Sigur Evrópusinna

Þeir sem hlynntir eru inngöngu Íslands í Evrópusambandið unnu nauman, en markverðan sigur í afstöðnum kosningum. Þeir flokkar sem hlynntir eru aðildarviðræðum fengu 51,8% atkvæða og 33 þingmenn kjörna.

Auk þess er ljóst að þónokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa þegar, með misloðnum hætti, lýst yfir stuðningi við aðildarumsókn í Evrópusambandið, svo ætla má að öruggur meirihluti sé fyrir því á Alþingi að slík umsókn verði lögð fram. Raunar var það mjög athyglisvert að bæði formaður og varaformaður lýstu yfir óánægju með Evrópstefnu eigin flokks í viðtölum á kosninganótt. Það sama gerði Ragnheiður Ríkharðsdóttir í viðtali á sunnudagsmorgun.

Stefna Sjálfstæðisflokksins í Evrópumálum eins og hún var samþykkt á seinasta landsfundi varð sú að flokkurinn lýsti sig fylgjandi tvöfaldri atkvæðagreiðslu um málið, en mundi ekki beita sér fyrir slíkri lausn. Sú stefna fældi eflaust frá heilmarga evrópusinnaða kjósendur en virðist ekki hafa laðað til sín ESB-andstæðinga í jafnmiklum mæli.

Nú að loknum kosningum reynir hins vegar á að Sjálfstæðisflokkurinn sýni frumkvæði og fylgi eftir Evrópustefnu sinni. Þar sem ljóst er meirihluti sé á Alþingi fyrir aðildarumsókn ættu þingmenn flokksins að beita sér fyrir að tvöfaldri atkvæðagreiðslu um málið.

Samningsstaða Sjálfstæðisflokksins (og VG) er í raun mun sterkari en virðast megi í fyrstu. Þrátt fyrir að aðildarumsókn sjálfa mætti hugsanlega afgreiða með einfaldri þingsályktunartillögu er aðildarferlið sjálft langt ferðalag sem krefst m.a. breytinga á stjórnarskrá. Það er því afar mikilvægt að sem mest sátt sé um aðferðafræðina og málsmeðferðina. Sjálfstæðisflokkurinn gat stoppað stjórnarskrárbreytingar einn síns liðs og því ljóst að erfitt væri að samþykkja nauðsynlegar úrbætur á stjórnarskránni ef bæði Sjálfstæðisflokkurinn og VG væri þeim andvíg.

Ein hugsanleg málamiðlun er eftirfarandi: Unnar verði tillögur að stjórnarskrárbreytingum sem munu gera ESB-aðild Íslands mögulega. Þær tillögur verða lagðar í þjóðaratkvæði fyrir árslok. Verði tillögurnar samþykktar munu þær vera lagðar formlega fyrir alþingi og samþykktar formlega fyrir næstu kosningar. Einhvers konar heiðursmannasamkomulag mun þurfa milli flokkanna um að fylgt verði þjóðarinnar því ekki er hægt að leggja stjórnarskrárbreytingar í þjóðaratkvæði skv. núverandi fyrirkomulagi.

Verði breytingarnar hins vegar felldar muni formlegum aðildarviðræðum við Evrópusambandið hætt þegar í stað.

Með þessu móti fá allir eitthvað fyrir sinn snúð. Efasemdarmenn um ESB fá tvöfalda atkvæðagreiðslu um málið en Evrópusinnar fá sátt um málsmeðferð og þannig tryggingu fyrir því að málþófi og öðrum brögðum verði ekki beitt til að leggja stein í götu aðildar, ef meirihluti reynist vera fyrir henni meðal þjóðarinnar.

Leave a Reply

Your email address will not be published.