Líf í sósíalísku hagkerfi III

Í þessum þriðja og seinasta pistli um sósíalísk hagkerfi er rætt um vinnumarkaðinn, eða öllu heldur það hvernig best sé að halda sig frá honum. Þá er einnig fjallað um húsnæðisleit á sósíalískum fasteignamörkuðum.

Hvort sem stendur eða hvílir, þúsund zloty á hann skilið.
– pólskur málsháttur frá tímum kommúnismans

Fyrir áhugamenn um fjárhagslegan jöfnuð eru bjartir tímar framundan. Enginn þarf að óttast að vera rekin eða lækkaður í launum fyrir það að eitt vera latur. Flestir vinnustaðir verða fjölmennir og óskilvirkir enda verður það stefnan að allir hafi eitthvað að gera. Við getum því átt von á því að nýjar starfsstéttir eins og “aðstoðarbílstjóri”, “burðarmaður blaðbera”, og “rúllustigavörður” líti dagsins ljós.

Enginn má heldur að eiga von á því það að vera hækkaður í launum fyrir að vera duglegur, enda væri það þannig séð til lítils þar sem meiri peningar skila manni litlu þegar ekki er hægt að kaupa neitt. Því þarf að fara aðrar leiðir ef auka á lífsgæðin.

Allir eru sérstakir

Eitt það mikilvægasta sem hver sósíalískur borgari er að fá uppáskrifaðar einhverjar sérþarfir eða í versta falli kynnast einhverjum með slíkar. Með réttum pappírum er nefnilega hægt að fá heilmargt, t.d. ódýrari miða í almenningssamgöngur, skjótari afgreiðslu í búðum og stofnunum, auðveldari aðgang að húsnæði og oft jafnvel beinharðan pening frá hinu opinbera.

Nú getur einhverjum lesendum fundist sem ekkert ami að þeim og þeir geti auðveldlega unnið fyrir sér án sérstakrar fyrirgreiðslu. Það er ágætt en dugar skammt í sósíalísku hagkerfi. Stórir þættir samfélagsins standa mönnum lokaðir ef þeir tilheyra engum fríðindahópi. Til allrar hamingju eru hóparnir sem líklegt er að njóti fyrirgreiðslu ansi margir svo allir ætti að finna sér sinn stað. Dæmigerður listi gæti litið svona út:

námsmenn,
aldraðir,
öryrkjar,
atvinnulausir,
óléttar konur,
konur með barn á brjósti,
kennarar,
einstæðar mæður,
sjómenn með ákveðna starfsreynslu,
Eyjamenn sem upplifðu gosið og börn þeirra,
þeir sem störfuðu í Landhelgisgæslunni á tímum þorskastríðsins,
lögreglumenn,
æðstu embættismenn ríkisins,
verðlaunahafar frá Ólympíuleikum.

Veru í mörgum þessara hópa munu fylgja bætur og í þeim tilfellum ættu menn að íhuga vandlega hvort það borgi sig nokkuð að stunda vinnu. Eflaust hugsa margir að það hljóti að vera leiðinlegt að vera á bótum allan liðlangan daginn. Fólk sem hugsar svo, veit ekki hve í mörgum biðröðum í verslunum og stofnunum borgarar í sósíalískum hagkerfum þurfa að standa í í hverri viku. Það er í raun full vinna að bíða eftir mjólkinni, kjötinu, grænmetinu, bensíninu og svo auðvitað í biðröðum eftir öllum skömmtunarmiðunum. Þá þarf að fara til læknis reglulega, til að láta athuga, hvað sem það er sem blessunarlega heldur manni frá vinnumarkaðnum, og ekki eru biðraðirnar nú minni þar.

Ef menn af einhverjum óskiljanlegum ástæðum kjósa að stunda launaða vinnu, er mælt með að þeir kynnist svokölluðum biðraðaöryrkja og láti hann standa í röðum fyrir sig. Æskilegt er að öryrkinn hafi fötlun sem gefur honum rétt á að fá afgreiðslu fram fyrir röð. Það eykur mjög líkurnar á að geti keypt það sem vantar hverju sinni. Biðraðaöryrkinn þarf vitanlega að fá greitt með einhverju móti, helst með gjaldeyri eða einhverju glansandi stöffi sem þið fáið sent frá útlöndum. Einnig gæti hjálpað að gefa honum skömmtunarmiða sem menn nota ekki sjálfir. Hann getur auðveldlega selt þá til einhvers annars sem hann er að bíða fyrir.

Húsnæði

Þröngt er setið um gott húsnæði á sósíalískum markaði, enda lítill hvati fyrir fólk til að byggja nýjar íbúðir eða flytja úr gömlum. Ástæðan er sú að lítill verðmunur er á leigu, þegar ríkið eignast nánast allt húsnæðið.

Þróunin verður eitthvað á þessa leið:Fyrst verður húsnæði fólks í vanda keypt af því, svo eignast ríkið íbúðir með lánaveðum og loks verður auðum nýbyggingum breytt í félagslegar íbúðir. Að þessu loknu verða fljótlega settar hömlur á útleigu og sölu á restina af fasteignum (t.d. verðþök eða reglur um ábúðarskyldu).

Evrurnar frá systur manns munu því ekki nýtast jafnvel hér enda lítið um gráan markað (með góðar íbúðir þ.e.a.s.). Húsnæðismarkaðurinn verður í raun að einum stórum stúdentagarði þar sem umsóknir, biðlistar og skriffinnska munu ráða meira en hve mikið af peningum hver og einn á. Dæmigerð umsókn um íbúðarbreytingu gæti litið svona út:

Berist til Húsnæðisstofnunar Ríkisins,

Ég heiti Pawel Bartoszek og bý í tveggja herbergja íbúð í Árbænum (ít: 5732863-47800009-6677A) Ég sæki hér með um að vera fluttur í þriggja herbergja íbúð í póstnúmeri 101, 105 eða 107. Ástæðan er sú að ég eignaðist nýverið barn og vildi gjarnan fá sér barnaherbergi. Einnig fékk ég nýverið vinnu sem aðstoðarmaður húsvarðar við Menntaskóla Alþýðunnar og tel ég vil spara mér og samfélaginu óþarfa strætisvagnaferðir úr Árbænum á hverjum morgni.

Það gæti hjálpað mjög að þekkja einhvern hjá hinu opinbera sem liðkað gæti fyrir umsóknum eins og þessari. Ekki er gott að hann sé of háttsettur því þannig fólk liggur frekar undir grun. Þetta getur verið gamall skólafélagi sem við hittum, drekkum bjór með og gefum börnunum hans litskrúðug erlend leikföng. En of mikil samskipti eða persónuleg tengsl geta alið af sér tortryggni og öfund samborgaranna og slikt ber að varast.

Að lokum

Eins og sést á þessari stuttu yfirverð er engin ástæða til að óttast hungur, heimilisleysi eða hefðbundna eymd þótt Ísland sigli inn í skeið sósíalisma. Ef slíkt hagkerfi tæki við á Íslandi, án þess að hér kæmi til harðstjórnar, mundi stór hluti samfélagsins geta plummað sig sæmilega og flestir myndu áreiðanlega minnast þess tíma með ákveðinni nostalgíu. Vissulega yrði hér fátækt, en hún yrði ólík því sem við höfum að venjast. Fátækt í sósíalískum hagkerfum er fyrst og fremst fátækt samfélagsins alls, skortur á valkostum, skortur á vörum, skortur á metnaði. Og eilíf minnimáttarkennd gagnvart útlöndum.

Leave a Reply

Your email address will not be published.