Kalda stríðið fyrir hálfvita

Í allri afstæðishyggjunni og pómó-þvælunni sem út úr nútímamanninum vellur gleymist oft að minnast á að kalda stríðið var í hnotskurn barátta milli góðra ríkja og vonda ríkja. Og að góðu ríkin hafi, til allrar hamingju, unnið.

Það var auðvitað eitt og annað sem vondu ríkin og góðu ríkin áttu sameiginlegt, til dæmis viljann til að auka áhrif sín og aðferðirnar sem notaðar voru til þess. En það breytir samt ekki þeirri staðreynd að langflestir þeirra sem bjuggu í vondum ríkjum vildu frekar búa í góðum ríkjum. Það voru hins vegar afar fáir sem bjuggu í góðum ríkjum sem vildu flytjast búferlum til vondra ríkja. Flest venjulegt fólk átti semsagt auðvelt með að velja hvort gott eða vont væri betra.

Af og til komu í góðum ríkjum fram menn sem vildu gera ríkin sín vond. Sumir þessara manna voru vondir, sumir barnalegir, aðrir bara mjög vitlausir. Stundum gerðu menn í góðum ríkjum vonda hluti við þessa vondu, barnalegu, eða mjög vitlausu menn. Margt af því sem gert var virkar líka enn verra, barnalegra og vitlausara nú, í ljósi sögunnar. Það virðist afar hallærlislegt að hafa verið eltast við einhverja kommalúða, nú þegar gamla kommagrýla er dauð. En það var kannski ekki svo mikið grín þá. Smám saman fara menn nefnilega halda að sú hugmyndafræði sem var við lýði í hinum vondu ríkjum hafi einungis verið vitlaus og barnaleg, en gleyma því hve ótrúlega vond hún var.

Í hinum vondu ríkjum voru raunar ansi margir góðir menn sem vildu gera ríki sín góð. Sumir þessara manna reyndu að stofna stjórnmálaflokka um þessar góðu hugmyndir, aðrir reyndu að gefa út blöð þar sem því var haldið fram að gott væri gott en vont vont. Slík starfsemi og skrif gengu auðvitað þvert á þá línu stjórnvalda í vondum ríkjum að vont væri gott, og öfugt; og var mörgum þessara manna refsað harkalega fyrir að halda öðru fram. Svo harkalega að þeir hefðu vafalaust skipt á refsingum sínum og þeim óþægindum sem hinir vondu, barnalegu eða mjög vitlausu menn í góðum ríkjum urðu fyrir.

Ef Ísland hefði verið vont ríki í líkingu við Austur-Þýskaland þá hefði hér verið starfandi um 1000 manna leyniþjónusta með a.m.k. 4000 manna lið uppljóstrara á sínum snærum. Líklegast hefðu símar flestra verið hleraðir a.m.k. einu sinni og yfir fjögur hundruð Íslendingar hefðu verið fangelsaðir fyrir skoðanir sínar. Nokkrir hefðu svo dáið við að reyna flýja yfir til Grænlands.

Auðvitað má ekki líta fram hjá því þegar slæmir hlutir eru gerðir við menn, góða sem vonda. En þótt góður málstaður afsaki ekki slæmar gerðir, þá ættu menn samt að hafa í huga að óttinn um að Ísland mundi breytast úr góðu ríki í vont var á sínum tíma hvorki hlægilegur né fjarstæðukenndur og sá málstaður að reyna hindra slíkt var bæði verðugur og góður.

Frá málefnalegum sjónarmiðum var kalda stríðið nefnilega frekar einfalt: Austrið var mannfjandsamlegt og vont en vestrið mannvænt og gott. Og vestrið vann.

Sem er gott.

Umræðuumræðan

Mikið hefur verið rætt um umræðuna um ESB-aðild Íslands. Mörgum hefur þótt sem umræðan hafi verið á villigötum og er ekki annað hægt en játa að umræðan um umræðuna hafi vissulega ekki verið á háu plani. Jafnvel að um umræðustjórnmál af verstu sort hafi verið að ræða.

Líklegast á ég sjálfur heilmikla sök á því að hafa stýrt umræðunni inn í þann vonda og móðursjúka farveg sem hún er komin í. Ég vil því strax byrja á því að biðjast afsökunar á að hafa haldið því fram að ESB-aðild myndi “vera lausn á öllum vandamálum” og vona ég innilega að aðrir ESB-sinnar fylgi í kjölfarið. Það var sömuleiðis rangt hjá mér að halda því fram að ESB-aðild mundi líkt sem töfrasproti galdra burt þau tímabundnu vandamál sem nú dynja á íslensku efnahagslífi. Það er augljóslega rangt og ekki hollt fyrir umræðuna að halda þessu fram.

Ef umræðan um ESB væri í leikskóla væri löngu búið að senda hana í skammakrókinn. Hún er frek, er alltaf að villast og henni er mál versta tíma. Af hverju það umræðan til dæmis að koma upp þegar viðrar illa og stemning er fyrir aðild? Af hverju getur umræðan ekki náð hápunktum sínum einmitt þegar hagvöxtur slær met og allir eru sannfærðir um að góðærið taki engan enda? ESB sinnar ættu að temja sér þann sið að tala einungis fyrir málstað sínum þegar hvað minnstur hljómgrunnur er fyrir honum. Annað er bara ókurteisi og dónaskapur. Og vont fyrir umræðuna.

Umræðan um umræðuumræðuna getur oft á tíðum verið ansi vandræðaleg en hún hefur þó ótvíræða kosti. Í hita leiksins kemur það nefnilega fyrir að stjórnmálamenn í Sjálfstæðisflokknum detta af öðru og þriðja þrepi meta-umræðaunnar og raunverulega segja eitthvað sem forvitnilegt er að hlusta á. Til dæmis þegar þeir fagna af alefli einliða upptöku ESB-löggjafar með EES-samningnum en óttast um leið hve lítil áhrif Íslands yrðu innan sambandsins.

En reyndar hefur Sjálfstæðisflokkurinn smitast töluvert af Evrópuumræðunni og færst dálítið til hliðar þótt hann þykist ekki kannast við það. Það er til dæmis ólíklegt að varaformaðurinn mundi, fyrir tveimur árum síðan, leggja til að farið yrði í þjóðaratkvæði um aðild að þessu sambandi sem hún sjálf vill ekki vera í. Eða að ráðherrar flokksins ræddu um upptöku evrunnar í gegnum EES-samninginn. Umræðan um umræðuna er farin að hafa áhrif. Á umræðuna.

Heimsins þægilegasta fangabúr

Það er enginn tilgangur með opinberum heimsóknum erlends kóngafólks hingað til lands nema ef til vill sú að minnka við leiðindin í þægilegu en fyrirframákveðnu lífi þeirra. Margt mætti gera betra við peningana en að ausa víni og virðingu á fólk sem hefur sér ekkert til frægðar unnið annað að skríða í heiminn úr rétta leginu.

Það er fáranlegt að þjóðhöfðingjaembætti gangi í erfðir. Auðvitað mun einhverjum alltaf finnast konungsdæmið „rómantísk“, „hluti af arfleið þjóðar sinnar,“ eða einhver prins „afskaplega indæll“. En það breytir ekki þeirri einföldu staðreynd að það er fáranlegt að þjóðhöfðingjaembætti gangi í erfðir. Fáranlegt, og algjört brot á þeim grundvallarhugmyndum um lýðræði og jafnrétti sem okkar vestrænu þjóðfélög þykjast svo gjarnan byggja á.

En það er ekki bara óeðlilegt að venjulegur maður megi með engu löglegu móti verða þjóðhöfðingi. Það er líka sorglegt að sjá hvernig mannréttindi kóngafólksins sjálfs erum fótu troðin. Þau verða að tilheyra ákveðnu trúfélagi, mega ekki tjá sig um þjóðmál eða kjósa í kosningum, og sums staðar er meira segja makavali þeirra séu settar skorður. Síðan eru atvinnufrelsi þeirra ansi þröngur stakkur sniðinn. Hér á landi er staddir nú ungir foreldrar sem ætla að negla það í hausinn á ungum syni sínum frá unga aldri að hann þurfi síðar á ævinni að vera þjóðhöfðingi eins og pabbi og amma. Þar fyrir utan hyggjast þau ala hann upp á forsíðum slúðurblaðanna. Spurning hvað okkur fyndist um þessar uppeldisaðferðir ef einhver annar ætti í hlut.

En ég veit ekki hvort sé sorglegra: að verið sé að mismuna fólki eftir ætterni, að fullt af fólk finnst þessi mismunun afskaplega heillandi, að verið sé að traðka á mannréttindum barna með því að þröngva upp á þau ákveðna lífsleið, eða að kóngafólkinu sjálfu finnist þessi mismunun í fínu lagi. Er málfrelsið, kosningarétturinn og sjálfsvirðingin þeim virkilega minna virði og fjaðrir, kjólar og frægð?