Þegar Ísland þurfti regnhlíf

Þegar ég hafði labbað nokkur skref frá járnbrautarstöðinni byrjaði að rigna. Og þetta var engin smá rigning. Sannkölluð miðevrópsk stórdemba sem varað gæti í nokkra kluttutíma. En viti menn, einungis örfáum metrum frá munna ganganna sem tengdu aðallestarstöðina í Kráká við innganginn í gamla bæinn stóð basar sem á stóð skýrum dökkbláum stöfum: REGNHLÍFAR.

Það var rigning. Ég var EKKI með regnhlíf. Þarna var kona að SELJA regnhlífar. Lausnin virtist blasa við. En nei…

Ég rifjaði upp þau fornu sannindi að á fjölförnum ferðamannastöðum væri maður ólíklegur til að gera góð kaup. Regnhlífin sem ég mundi kaupa á þessum bás yrði áreiðanlega margfalt dýrari en sambærileg regnhlíf í hvaða stórmarkaði sem er. Svo yrði hún örugglega algjört drasl og dytti í sundur við fyrstu vindhviðu. Vissulega væri hægt að spyrja um verð og fá að prófa en, æi, þá er orðið svo erfitt að segja “nei”. Erfitt og óþægilegt, bæði fyrir mig og sölukonuna…

Ég hélt því ferð minni áfram. Svipaðist um eftir betri dílum. Leitaði að ódýrum stórmarkaði í borg sem ég hafði ekki heimsótt í mörg ár. Reyndi aðeins að ganga út fyrir elsta hluta bæjarins en endaði í tómu rugli. Sneri við. Ég fann raunar nokkra aðra smábása með regnhlífum en þeir virtust nú eiginlega vera verri en sá sem ég hafði séð fyrst. Ég gat nú ekki verið búinn að labba í korter til að kaupa svo eitthvað VERRA. Hélt því áfram að leita. Blautari með hverri sekúndu sem leið.

Íslendinga vantar gjaldmiðil. Við hlið Íslands er ríkjasamband sem býður upp á gjaldmiðil. Lausnin virðist nú aftur blasa við. En vopnuð þeirri rótgrónu, þjóðlegu visku að umrætt ríkjasamband sé afar slæmur kostur höldum við áfram að leita. Kannski mun einhver lána okkur gjaldmiðilinn sinn? Kannski getum við bara farið að nota hann án þess að spyrja. Kannski getum við búið til nýjan gjaldmiðil með einhverjum öðrum?

Raunar eiga allir þeir kostir sem nefndir eru í gjaldmiðlamálum það sameiginlegt að vera margfalt skárri en óbreytt ástand, og nokkrir þeirra eru meira að segja raunhæfir. En upptaka Evrunnar í gegnum inngöngu í ESB er án efa sá kostur sem blasir mest við. Þar að auki er hann klárlega bestur, allavega ef litið er til peningamála einna saman. Helsta gagnrýnin á hann snýr að þeim ESB-pakka sem honum fylgir, það er þeim hugsanlega kostnaði og fórnum sem sumir vilja meina að Íslendingar þurfi að færa með inngöngu í sambandið. Sá kostnaður verður ekki metin nema í gegnum aðildarviðræður.

Eftir nokkra kortera ráf hafði ég loks fyrir því að spyrja afgreiðslukonuna um verðið á regnhlífunum í þeirri sjoppu sem ég rakst á fyrst og að því loknu pungaði ég út þessum tæpa fimmhundruðkalli sem ein regnhlíf kostaði. Síðan gekk ég í áttina að Gamla torginu. Rennandi blautur. En tilbúinn fyrir óveður framtíðarinnar.

Leave a Reply

Your email address will not be published.