Líf í sósíalísku hagkerfi III

Í þessum þriðja og seinasta pistli um sósíalísk hagkerfi er rætt um vinnumarkaðinn, eða öllu heldur það hvernig best sé að halda sig frá honum. Þá er einnig fjallað um húsnæðisleit á sósíalískum fasteignamörkuðum.

Hvort sem stendur eða hvílir, þúsund zloty á hann skilið.
– pólskur málsháttur frá tímum kommúnismans

Fyrir áhugamenn um fjárhagslegan jöfnuð eru bjartir tímar framundan. Enginn þarf að óttast að vera rekin eða lækkaður í launum fyrir það að eitt vera latur. Flestir vinnustaðir verða fjölmennir og óskilvirkir enda verður það stefnan að allir hafi eitthvað að gera. Við getum því átt von á því að nýjar starfsstéttir eins og „aðstoðarbílstjóri“, „burðarmaður blaðbera“, og „rúllustigavörður“ líti dagsins ljós.

Enginn má heldur að eiga von á því það að vera hækkaður í launum fyrir að vera duglegur, enda væri það þannig séð til lítils þar sem meiri peningar skila manni litlu þegar ekki er hægt að kaupa neitt. Því þarf að fara aðrar leiðir ef auka á lífsgæðin.

Allir eru sérstakir

Eitt það mikilvægasta sem hver sósíalískur borgari er að fá uppáskrifaðar einhverjar sérþarfir eða í versta falli kynnast einhverjum með slíkar. Með réttum pappírum er nefnilega hægt að fá heilmargt, t.d. ódýrari miða í almenningssamgöngur, skjótari afgreiðslu í búðum og stofnunum, auðveldari aðgang að húsnæði og oft jafnvel beinharðan pening frá hinu opinbera.

Nú getur einhverjum lesendum fundist sem ekkert ami að þeim og þeir geti auðveldlega unnið fyrir sér án sérstakrar fyrirgreiðslu. Það er ágætt en dugar skammt í sósíalísku hagkerfi. Stórir þættir samfélagsins standa mönnum lokaðir ef þeir tilheyra engum fríðindahópi. Til allrar hamingju eru hóparnir sem líklegt er að njóti fyrirgreiðslu ansi margir svo allir ætti að finna sér sinn stað. Dæmigerður listi gæti litið svona út:

námsmenn,
aldraðir,
öryrkjar,
atvinnulausir,
óléttar konur,
konur með barn á brjósti,
kennarar,
einstæðar mæður,
sjómenn með ákveðna starfsreynslu,
Eyjamenn sem upplifðu gosið og börn þeirra,
þeir sem störfuðu í Landhelgisgæslunni á tímum þorskastríðsins,
lögreglumenn,
æðstu embættismenn ríkisins,
verðlaunahafar frá Ólympíuleikum.

Veru í mörgum þessara hópa munu fylgja bætur og í þeim tilfellum ættu menn að íhuga vandlega hvort það borgi sig nokkuð að stunda vinnu. Eflaust hugsa margir að það hljóti að vera leiðinlegt að vera á bótum allan liðlangan daginn. Fólk sem hugsar svo, veit ekki hve í mörgum biðröðum í verslunum og stofnunum borgarar í sósíalískum hagkerfum þurfa að standa í í hverri viku. Það er í raun full vinna að bíða eftir mjólkinni, kjötinu, grænmetinu, bensíninu og svo auðvitað í biðröðum eftir öllum skömmtunarmiðunum. Þá þarf að fara til læknis reglulega, til að láta athuga, hvað sem það er sem blessunarlega heldur manni frá vinnumarkaðnum, og ekki eru biðraðirnar nú minni þar.

Ef menn af einhverjum óskiljanlegum ástæðum kjósa að stunda launaða vinnu, er mælt með að þeir kynnist svokölluðum biðraðaöryrkja og láti hann standa í röðum fyrir sig. Æskilegt er að öryrkinn hafi fötlun sem gefur honum rétt á að fá afgreiðslu fram fyrir röð. Það eykur mjög líkurnar á að geti keypt það sem vantar hverju sinni. Biðraðaöryrkinn þarf vitanlega að fá greitt með einhverju móti, helst með gjaldeyri eða einhverju glansandi stöffi sem þið fáið sent frá útlöndum. Einnig gæti hjálpað að gefa honum skömmtunarmiða sem menn nota ekki sjálfir. Hann getur auðveldlega selt þá til einhvers annars sem hann er að bíða fyrir.

Húsnæði

Þröngt er setið um gott húsnæði á sósíalískum markaði, enda lítill hvati fyrir fólk til að byggja nýjar íbúðir eða flytja úr gömlum. Ástæðan er sú að lítill verðmunur er á leigu, þegar ríkið eignast nánast allt húsnæðið.

Þróunin verður eitthvað á þessa leið:Fyrst verður húsnæði fólks í vanda keypt af því, svo eignast ríkið íbúðir með lánaveðum og loks verður auðum nýbyggingum breytt í félagslegar íbúðir. Að þessu loknu verða fljótlega settar hömlur á útleigu og sölu á restina af fasteignum (t.d. verðþök eða reglur um ábúðarskyldu).

Evrurnar frá systur manns munu því ekki nýtast jafnvel hér enda lítið um gráan markað (með góðar íbúðir þ.e.a.s.). Húsnæðismarkaðurinn verður í raun að einum stórum stúdentagarði þar sem umsóknir, biðlistar og skriffinnska munu ráða meira en hve mikið af peningum hver og einn á. Dæmigerð umsókn um íbúðarbreytingu gæti litið svona út:

Berist til Húsnæðisstofnunar Ríkisins,

Ég heiti Pawel Bartoszek og bý í tveggja herbergja íbúð í Árbænum (ít: 5732863-47800009-6677A) Ég sæki hér með um að vera fluttur í þriggja herbergja íbúð í póstnúmeri 101, 105 eða 107. Ástæðan er sú að ég eignaðist nýverið barn og vildi gjarnan fá sér barnaherbergi. Einnig fékk ég nýverið vinnu sem aðstoðarmaður húsvarðar við Menntaskóla Alþýðunnar og tel ég vil spara mér og samfélaginu óþarfa strætisvagnaferðir úr Árbænum á hverjum morgni.

Það gæti hjálpað mjög að þekkja einhvern hjá hinu opinbera sem liðkað gæti fyrir umsóknum eins og þessari. Ekki er gott að hann sé of háttsettur því þannig fólk liggur frekar undir grun. Þetta getur verið gamall skólafélagi sem við hittum, drekkum bjór með og gefum börnunum hans litskrúðug erlend leikföng. En of mikil samskipti eða persónuleg tengsl geta alið af sér tortryggni og öfund samborgaranna og slikt ber að varast.

Að lokum

Eins og sést á þessari stuttu yfirverð er engin ástæða til að óttast hungur, heimilisleysi eða hefðbundna eymd þótt Ísland sigli inn í skeið sósíalisma. Ef slíkt hagkerfi tæki við á Íslandi, án þess að hér kæmi til harðstjórnar, mundi stór hluti samfélagsins geta plummað sig sæmilega og flestir myndu áreiðanlega minnast þess tíma með ákveðinni nostalgíu. Vissulega yrði hér fátækt, en hún yrði ólík því sem við höfum að venjast. Fátækt í sósíalískum hagkerfum er fyrst og fremst fátækt samfélagsins alls, skortur á valkostum, skortur á vörum, skortur á metnaði. Og eilíf minnimáttarkennd gagnvart útlöndum.

Líf í sósíalísku hagkerfi II

„Kæru félagar, þetta er útvarp Búkarest, klukkan er 6:30. Nú er félagi Ceausescu að fara á fætur, og þá förum við líka á fætur, kæru félagar!“ Korteri síðar heyrðist aftur í útvarpinu: „Kæru félagar, nú er félagi Ceausescu að gera armbeygjur og þá ætlum við líka að gera armbeygjur, EINN OG TVEIR OG EINN OG TVEIR…“ Korteri síðar mátti svo heyra: „Kæru félagar, klukkan er 7:00. Nu er félagi Ceausescu að borða morgunmat, og þá ætlum við að heyra smá tónlist…“

– rúmenskur brandari –

Þrátt fyrir hugmyndir Vesturlandabúa um annað voru hungursneyðir í raun ekki ýkja algengar í sósíalískum hagkerfum og ekki er ástæða að ætla að það muni verða raunin á Alþýðuveldinu Íslandi. Á fyrstu árum Sovétríkjanna og Alþýðulýðveldisins Kína lentu menn oft vissulega oft í því en þá undantekningarlaust í kjölfar tilrauna til allsherjar-ríkismatvælaframleiðslu. Ólíklegt er að íslenska ríkið muni taka að séð að framleiða mat í miklum mæli. Atvinnugreinar eru ekki þjóðnýttar nema að þeir sem þær stundi hafi á sér okurstimpil, sem íslenskir bændur og smábátasjómenn hafa ekki. Því munu þessar stéttir auðveldlega geta séð Íslendingum fyrir nægum mat, þótt dreifingin á honum verði sósíalísk og klúðursleg.

Bensín, bílar og samgöngur

Dæmi um atvinnugrein sem nýtur EKKI vinsælda meðal almennings er olíudreifing. Líkleg atburðarrás að þjóðnýtingu hennar er eftirfarandi: Framan af í kreppu munu olíufélögin njóta talsverðs stuðnings af hálfu hins opinbera, t.d. í formi gjaldeyrisfyrirgreiðslu. Fljótlega mun koma í ljós að hagnaður þeirra verður engu að síður umtalsverður og mun það mælast afar illa fyrir. Í kjölfarið mun orðrómur um samráð eða fréttir af háum laun forstjóranna vera kveikjan að því að ríkið tekur yfir reksturinn.

Fyrst eftir yfirtökuna mun ríkið lækka bensínverð til að styrkja málstað sinn og mun bensíneyðsla aukast í kjölfarið. Þegar við bætist reynsluleysi hinna nýju eigenda mun vera vart við bensínskort á einstaka stöðvum. Þá byrjar fólk að hamstra bensín sem mun auðvitað margfalda vandann en ríkið mun ekki þora að hækka verðið því verður gripið til annarra ráða.

Það eru því miklar líkur á að bensín verður fyrsta varan sem skömmtuð verður þegar sósíalískt hagkerfi hefur innreið sína inn í Ísland. Þó að skömmtunarmiðar séu ömurleg lausn frá hagfræðilegu tilliti eru þeir þægilegri fyrir ráðamenn en miklar verðhækkanir því þannig mun Ríkið geta sagt að það sé að verja hinn almenna neytanda gegn hamstri örfárra og milda reiði almennings.

Það munu því ekki vera ýkja góðir tímar til að reka bíl og mælt er með að menn leiti sér annarra leiða til að komast á milli staða. Góðu fréttirnar eru þær að öll sósíalísk ríki reka almenningsamgöngukerfi sem eru vissulega hrikalega óskilvirk en um leið mjög ódýr. Rútuferðin norður til Akureyrar mun að öllum líkindum kosta þúsundkall, pakkað verður í allar ferðir, lyktin verður vond og rútan alltaf sein.

Þó er afar mikilvægt að SELJA EKKI bílinn þó menn hætti að nota hann. Hverjum bíl og hverri kennitölu munu nefnilega fylgja bensínréttindi sem hægt er að nota til að kaupa bensín og selja sér ríkari mönnum fyrir margfalt verð í evrum. Þó svo að reynt verður að stoppa þessi viðskipti mun það ganga illa og ungt fólk getur því litið á bensínskömmtunarmiðana sem mánaðarlegan námsstyrk frá ríkinu.

Matur

Eins og áður sagði, er ekki beinlínis ástæða til að óttast hungursneyð, svo lengi sem bændur og smábátasjómenn verða sæmilega sjálfstæðir. Hins vegar mun dreifing á matvöru lenda í höndum hins opinbera, sem mun stýra vöruframboði miðað við þörf en ekki eftirspurn. Þetta mun gera það að verkum að erfitt verður að fá saltkjöt í kringum sprengidag, pylsur í kringum verslunarmannihelgi og hangikjöt um jólin. Tímabundinn skortur leiðir af sér hamstur sem leiðir af sér varanlegan skort sem leiðir af sér skömmtunarmiða.

Við munum því þurfa að breyta aðeins út frá hefðbundnu neyslumynstri okkar. Til dæmis gæti verið sniðugt að taka upp kaþólska trú og sleppa þannig sjálfkrafa að borða kjöt á aðfangadag og heilan mánuð fyrir páskadag. Önnur leið er að kynnast bónda eða sjómanni og útvega sér kjöt og fisk milliliðalaust. Til þess mun þó þurfa gjaldeyri eða bensín. Mikilvægt að bjóða vinum og fjölskyldu reglulega í mat ef þessi leið er farin, annars er hætta á að þeir fyllist öfund og reyni að spilla sambandi þínu við „birgjann“ og taka yfir viðskiptin, en fólk gerir það ekki ef það nýtur sjálf einhvers góðs af þeim.

Að lokum munu allir þurfa að stunda matvælaframleiðslu að einhverju leyti, t.d. rækta kartöflur og rófur og baka sitt eigið brauð. Ekkert af þessu verður ekki gert til að spara peninga, því allir munu eiga nóg af þeim, heldur til að tryggja sér aðgang að þessum vörum og sleppa því að þurfa bíða í löngum biðröðum eftir þeim. Helsta hindrun við að útvega sér vörur á sósíalískum markaði eru nefnilega ekki peningar heldur skortur á vörum, skortur á tíma og skortur á réttum samböndum. Um það verður betur fjallað í seinasta pistlinum í þessari ritröð.

Líf í sósíalísku hagkerfi I

Fyrir nokkrum árum birti Deiglan pistlaröðina Lán í erlendri mynt I-IV eftir Jón Steinsson þar sem kostir og gallar slíkra lána voru raktir. Þau ráð reyndust þeim fóru að þeim afar vel. Nú þegar Ísland siglir á ný inn í skeið hafta, ríkisvæðinga og skömmtunar veitir Deiglan enn á ný lesendum sínum forskot með ómetanlegum ráðum um hvernig ber að haga sér við þann veruleika.

Í næstu þremur pistlum verður farið yfir helstu þætti lífs í sósíalísku hagkerfi, eins og því sem Ísland er í þann mund að sigla inn í. Í þessum fyrsta pistli mun ég beina sjónum að nokkrum grundvallarleikreglum sósíalískra markaða og þá sérstaklega mikilvægi tengsla við útlönd. Í næsta pistli mun ég svo fjalla um hvernig sé best að útvega matvæli og aðrar nauðsynjar. Í seinasta pistlinum verður síðan fjallað um húsnæði og samskipti við yfirvöld og nokkur lokaráð veitt.

Tengslanet

Eitt það allra mikilvægasta sem aðili á sósíalískum markaði gerir er að koma sér upp öflugu tengslaneti. Gott tengslanet samanstendur af a) ættingja sem býr erlendis b) vini sem vinnur við matvælaframleiðslu c) kunningja hjá hinu opinbera og d) öryrkja eða einhverjum öðrum með uppáskrifaðar sérþarfir. Með réttri leikstjórn þessara aðila er hægt að lifa gefandi og hamingjusömu lífi, þó það krefst oft frumlegrar hugsunar og útsjónarsemi. Ættinginn tryggir manni gjaldeyri, vinurinn mat, kunninginn húsnæði og aðra fyrirgreiðslu og öryrkinn skjótari afgreiðslu í búðum. Allir þeir þurfa hins vegar að fá greitt með einhverjum hætti.

Við erum að fara inn í tímabil þar sem (innlendir) peningar verða tiltölulega verðlausir. Í kapítalísku hagkerfi líða menn skort þegar þá vantar peninga til að kaupa vörur. Í sósíalísku hagkerfi, hins vegar, vantar oftast vörurnar þótt nóg sé til af peningum. Sem betur fer þrífst oft grátt eða svart hagkerfi utan við grindverk hins opinbera þar sem versla má margt af því sem vantar í almennu búðunum. En þar eru innlendu gjaldmiðlarnir því miður ekki gjaldgengir, heldur dollarar, evrur, hvers kyns greiðar, eða aðrar vörur.

Útlönd

Einn mikilvægasti hlekkur í lífi hvers borgara í sósíalísku hagkerfi er ættingi í útlöndum. Þetta getur verið barn, systkini, foreldri eða jafnvel frændi en í grundvallaratriðum er ættinginn meira virði eftir því sem skyldleikinn er meiri. Fyrir því er einföld ástæða. Nú um stundir búa um 30 þúsund Íslendingar í útlöndum svo að 10 íslenskar fjölskyldur eru um hverja íslenska fjölskyldu í útlöndum. Jafnvel þótt að fjöldi Íslendinga í útlöndum tvöfaldist á næstunni eins og líklegt er að verði mun hver Íslendingur í útlöndum þurfa að sinna nokkrum Frónbúum. Reynslan sýnir að hann lætur nána ættingja ganga fyrir. Af þessum ástæðum á ekki að treysta um of á liðsinni íslenskra vina og kunningja í útlöndum, þó að tengsl við þá séu einnig mikilvæg.

Eftirfarandi tafla sýnir hvaða þjónustu má vænta af Íslendingum útlöndum miðað við skyldleika:

Vinur/kunningi: Gisting í styttri tíma, minniháttar gjafir á jólunum.
Fjarskyldari ættingi: Gisting í aðeins lengri tíma, aðeins stærri gjafir og mat, aðstoð við skriffinnsku í útlandinu.
Náskyldur ættingi: Hýsing í lengri tíma, sendir gjaldeyri heim, hjálpar til við að útvega vinnu í útlandinu.

Náskyldur ættingi erlendis er þannig einhver mikilvægasta auðlind sem kúgaður frónbúi getur átt. Hann getur útvegað gjaldeyri, annað hvort beint með því að senda pening eða óbeint með því að redda sumarvinnu í útlöndum og hýsa okkur heima hjá sér á meðan. Sömuleiðis getur hann útvegað ýmiskonar vöru sem ekki er fáanleg á Íslandi, t.d. föt í merkjavöru eða nammi í glansandi litskrúðugum umbúðum. Varast ber þó að nota of mikið af þessum vörum sjálfur enda getur slíkt kallað yfir öfund og hatur samborgara sem er afar óheppilegt. Tökum sem dæmi: Mamma sem býr í Köben sendir okkur glænýjar gallabuxur frá H&M.; Við förum til íslenskrar saumakonu biðjum hana um að sérsauma fernar gallabuxur á 10 evrur og fleygjum gallabuxunum frá H&M; með sem „þakklætisvotti“. Þannig þvoum við „nýríkisstimpilinn“ af okkur og gallabuxunum, saumakonan getur gengið í þeim sjálf með góðri samvisku (hún hefur unnið fyrir þeim) og við skorum samfélagsleg stig fyrir að deila góssinu.

Líklegt er að menn fyllist smám saman minnimáttakennd í garð sinna erlendu ættingja, sem skaffa manni allan gjaldeyrinn og flottu erlendu vörurnar. Það er ástæðulaust. Það er mjög margt sem við höfum sem þau hafa ekki, til dæmis íslenska matvöru, íslenskt nammi og annað sem hefur mikið tilfinningagildi fyrir Íslendinga í útlöndum. Eftir því sem matvælaframboð á Íslandi mun versna á næstu árum er líklegt að stjórnvöld muni setja einhverjar takmarkanir á það hvað megi flytjr úr landi og hvað ekki. Á sinn þversagnakennda hátt munu þessar aðgerðir koma okkur vel. Eftir því sem erfiðara verður að koma hangikjötinu úr landi mun verðmæti þess gagnvart okkar íslenska frændfólki úti í heimi aukast. Þau munu betur kunna meta þær fórnir sem við leggjum á okkur við að koma því til þeirra.

Í næsta pistli mun ég svo fjalla nánar um hvernig best verður að útvega mat þegar búðarhillur fara að tæmast og sykri og hveiti verður skammtað. Það eru ýmis trikk sem fáir sem ekki hafa lifað í sósíalísku hagkerfi átti sig á, en nægur gjaldeyrir og erlendar merkjavörur spila stórt hlutverk. Því er mikilvægt að tryggja sér aðgang að þeim sem fyrst. Þrátt fyrir að erfiðir tímar séu framundan ættu allir sem eiga ættingja erlendis að troðfylla jólapakkana af laufabrauði, ópal, harðfiski og öðru séríslensku stöffi og senda út. Við munum þurfa á velvild þessa fólks að halda á næstu árum.