Íslensk tunga í frjálsu falli?

Ef tilfinning kennara fyrir íslenskukunnáttu yngri kynslóða hefði reynst rétt hefðu sagnir, nafnorð, setningar og orðatiltæki löngu vikið fyrir stunum, prumpi, handabendingum og einstaka upphrópunum á ensku.

Í nýlegri grein í Fréttablaðinu var rætt við nokkra háskólakennara sem allir komust að þeirri niðurstöðu að íslenskukunnáttu ungs fólks hefði hrakað mjög. Þrátt fyrir að “almenn tilfinning fræðimanna fyrir ástandinu” geti stundum talist góð og gild rök í umræðu ættu menn að varast að láta þau rök nægja. Ímyndum okkur að við myndum bera upp eftirfarandi spurningu fyrir íslenskukennara:

“Telur þú að íslenskukunnátta ungs fólks hafi versnað/staðið í stað/batnað á seinustu tíu árum?”

Ímyndum okkur að við myndum spyrja þessarar spurningar á nokkurra ára frestir og setja niðurstöðurnar upp í línurit. Líklegt er að það sem við sæjum lýsti íslenskri tungu í frjálsu falli. Kynslóðir sem voru varla álitnar talandi að af kynslóðunum á undan að fórna höndum yfir málfötlun kynslóðarinnar á eftir.

Þegar ungt fólk skilur ekki mál hinna eldri er það skýrt með því að ungt fólk sé hætt að skilja íslensku. Þegar gamalt fólk skilur ekki hvað þeir yngri eru að segja er skýringin hins vegar ávallt sú að ungt fólk sé hætt að tala íslensku. Er það virkilega upplýst afstaða að fussa og sveia við orðum sem lýsa nútímatækni og koma úr dægurmenningu nútímans, en býsnast svo yfir því að fólk hvorki kann né skilur orð sem lýsa úreltri tækni og menningu gamallra tíma?

Sú skoðun sem fram kom í Fréttablaðinu segir því ekkert til um ástandið enda er það viðbúið að hinum eldri finnist þeir yngri tala vont mál, líkt og það er viðbúið okkur finnist sumir hlutir minnka þegar við eldumst. Sú skoðun að íslenksukunnáttu hafi hnignað gæti auðvitað verið sönn, á sama hátt að það gæti verið að amma hafi keypt minni stól, sem er eins á litinn frá því að komum seinast í heimsókn.

Á tveggja ára kennsluferli mínum í háskóla hef kennt tveimur ólíkum hópum stúdenta, annars vegar tvítugu fólki sem er nýkomið út úr menntaskóla og hins vegar fólki sem er að bæta við sig námi, oft eftir tuttugu ára starfsreynslu. Almennt séð er töluverður munur er á rithæfileikum þessara tveggja hópa, og sá munur er hinum eldri mjög í óhag. Yngra fólkið skrifar vissulega oft ansi hrátt, en netmenningin hefur samt gert það að verkum að það er upp til hópa óhrætt við að setja hluti niður á blað svo að þau eru fljót að bæta sig. Tilfinning mín er sú að vandamál hinna eldri séu mun djúpstæðari auk þess sem þau eru oft mun lengur að bæta sig, enda hræddari við að gera mistök (eins og mörg okkar verða með árunum).

Það þarf auðvitað ekkert að vera að þessi tilfinning sé rétt fremur en tilfinning þeirra sem tjáðu sig hvað hæst um þessi mál í Fréttablaðinu. Hugsanlega er unga fólkið bara í meiri æfingu, nýskriðið úr framhaldsskóla. Eða hugsanlega er ég bara eins og aðrir að meta gæði máls út frá því hve svipað það er því sem ég tala og skrifa sjálfur.

Leave a Reply

Your email address will not be published.