Kalda stríðið fyrir hálfvita

Í allri afstæðishyggjunni og pómó-þvælunni sem út úr nútímamanninum vellur gleymist oft að minnast á að kalda stríðið var í hnotskurn barátta milli góðra ríkja og vonda ríkja. Og að góðu ríkin hafi, til allrar hamingju, unnið.

Það var auðvitað eitt og annað sem vondu ríkin og góðu ríkin áttu sameiginlegt, til dæmis viljann til að auka áhrif sín og aðferðirnar sem notaðar voru til þess. En það breytir samt ekki þeirri staðreynd að langflestir þeirra sem bjuggu í vondum ríkjum vildu frekar búa í góðum ríkjum. Það voru hins vegar afar fáir sem bjuggu í góðum ríkjum sem vildu flytjast búferlum til vondra ríkja. Flest venjulegt fólk átti semsagt auðvelt með að velja hvort gott eða vont væri betra.

Af og til komu í góðum ríkjum fram menn sem vildu gera ríkin sín vond. Sumir þessara manna voru vondir, sumir barnalegir, aðrir bara mjög vitlausir. Stundum gerðu menn í góðum ríkjum vonda hluti við þessa vondu, barnalegu, eða mjög vitlausu menn. Margt af því sem gert var virkar líka enn verra, barnalegra og vitlausara nú, í ljósi sögunnar. Það virðist afar hallærlislegt að hafa verið eltast við einhverja kommalúða, nú þegar gamla kommagrýla er dauð. En það var kannski ekki svo mikið grín þá. Smám saman fara menn nefnilega halda að sú hugmyndafræði sem var við lýði í hinum vondu ríkjum hafi einungis verið vitlaus og barnaleg, en gleyma því hve ótrúlega vond hún var.

Í hinum vondu ríkjum voru raunar ansi margir góðir menn sem vildu gera ríki sín góð. Sumir þessara manna reyndu að stofna stjórnmálaflokka um þessar góðu hugmyndir, aðrir reyndu að gefa út blöð þar sem því var haldið fram að gott væri gott en vont vont. Slík starfsemi og skrif gengu auðvitað þvert á þá línu stjórnvalda í vondum ríkjum að vont væri gott, og öfugt; og var mörgum þessara manna refsað harkalega fyrir að halda öðru fram. Svo harkalega að þeir hefðu vafalaust skipt á refsingum sínum og þeim óþægindum sem hinir vondu, barnalegu eða mjög vitlausu menn í góðum ríkjum urðu fyrir.

Ef Ísland hefði verið vont ríki í líkingu við Austur-Þýskaland þá hefði hér verið starfandi um 1000 manna leyniþjónusta með a.m.k. 4000 manna lið uppljóstrara á sínum snærum. Líklegast hefðu símar flestra verið hleraðir a.m.k. einu sinni og yfir fjögur hundruð Íslendingar hefðu verið fangelsaðir fyrir skoðanir sínar. Nokkrir hefðu svo dáið við að reyna flýja yfir til Grænlands.

Auðvitað má ekki líta fram hjá því þegar slæmir hlutir eru gerðir við menn, góða sem vonda. En þótt góður málstaður afsaki ekki slæmar gerðir, þá ættu menn samt að hafa í huga að óttinn um að Ísland mundi breytast úr góðu ríki í vont var á sínum tíma hvorki hlægilegur né fjarstæðukenndur og sá málstaður að reyna hindra slíkt var bæði verðugur og góður.

Frá málefnalegum sjónarmiðum var kalda stríðið nefnilega frekar einfalt: Austrið var mannfjandsamlegt og vont en vestrið mannvænt og gott. Og vestrið vann.

Sem er gott.

Leave a Reply

Your email address will not be published.