirra skóla sem þeir sóttu um, og afnám samræmdra prófa jók á óvissuna um hvernig meta ætti nemendur úr ólíkum skólum. Við þessu eiga nýju reglurnar að sporna. Vandinn er hins vegar sá að ef 250 manns sækja um í skóla sem 100 komast í þá munu 150 nemendur verða ósáttir. Spurningin er bara við hvort eigum við að velja hina 100 á grundvelli þess hve klárir þeir eru, eða hve nálægt foreldrar þeirra kusu að kaupa sér íbúð 10 árum áður.

Ein þeirra raka sem heyra hefur mátt í umræðunni, sérstaklega frá vinstri væng stjórnmálanna, er æskilegt sé að framhaldsskólarnir séu „fjölbreytt samsettir“ og ekki sé æskilegt að til verði sérstakir „tossaskólar“ og „elítuskólar“. Það er auðvitað fráleit hugmynd að samkeppni milli skólanna sé óæskileg, og að bæta eigi við hugtakinu „vitsmunalegur jöfnuður“ inn í orðaforða menntamála.

En segjum að einhver myndi samþykkja að æskilegt væri að stuðla að því að allir framhaldsskólar á landinu væru jafngóðir, með því að banna samkeppni á milli þeirra. Jafnvel þá væri hverfisskólafyrirkomulagið ekki leið til þess að jafna aðstöðumunn milli nemenda. Til þess hefðu öll hverfi og allir bæir á Íslandi vera eins samsettir þegar kemur að bakgrunni nemenda, en það er ekki. Er það virkilega skref sem sem gengur gegn elítisma að nýbúi úr Breiðholti með 8 í meðaleinkunn eigi, ofan á allt annað, erfiðara með að komast inn í MR, MH eða Versló, langi hann til þess, en Vestur- eða Austubæingar með 6,5? Hvernig fá menn út að sú ójafna leiði af sér jöfnuð?

Bent hefur á að nýju 45% reglurnar séu ekki svo íþyngjandi fyrir marga skóla ef skoðað er frá hvaða skólum nýnemar seinustu ára hafa komið. En þá er gleymt að gera ráð fyrir að breyttar reglur leiða af sér breytta hegðun. Á málþingi um nýju reglurnar sem haldin var í Verslunarskólanum í gær kom fram í máli nemanda í 10. bekk að margir vina hennar þorðu ekki annað en að velja hverfisskólann sinn sem einn af valmöguleikum af ótta við að fá þá ekki inngöngu í neinn þeirra skóla sem þá langaði í, og verða sendir í skóla langt í burtu, ofan á allt annað. Það er því ljóst að reglurnar muni sjálfkrafa leiða til þess að nemendur sæki um skóla sem þeim er næst. Hvernig stuðlar það að fjölbreyttni í skólakerfinu?

„Það er að koma stríð!“

Það er ekki augljóst að það sé endilega farsælt til lengdar að grundvalla landbúnaðarstefnu á því að kjarnorkustyrjöld sé á leiðinni og að tryggja þurfi nægan mat handa öllum þegar til hennar komi. En jafnvel ef við lítum svo á að það sé göfugt markmið að hafa næga innlenda matvöru á ófriðartímum, og þar með að tryggja margrætt matvælaöryggi, þá er hæpið að núverandi landbúnaðarkerfi fullnægi þeim kröfum vel.

Nýlega birtist á netinu myndband sem kallaðist „Landbúnaðarstefna ESB á einfaldri íslensku“, þar sem sjá heyra mátti með fremur skýrum hætti ástæður þess að Bændasamtökin eru andsnúin ESB-aðild og þar sem var enn fróðlegra rökstuðning að baki þeirri ofurtolla-, styrkja- og haftastefnu sem íslenskan landbúnað einkennir. Rökin eru þessi: Ókei, kannski erum við ekki bestir í heimi í að framleiða allar þessar vörur sem við framleiðum, þannig að ef við opnum fyrir erlendan markað þá leggjast sumar búgreinar niður og svo ef leiðir til landsins lokast þá munum við sitja hérna með gúrkurnar okkar og fiskinn og munum ekki geta boðið landsmönnum upp á nægilega fjölbreytta og holla fæðu.

Gott og vel, fyrir það fyrsta þá liggur það fyrir, af þeim skýrslum sem gerðar, að mjög stór hluti landbúnaðargreina okkar mundi spjara sig ágætlega, hvort væri innan ESB eða ef tollar yrðu afnumdir án aðildar. Íslenska lambakjötið hefur einfaldlega mjög sterka ímynd meðal neytenda, mjólkin nýtur nálægðar við markaði. Það eru helst búgreinar eins og svína- og kjúklingarækt, þar sem má með hreinskilni og án minnimáttakenndar segja að aðrar einfaldlega standi okkur framar í hagkvæmni, að gætu áttu undir högg að sækja.

En hvaða handrit gætu leitt til þess að flutningar til landsins lokuðust eða minnkuðu mjög? Eitt slíkt er til dæmis langvarandi gjaldeyrisskortur, sem virðist raunar nú vera eins og eðlilegt ástand í lýðveldissögunni, með einstaka tímabilum gjaldeyrisnægtar og opinna markaða. Við ættum að gera sem minnst í að plana framtíðina með slíkt að leiðarljósi, leiðin ætti að vera mun fremur að fyrirbyggja það að landið lokist, að stefna að því að verslunarleiðir séu ávallt opnar og að fá okkur fullorðinsgjaldmiðil.

Viljum við hins vegar hafa vaðið fyrir neðan okkur ef kæmi til styrjaldar þá er óvíst að núverandi áherslur í landbúnaðarframleiðslu dugi til. Miðað við reynslu annarra þjóða á stríðstímum þyrfti líklegast að stórauka hér kartöflurækt. Svínarækt og önnur framleiðsla, sem að stærstum hluta byggir á innfluttu fóðri mundi gagnast lítið á ófriðartímum. Best væri því að auka magn ræktaðs lands á Íslandi en þá væri raunar mun farsælla, upp á matvælaöryggið að gera, að nýta það til að rækta þar korn og kartöflur handa mönnum heldur en korn handa svínum.

Ef við værum því að reyna að hindra hungursneyð á ófriðartímum væri því vænlegast til árangurs að veðja á fiskinn, kartöflurnar og rolluna. En ætli við vitum ekki flest að sérhagsmunagæslan í landbúnaðarkerfinu gengur út á margt annað en að tryggja rétt viðbrögð við raunverulegum hættum.