20 ár frá hruni kommúnismans í Póllandi

Þann 4. júní 1989 gengu Pólverjar að kjörborðinu í fyrstu hálflýðræðislegu kosningum í austurblokkinni. Stjórnarandstaðan vann þar mikinn sigur undir forystu Samstöðunnar. Í kjölfarið tók við fyrsta borgaralega ríkisstjórnin í Austur-Evrópu.

Það var í kjölfar töluverðrar þíðu á alþjóðavettvangi og efnahagslegra þrenginga innanlands að leiðtogar stjórnar og stjórnarandstöðu settust að samningaborðinu snemma ársins 1989. Niðurstaðan varð meðal annars sú að heimila skyldi formlega skráningu Samstöðunnar á ný, að hefja skyldi efnahagslegar umbætur og að boða skyldi til kosninga, sem skyldu vera frjálsar, að minnsta kosti að hluta til.

Eftir sem áður áttu 65% þingsæta að koma í hlut kommúnista (Sameinaða Pólska Verkamannaflokksins) og bandamanna þeirra, sér í lagi Bændaflokksins og Lýðræðisflokksins auk nokkurra minni Kristinlegra flokka. Þau nýmæli voru hins vegar sett í kosningalög að 35% þingsæta mátti að úthluta til frambjóðenda sem ekki buðu fram fyrir viðurkenndar stjórnmálahreyfingar og í þeim potti lágu vonir Samstöðunnar. Að auki var ákveðið að endurvekja Efri deild þingsins og kosningar til hennar áttu að vera frjálsar að öllu.

Öll helstu stjórnarandstöðuöflin buðu fram undir merkjum Samstöðunnar og ákveðið var hreyfingin skyldi bjóða einn frambjóðanda fyrir hvert þingsæti sem henni gat hlotnast, alls 161 frambjóðanda í neðri deild og 100 í efri deild. Allir þessi frambjóðendur voru myndaðir með Lech Walesa og þær ljósmyndir notaðar sem kosningaauglýsingar. (Nema raunar einn, Piotr Baumgart, sem kom því ekki við vegna tímaskorts). Þá fékk Samstaðan til liðs við sig frægar erlendar stjörnur á borð við Jane Fonda, Jack Nicholson og Stevie Wonder.

Í stuttu máli sagt var kosningabarátta stjórnarandstöðunnar því bæða skörp og fagmannleg, og hlaut mikinn meðbyr. Svo fór því að þrátt fyrir flóknar kosningareglur og yfirburði stjórnvalda í fjölmiðlum gjörsigraði Samstaðan kosningarnar. Allir 161 frambjóðendur hennar til neðri deildar náðu kjöri, þar af allir nema einn strax í fyrstu umferð. Til efri deildar vann Samstaðan 99 þingsæti af 100, sá eini sem ekki komst að var áðurnefndur Piotr Baumgart, sá sem ekki náðist að festa á mynd með Lech Walesa fyrir kosningar.

Til að bæta enn niðurlægingu stjórnarflokksins féllu nánast allir frambjóðendur á svokölluðum landslista en í þeirra röðum voru margir af leiðtogum flokksins. Raunar gerðu kosningalögin ekki einu sinni ráð fyrir slíkum ósigri og þurfti að uppfæra lögin milli umferða til að manna tækist öll þingsæti.

Landslagið á Þinginu að loknum kosningum var því gjörbreytt frá sem þekktist í nokkru ríki handan járntjaldsins. Stjórnarandstaðan ríkti lögum og lófum í efri deild en í neðri deild voru Samstaðan og valdaflokkur vinstrimanna nokkuð svipuð að stærð, auk þess sem þó nokkrir minni flokkar, allt gamlir leppflokkar stjórnarflokksins, áttu þar sæti. Fljótt varð þó ljóst að trygglyndi þessara gömlu uppfyllingarflokka stjórnvalda var ekki það sama og áður. Þannig mistókst forsætisráðherraframbjóðanda valdaflokksins, Czeslaw Kiszczak að mynda ríkisstjórn og Tadeusz Mazowiecki, Samstöðunni, myndaði stjórn með stuðningi Bændaflokksins og Lýðræðisflokksins, þó svo að vinstrimenn hafi einnig haft aðild að þeirri stjórn (fengu m.a. innanríkis- og varnarmálaráðuneyti).

Þessi fyrsta ókommúníska ríkisstjórn austan járntjaldsins tók hraða stefnu í átt til lýðræðis- og markaðsvæðingar samfélagsins en stefna vinstrimanna í kosningunum hafði verið að gera ýmsar umbætur á sósíalismanum án þess þó að kollvarpa kerfinu. Þeir Mazowiecki og Balcerowicz, þáverandi fjármálaráðherra, eiga miklar þakkir fyrir vasklega framgöngu á þessum fyrstu dögum pólsk lýðræðis, en margar þær umbætur sem ráðist var í á efnahagslega sviðinu voru mörgum erfiðar, og eru umdeildar fram á þennan dag. Balcerowicz má þannig með sönnu kalla nýfrjálshyggjumann og vilji menn meina að stefna hans hafi skilið eftir sviðna jörð í Póllandi, þá legg ég til að hann verði fenginn til að brenna sinu sem víðast.

Að lokum má ekki heldur gleyma þeim sitjandi valdhöfum í Póllandi og víðar, sem beygðu sig undir lýðræðislegan vilja þjóða sinna, þótt seint væri. Því miður þá voru aðrir kommúnískir valdhafar ekki jafnfúsir að láta völd sín af hendi þennan örlagaríka dag, 4. júní 1989. Og stjórna þeir enn.

Leave a Reply

Your email address will not be published.