Líf í sósíalísku hagkerfi I

Fyrir nokkrum árum birti Deiglan pistlaröðina Lán í erlendri mynt I-IV eftir Jón Steinsson þar sem kostir og gallar slíkra lána voru raktir. Þau ráð reyndust þeim fóru að þeim afar vel. Nú þegar Ísland siglir á ný inn í skeið hafta, ríkisvæðinga og skömmtunar veitir Deiglan enn á ný lesendum sínum forskot með ómetanlegum ráðum um hvernig ber að haga sér við þann veruleika.

Í næstu þremur pistlum verður farið yfir helstu þætti lífs í sósíalísku hagkerfi, eins og því sem Ísland er í þann mund að sigla inn í. Í þessum fyrsta pistli mun ég beina sjónum að nokkrum grundvallarleikreglum sósíalískra markaða og þá sérstaklega mikilvægi tengsla við útlönd. Í næsta pistli mun ég svo fjalla um hvernig sé best að útvega matvæli og aðrar nauðsynjar. Í seinasta pistlinum verður síðan fjallað um húsnæði og samskipti við yfirvöld og nokkur lokaráð veitt.

Tengslanet

Eitt það allra mikilvægasta sem aðili á sósíalískum markaði gerir er að koma sér upp öflugu tengslaneti. Gott tengslanet samanstendur af a) ættingja sem býr erlendis b) vini sem vinnur við matvælaframleiðslu c) kunningja hjá hinu opinbera og d) öryrkja eða einhverjum öðrum með uppáskrifaðar sérþarfir. Með réttri leikstjórn þessara aðila er hægt að lifa gefandi og hamingjusömu lífi, þó það krefst oft frumlegrar hugsunar og útsjónarsemi. Ættinginn tryggir manni gjaldeyri, vinurinn mat, kunninginn húsnæði og aðra fyrirgreiðslu og öryrkinn skjótari afgreiðslu í búðum. Allir þeir þurfa hins vegar að fá greitt með einhverjum hætti.

Við erum að fara inn í tímabil þar sem (innlendir) peningar verða tiltölulega verðlausir. Í kapítalísku hagkerfi líða menn skort þegar þá vantar peninga til að kaupa vörur. Í sósíalísku hagkerfi, hins vegar, vantar oftast vörurnar þótt nóg sé til af peningum. Sem betur fer þrífst oft grátt eða svart hagkerfi utan við grindverk hins opinbera þar sem versla má margt af því sem vantar í almennu búðunum. En þar eru innlendu gjaldmiðlarnir því miður ekki gjaldgengir, heldur dollarar, evrur, hvers kyns greiðar, eða aðrar vörur.

Útlönd

Einn mikilvægasti hlekkur í lífi hvers borgara í sósíalísku hagkerfi er ættingi í útlöndum. Þetta getur verið barn, systkini, foreldri eða jafnvel frændi en í grundvallaratriðum er ættinginn meira virði eftir því sem skyldleikinn er meiri. Fyrir því er einföld ástæða. Nú um stundir búa um 30 þúsund Íslendingar í útlöndum svo að 10 íslenskar fjölskyldur eru um hverja íslenska fjölskyldu í útlöndum. Jafnvel þótt að fjöldi Íslendinga í útlöndum tvöfaldist á næstunni eins og líklegt er að verði mun hver Íslendingur í útlöndum þurfa að sinna nokkrum Frónbúum. Reynslan sýnir að hann lætur nána ættingja ganga fyrir. Af þessum ástæðum á ekki að treysta um of á liðsinni íslenskra vina og kunningja í útlöndum, þó að tengsl við þá séu einnig mikilvæg.

Eftirfarandi tafla sýnir hvaða þjónustu má vænta af Íslendingum útlöndum miðað við skyldleika:

Vinur/kunningi: Gisting í styttri tíma, minniháttar gjafir á jólunum.
Fjarskyldari ættingi: Gisting í aðeins lengri tíma, aðeins stærri gjafir og mat, aðstoð við skriffinnsku í útlandinu.
Náskyldur ættingi: Hýsing í lengri tíma, sendir gjaldeyri heim, hjálpar til við að útvega vinnu í útlandinu.

Náskyldur ættingi erlendis er þannig einhver mikilvægasta auðlind sem kúgaður frónbúi getur átt. Hann getur útvegað gjaldeyri, annað hvort beint með því að senda pening eða óbeint með því að redda sumarvinnu í útlöndum og hýsa okkur heima hjá sér á meðan. Sömuleiðis getur hann útvegað ýmiskonar vöru sem ekki er fáanleg á Íslandi, t.d. föt í merkjavöru eða nammi í glansandi litskrúðugum umbúðum. Varast ber þó að nota of mikið af þessum vörum sjálfur enda getur slíkt kallað yfir öfund og hatur samborgara sem er afar óheppilegt. Tökum sem dæmi: Mamma sem býr í Köben sendir okkur glænýjar gallabuxur frá H&M.; Við förum til íslenskrar saumakonu biðjum hana um að sérsauma fernar gallabuxur á 10 evrur og fleygjum gallabuxunum frá H&M; með sem “þakklætisvotti”. Þannig þvoum við “nýríkisstimpilinn” af okkur og gallabuxunum, saumakonan getur gengið í þeim sjálf með góðri samvisku (hún hefur unnið fyrir þeim) og við skorum samfélagsleg stig fyrir að deila góssinu.

Líklegt er að menn fyllist smám saman minnimáttakennd í garð sinna erlendu ættingja, sem skaffa manni allan gjaldeyrinn og flottu erlendu vörurnar. Það er ástæðulaust. Það er mjög margt sem við höfum sem þau hafa ekki, til dæmis íslenska matvöru, íslenskt nammi og annað sem hefur mikið tilfinningagildi fyrir Íslendinga í útlöndum. Eftir því sem matvælaframboð á Íslandi mun versna á næstu árum er líklegt að stjórnvöld muni setja einhverjar takmarkanir á það hvað megi flytjr úr landi og hvað ekki. Á sinn þversagnakennda hátt munu þessar aðgerðir koma okkur vel. Eftir því sem erfiðara verður að koma hangikjötinu úr landi mun verðmæti þess gagnvart okkar íslenska frændfólki úti í heimi aukast. Þau munu betur kunna meta þær fórnir sem við leggjum á okkur við að koma því til þeirra.

Í næsta pistli mun ég svo fjalla nánar um hvernig best verður að útvega mat þegar búðarhillur fara að tæmast og sykri og hveiti verður skammtað. Það eru ýmis trikk sem fáir sem ekki hafa lifað í sósíalísku hagkerfi átti sig á, en nægur gjaldeyrir og erlendar merkjavörur spila stórt hlutverk. Því er mikilvægt að tryggja sér aðgang að þeim sem fyrst. Þrátt fyrir að erfiðir tímar séu framundan ættu allir sem eiga ættingja erlendis að troðfylla jólapakkana af laufabrauði, ópal, harðfiski og öðru séríslensku stöffi og senda út. Við munum þurfa á velvild þessa fólks að halda á næstu árum.

Leave a Reply

Your email address will not be published.