Nóg komið af bullinu í Ólafi Ragnari

Forsetinn mætti kannski taka sér smá pásu frá því að ræða við útlendinga, sérstaklega þá sem bera plastaða fréttamannapassa utan um hálsinn. Í staðinn ætti hann nota afganginn af seinasta kjörtímabili sínu til byggja aftur upp þá virðingu forsembættisins sem það hafði áður en hann tók við því. Það á ekki að vera hlutverk forsetans að tjá sig um greiðslugetu ríkissjóðs, né heldur ætti hann að hella sér yfir erlenda diplómata á tvísýnum tímum.

Það er ekki allt upp á Ólaf að klaga. Hann hefur nú alla vega ekki verið litlaus forseti, og ákvörðun hans um synjun á undirritun á fjölmiðlalögunum var ekki röng . En seinustu misseri hans í embætti eru honum til lítils sóma. Klappstýrustörf hans fyrir íslenskra útrásarvíkinga, óþörf og óskiljanleg afskipti hans af ríkisstjórnarmyndun og nú síðan háskaleg ummæli hans í erlendum fjölmiðlum; allt þetta hlýtur að vekja menn til umhugsunar um hvort Ólafur Ragnar sé starfi sínu vaxinn.

Það er því miður ansi veikur málstaður að ætla sér að afneita með öllu ábyrgð á skuldum „óreiðumanna“ þegar sjálfur forseti þjóðarinnar hefur ítrekað lagt nafn sitt við kynningarherferðir þeirra. Su ákvörðun Ólafs að fara all in í klappstýruhlutverk fyrir íslenska athafnamenn hefur reynst skaðleg fyrir embættið og stöðu þess sem sameiningartákns þjóðarinnar. Á þessari framkomu skuldar forsetinn okkur enn afsökunarbeiðni. Su afsökunarbeiðni ætti síðan að vera bæði einlæg og ítarleg, og í einhverju samhengi við umfang skaðans sem orðið hefur.

Það er ákveðinn munur á afsökunarbeiðni og afsökun. Forsetinn kann annað af þessu betur en hitt.

Það er líka mikið um að fólk í kringum forsetann hafi aðra túlkun á orðum hans og athöfnum en hann sjálfur. Þannig vill forsetinn meina að þýski blaðamaðurinn hafi rangtúlkað sig þegar hann skrifaði að Ólafur sagði Íslendinga ekki ætla að standa við Kaupþing Edge skuldbindingarnar í Þýskalandi. Er það virkilega svo? Blaðamaðurinn spyr um skuldir gagnvart þýskum sparifjáreigendum. Svar Ólafs byrjar á: „Þýskur almenningur verður að skilja að…“ Eftir að hafa hlustað og lesið orðrétt svör Ólafs er í raun ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að þýski blaðamaðurinn hafi túlkað ummælin nákvæmlega eins og allir aðrir hafi gert: Sem afsökun fyrir því að Íslendingar hygðust ekki borga.

Framkoma forsetans á fundi með sendiherrum nágrannaríkja Íslands seinasta haust er svo annað mál, en traustar heimildir virðast fyrir því að forsetinn hafi hellt sér yfir sendiherra nokkra ríkja og jafnvel sagst hafa lofað Rússum ýmsu skrýtnu. Í fyrsta lagi er ljóst að slík afstaða er ekki til þess fallin að byggja upp traust umheimsins á Íslandi, og í öðru lagi þá er það auðvitað ekki í verkahring forsetans heldur ríkisstjórnarinnar að eipa á útlendinga þegar við teljum þá beita okkur órétti.

Loks ber að nefna algjörlega óþarft inngrip Ólafs í ríkisstjórnarmyndum VG og Samfylkingarinnar snemma á árinu sem og illskiljanlegt rifrildi hans um þingrofsréttinn. Til hvers var sú deila? Forsætisráðherra ætlaði ekki að rjúfa þing; og jafnvel þótt hann hefði gert það þá hefði það verið í fullkomnu samræmi við vilja stjórnarandstöðunnar og mótmælenda. Var það virkilega mat Ólafs að ofan á bankakreppuna, efnahagskreppuna og stjórnarkreppuna þyrfti að bæta við stjórnLAGAkreppu?

Forsetinn, sem vildi kenna sig við útrás, er greinilega jafnsleginn og við hin yfir atburðum seinustu mánaða. Á erfiðum tímum þarf menn sem blása eldmóð í hjörtu fólks. Óvarlegar yfirlýsingar í erlendum fjölmiðlum, reiði í gerð útlenskra dipómata, illskiljanlegir stjórnlagaleiki og endalausar, endalausar afsakanir Ólafs gefa ekki til kynna að hann sé rétti maðurinn í verkið.

„Eitthvað alvöru“

Með hruni hins „óraunverulega“ bankahagkerfis ríður yfir samfélagið bylgja mikillrar trúar á allt sem er raunverulegt og konkret. Nú á sko að fara að búa til alvöru efnisleg verðmæti og ekkert rugl. Það er í sjálfu sér eðlileg leiðrétting frá því hugarfari sem ríkti fyrir skömmu en hins vegar má ekki skipta oftrú á skuldsettar yfirtökur út fyrir oftrú á matvælaframleiðslu og álbræðslu. Heimurinn þarf ekki tvöfalt meiri mat og bíla en áður.

Einn helsti lærdómur af kreppum seinustu ára ætti í raun að vera að draga ekki af þeim of mikinn lærdóm. Þegar netbólan sprakk upp úr aldamótum tóku menn eftir að meðan allt hrundi hélt húsnæðisverð þó sínu striki. Af þessu drógu menn þann „lærdóm“ að húsnæðisverð hlyti að vera eitt af þessu sem myndi alltaf hækka. Þessi fíni „lærdómur“ leiddi svo til þess að allir vildu kaupa húsnæði, allir vildu gera upp gamalt húsnæði, allir vildu byggja húsnæði og allir vildu lána öllum til að gera þetta allt saman.

Þessi mikla fjórveggjatrú styrkti sjálfa sig með hverjum mánuði hækkandi íbúðarverðs og dreif að einhverju leyti áfram hinn mikla vöxt bankakerfis um allan heim. En það var ekkert fleira fólk til að búa í öllum þessum nýju húsum sem byggð voru. Og þegar of fáir vilja búa í mörgum húsum getur markaðurinn aðeins gert eitt.

Nú, eftir bankahrunið, líta menn aftur í kringum sig og reyna að draga nýja og betri lærdóma. Á meðan óskiljanlega spilaborgin með skuldabréfavafningum, undirmálslánum og öðrum nýþýddum hugtökum hefur hrunið virðist gamla góða fiskvinnslan enn tóra. Menn hugsa því með sér: „Auðvitað gat engin orðið ríkur á því að reka banka á Íslandi. Banki skapar engin raunveruleg verðmæti. Miklu betra að framleiða bara mat. Það þurfa allir mat!“

Það virðast því ansi margir bitið það í sig að dagar kapitalismans og þar með hinna „óþörfu milliliða“ séu taldir. Nú muni allir þurfa að gera eitthvað konkret; veiða fisk, slátra lömbum, rækta tómata og framleiða ál. Þetta hafa margir stjórnmálamenn tekið óstinnt upp. Nú á að veiða fleiri hvali og reisa fleiri álver. Þær framkvæmdir sem ríkið skal ráðast í eiga svo að vera sem mannaflfrekastar (les: óhagkvæmar). Allir eiga að vinna við eitthvað alvöru, og helst að nota til þess skóflu.

Ekkert af þessu er í sjálfu sér slæmt. Höfum það hins vegar í huga að alls staðar í heiminum eru menn að hugsa nákvæmlega það sama og við. Alls staðar í heiminum eru stjórnmálamenn að fara reisa álver til að rétta við atvinnuástandið, alls staðar eru menn að fara efla „alvöruframleiðslu“ um leið og þeir hæða þær kjánalegu loftkenndu hugmyndir sem einkenndu skeiðið á undan. En þörfin á mat, áli og öðrum konkret hlutum verður ekki margfalt meiri en hún var í gær.

Allar hugmyndir sem mistakast hljóma asnalega eftir á. Þann dag sem Coca-Cola fer á hausinn munu allir banka í ennið á sér og segja: „Hvernig datt einhverjum í hug að hann gæti orðið ríkur af því að menga drykkjarvatn með óþörfum litarefnum, bragðefnum og hitaeiningum?“ Þann dag sem tyggjóframleiðsla hrynur munu allir skyndilega átta sig á hve pointless hlutur tyggjó er. Og þá verða hausar hristir. Líkt og þeir hristast nú yfir þeirri hugmynd okkar Íslendinga að við yrðum dag einn rík út af bankarekstri.

Ríkið drap kaupmanninn á horninu

Einn tangi af áfengissölustefnu stjórnvalda er algjör dauði litlu hverfisbúðanna. Nýlega lokaði verslunin Þingholt þegar Bónus flutti í hverfið. Það er nöturlegt að ekki sé einu sinni hægt að reka verslun sem þessa á einu alþéttbýlasta svæði landsins.

Það eru tveir hópar sem áfengissala í almennum verslunum mundi breyta litlu fyrir: bindindismenn og áfengissjúklingar. Þeir fyrstu gætu haldið áfram að kaupa ekki áfengi úr Hagkaup í stað þess að kaupa það ekki í Ríkinu. Þegar kemur að þeim síðarnefndu er vitað að aðgangsstýringar á borð við takmörkun á dreifingu hafa lítil áhrif. Lýðheilsurökin þegar kemur að ríkiseinokun á áfengissölu eiga því varla við þessa tvo jaðarhópa. Hins vegar er ljóst að aðgengi þess stóra hluta þjóðfélagsins sem neytir áfengis í hóflegu óhófi mundu batna, og ekki er fráleitt að halda því fram að neysla þess hóps mundi ef til vill aukast. Með tilheyrandi neikvæðum heilsufarslegum afleiðingum fyrir þjóðina, vilja sumir meina.

Í fyrsta lagi er það skoðun mín að almenn ætti ekki að nota einhverja samfélagsverkfræði til að taka ákvarðanir úr höndum fullburða og fullþroska fólks. En í öðru lagi þá held ég að horfa beri á stóru myndina. Sú stefna að selja áfengi einungis í fáum sérhæfðum verslunum hefur hyglt stórum verslunarkjörnum á kostnað smærri verslana. Í viðleitni sinni til að „svara kalli nútímans“ hefur Ríkið flutt í Kringluna og Smáralind – nálægt stórmörkuðunum og veitt þeim enn meira forskot fyrir vikið.

Bíllinn hefur komið í stað fóta. Litlar hverfisverslanir hafa lagt upp laupanna og öll þjónusta hefur færst á örfáar miðstöðvar sem oftar en ekki liggja fjarri íbúðarbyggð. Í stað líflegs íbúðarmynsturs eins og í Kaupmannahöfn þar sem hægt er að ganga eða hjóla í alla þjónustu þá sitjum við uppi með bandaríska bílaborg.

Holdafar Íslendinga er að verða að alvarlega heilbrigðisvandamáli og tengsl þess vanda við byggðamynstrið er skýr. Það er sorglegt að nær öll þjónusta í hverfum Reykjavíkur, nema kannski hin opinbera barnavistun, sé horfin. Þeirri þróun þarf að snúa við til að búa til mannvæna borg. Afnám einkaleyfis ríkisins á sölu á áfengi væri skref í þá átt.

Sjálfbærar atkvæðaveiðar Einars K.

Einar K. ákvað að kveðja sjávarútvegsráðuneytið með afar umdeildri ákvörðun um stórauknar hvalveiðum, sem vitað var að verðandi ríkisstjórn ætti erfitt með að kyngja. Væri íslenskri stjórnsýslu greiði gerður ef fyrsta verk nýrra ráðherra þyrfti ætíð að vera að vinda ofan af barnalegum hrekkjum forvera sinna?

Fyrir nokkrum misserum, meðan Guðni Ágústsson var enn ráðherra, barst landbúnaðaeráðuneytinu fyrirspurn um hvaða leyfa þyrfti að afla til að stunda hundarækt til manneldis. Þetta þótti ógeðsleg fyrirspurn og var henni ekki sinnt. Það er þó auðvitað engin ástæða til að leyfa hvalveiðar en banna hundaát. Hvort tveggja er tabú í stærstum hluta heims en hvort tveggja skapar víst atvinnu og hvort tveggja sýnir þessum útlendingum í útlöndum að við ráðum hvað við drepum og hvað við étum.

Í Kína og Kóreu eru hundar víst étnir. Hefði Einar K. Guðfinnsson lögleitt hundaræktun til manneldis á seinustu dögum í embætti hefði mátt nýta gámana sem flyttu hvalkjötið okkar til Japan til að senda með pakka af frosnu hvolpahakki. Nammi-namm.

En laust frá öllu gríni og viðbjóði þá er ákvörðunin um að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni auðvitað svo pólitísk og svo umdeild að fráleitt er að ráðherra í dauðvona ríkisstjórn taki hana. Alveg óháð því hvað mönnum finnst um ákvörðunina sjálfa, þá er það hrikalegt fordæmi að ráðherrar noti seinustu stundir sínar í embætti til að taka ákvarðanir sem þeir mega vita að arftakar þeir geti erfiðlega sætt sig við. Hvernig væri ef allar nýjar ríkisstjórnir þyrftu að hefja ferilinn á að, leggja niður nýstofnaðar ríkisstofnanir, reka nýráðna umboðsmenn og fella úr gildi nýsettar reglugerðir? Væri þetta heppileg stjórnhefð?

Ef til vill hlakkar í Einari og öðrum yfir því að hafa raskað starfsfrið hinnar nýju stjórnar og skorað um leið pólitískan fimmaur. Og kannski er þetta jafnvel pinku sniðugt. En djöfull er þetta barnalegt.