Sjálfbærar atkvæðaveiðar Einars K.

Einar K. ákvað að kveðja sjávarútvegsráðuneytið með afar umdeildri ákvörðun um stórauknar hvalveiðum, sem vitað var að verðandi ríkisstjórn ætti erfitt með að kyngja. Væri íslenskri stjórnsýslu greiði gerður ef fyrsta verk nýrra ráðherra þyrfti ætíð að vera að vinda ofan af barnalegum hrekkjum forvera sinna?

Fyrir nokkrum misserum, meðan Guðni Ágústsson var enn ráðherra, barst landbúnaðaeráðuneytinu fyrirspurn um hvaða leyfa þyrfti að afla til að stunda hundarækt til manneldis. Þetta þótti ógeðsleg fyrirspurn og var henni ekki sinnt. Það er þó auðvitað engin ástæða til að leyfa hvalveiðar en banna hundaát. Hvort tveggja er tabú í stærstum hluta heims en hvort tveggja skapar víst atvinnu og hvort tveggja sýnir þessum útlendingum í útlöndum að við ráðum hvað við drepum og hvað við étum.

Í Kína og Kóreu eru hundar víst étnir. Hefði Einar K. Guðfinnsson lögleitt hundaræktun til manneldis á seinustu dögum í embætti hefði mátt nýta gámana sem flyttu hvalkjötið okkar til Japan til að senda með pakka af frosnu hvolpahakki. Nammi-namm.

En laust frá öllu gríni og viðbjóði þá er ákvörðunin um að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni auðvitað svo pólitísk og svo umdeild að fráleitt er að ráðherra í dauðvona ríkisstjórn taki hana. Alveg óháð því hvað mönnum finnst um ákvörðunina sjálfa, þá er það hrikalegt fordæmi að ráðherrar noti seinustu stundir sínar í embætti til að taka ákvarðanir sem þeir mega vita að arftakar þeir geti erfiðlega sætt sig við. Hvernig væri ef allar nýjar ríkisstjórnir þyrftu að hefja ferilinn á að, leggja niður nýstofnaðar ríkisstofnanir, reka nýráðna umboðsmenn og fella úr gildi nýsettar reglugerðir? Væri þetta heppileg stjórnhefð?

Ef til vill hlakkar í Einari og öðrum yfir því að hafa raskað starfsfrið hinnar nýju stjórnar og skorað um leið pólitískan fimmaur. Og kannski er þetta jafnvel pinku sniðugt. En djöfull er þetta barnalegt.

Leave a Reply

Your email address will not be published.