Stjórnmálastefna afþakkar völd

Hægrimenn ættu manna mest að berjast fyrir því að „faglega“ yrði staðið að ráðningum í stjórn Seðlabankans. Óttast menn að kommúnistar með doktorsgráður í hagfræði bíði í röðum eftir að staða seðlabankastjóra verði auglýst?

Ég þekki ekki marga hagfræðinga sem eru andvígir fríverslun eða fylgjandi tollum á landbúnaðarvörur. Eða dýrki háa jaðarskatta. Öllum er ljóst að hagfræði er verulega hægrisinnað fag; ætli flestir íslenskir hagfræðingar séu ekki hægrimenn? Nokkrir eru kannski í Samfylkingunni en eru þá nær undantekningarlaust hægrikratar. Ég veit ekki hvort einhvern með meistaragráðu í slíkum fræðum sé að finna innan VG. Gæti þó verið, en ég hef ekki heyrt um hana enn.

Einungis af þessum ástæðum ætti íslenskum hægrimönnum það að vera sérstakt kappsmál að faglega verði skipað í stöður seðlabankastjóra í framtíðinni. Hættan á því að einhver kommapjakkur eða atvinnuvegapólitíkus verði seðlabankastjóri er einungis til staðar á meðan halda því til streitu að ráða þangað gamla stjórnmálamenn, með allan þann farangur sem þeir bera á bakinu.

Ég þekki ekki nóg til að meta frammistöðu núverandi stjórnar Seðlabankans í aðdraganda bankahrunsins. En nokkur atriði eru óneitanlega gagnrýnisverð eins og tilkynning frá Seðlabankanum um Rússalán sem ekki var handsalað eða óvarlegar yfirlýsingar Seðlabankstjórans í Kastljósþætti fyrir skömmu. Það er svo auðvitað ekki nýjar fréttir að nallaraulandi anarkistar vilji losna við Davíð Oddsson en er verra þegar sú gagnrýni er bergmáluð á síðum engilsaxneskra viðskiptablaða.

Arfleið stjórnmálamanna er ein líklegast eins helsta ástæða fyrir því að þeir ættu að halda sig frá stöðum eins og Seðlabankanum. Skyndilega verður spurningin um árangur og framtíð núverandi stjórnar Seðlanbankans mun gildishlaðnari og viðkvæmnari en ástæða er til. Það á ekkert að þurfa að leggja glæsilegan stjórnmálaferil Davíðs Oddssonar á einhverjar vogarskálar þegar menn taka afstöðu til þess hvernig seðlabankastjóri hann hefur verið.

Undirritaður hefur raunar áður lýst þeirri skoðun forsætisráðherrann fyrrverandi bæti litlu við hina glæsilegu arfleið sína í núverandi starfi. Í raun er er þetta svipað og ef Jóhannes Páll páfi annar hefði hætt árið 2000 og byrjað í staðinn að þjálfa lið Roma í knattspyrnu. Skyndilega mundi virkilega reyna á óskeikulleikann og ekki víst að niðurstaðan yrði öllum hughreystandi.

Þrátt fyrir að Seðlabankastjórar hafi fína ráðgjafa ætti það ekki að vera nóg til að ráða þangað lögfræðinga og lækna ekki fremur en góðir ráðgjafar í landlæknisembættinu dugi til að flugfreyja verði ráðinn landlæknir, eða að hagfræðingar séu skipaðir í Hæstarétt í stað lögfræðinga. Fagleg sjónarmið ættu að ráða ferðinni í framtíðarskipan í stjórn Seðlabankans. Af öllum hópum þá ættu hægrimenn síst að hafa áhyggjur af samsetningu stjórnarinnar ef af því verður.

Íslandskí kapút?

Íslendingar fengu lánaðan pening hjá Pútín. Örn Árnason getur enn eina ferðina dustað rykið af slavnesku eftirhermunni. Spaugstofan og höfundar skaupsins geta nú sett á sjálfstýringu til áramóta.

Það er auðvitað ögn undarleg utanríkislógík að vilja standa utan við bandalag á þriðja tug vestrænna ríkja í Evrópu af ótta við fullveldisskerðingu en þiggja síðan lán frá Rússum. Rússar eru nefnilega þekktir fyrir fremur nýstárlega nálgun á fullveldi nágranna sinna. Þar á meðal ber að nefna nýlega innrás þeirra í Georgíu, líklegan vefhernað gegn Eistlandi í fyrra og flug sprengjuflugvéla yfir Íslandi.

Þessi mikla þjóð í austri hefur töluverða reynslu af því að tryggja hagsmuni sína með þeim auðæfum sem land þeirra elur. Rússland hefur þannig ítrekað notað bæði olíu og gas í pólitískum tilgangi. Fyrir tveimur árum var til dæmis skrúfað fyrir gasflutninga til Úkraínu í kjölfar þess að þar tók við ríkisstjórn sem var Rússum síður þóknanleg. Ráðamenn í Moskvu gáfu það reyndar út að þeir hefðu verið að niðurgreiða gasið stórlega fram að því en kröfðust nú að fá greitt samkvæmt heimsmarkaðsverði, sem þýddi margföldun gjaldskrár. Rússneski björninn elskar svo sannarlega ekki án skilyrða.

Vitanlega hafa Íslendingar fengið lánað frá ólíkum þjóðum nú og áður svo að í sjálfu sér þurfa slík lán ekki að vera neitt meira en lán. En óneitanlega hefði verið þægilegra að sleppa því að eiga inni greiða hjá ríki sem er nýlega byrjað að rjúfa lofthelgi Íslands með reglulegu millibili. Og ríki sem fyrir einungis tveimur mánuðum síðan réðst inn í annað Evrópuríki með hervaldi.

Sú ákvörðun Íslands að biðja Ríkisstjórn Rússlands um risagjaldeyrislán hlýtur að lykta af ákveðinni örvæntingu. Vonum að við munum greiða þetta lán upp hratt og örugglega og getum að því loknu leitað annarra leiða til að tryggja stöðugleikann, blessunina. Vinsamleg samskipti við Rússa eru vitanlega bæði æskileg og nauðsynleg. En það eru til ríki sem ég mundi vilja skulda pening frekar.