Fíflin í FIFA

Á dögunum afhjúpaði FIFA nýjustu hugmynd sína í baráttunni gegn atvinnufrelsi knattsspyrnumanna: nýjar reglur sem eiga að takmarka fjölda erlendra leikmanna í félagsliðum frá 2012.

Fátt er svo með öllu illt að einhver hálfviti geti ekki rökstutt það. Þannig þótti það á sínum afskaplega sanngjarnt og rökrétt að knattspyrnumenn væru eign knattspyrnuliðs þótt samningur þeirra væri runninn út. Það þótti einnig afskaplega sanngjarnt og rökrétt að setja mætti takmarkanir á fjölda erlendra leikmanna í félagsliðum. Fyrra atriðið var sagt verja hagsmuni lítillra knattspyrnuliða sem áttu að geta notið góðs af því að ala upp unga leikmenn. Það síðara var gert til verja miðlungs heimamenn fyrir samkeppni frá betri erlendum leikmönnum.

Sem betur fer var þetta tvennt dæmt ólöglegt með svokölluðum Bosman dómi árið 1995. En nú á aftur að reyna að takmarka fjölda erlendra leikmanna í félagsliðum, nú við fimm. Enda eru bara útlendingar í Chelsea… og það náttúrlega “gengur ekki”.

Umræddar hugmyndir eru ekkert annað en tilraunir til að setja tollkvóta á fólk. Eins og með alla tolla þá tapa jafnt neytendur (félagsliðin, sem geta ekki teflt fram besta liðinu) og framleiðendur (leikmennirnir, sem reyna að selja þjónustu sína). Þeir einu sem græða eru innlendu framleiðendurnir/leikmennirnir sem mundu ekki geta fengið sæti í jafngóðu liði ef erlend samkeppni yrði leifð, og eru sjálfir of lélegir í fótbolta til að geta spilað í útlöndum.

Það er margt fleira sem frá FIFA kemur sem er miður gott. Til dæmis hin meira en 70 ára gamla regla sem bannar leikmönnum að spila með nýju landsliði ef þeir hafa svo gott sem slysast til að spila unglingalandsleik með gamla heimalandinu sínu á yngri árum. Eina undantekningin frá þessu er ef gamla ríkið manns hefur liðast í sundur í blóðugri borgarastyrjöld. Hvers vegna það komi FIFA við hverja af þegnum sínum fullvalda ríki velja í landslið er hulin ráðgáta.

Nauðsynlegt er að stoppa þessar vitlausu hugmyndir í fæðingu. Að takmarka fjölda erlendra leikmanna er álíka skynsamlegt og ef Háskóli Íslands setti kvóta á fjölda erlendra starfsmanns skólans. Eða ef Íslendingar börðust fyrir því að fjöldi íslenskra nemenda við norræna háskóla yrði takmarkaður með lögum.

Leave a Reply

Your email address will not be published.