Kína er eitt, Taívan annað

Ef sjálfstæð utanríkisstefna Íslands á að felast í því að dempa lýðræðisþorsta asískra eyríkja væri betur heima setið en af stað farið.

Ég var eitt sinn gestur á Taiwan. Það var fyrir tæplega tíu árum síðan. Ég fann fyrir töluverðri samkennd með Taívönum, þar sem ég sjálfur kem frá þjóð sem er vön því að eiga freka granna. En óttinn við innrás Kínverja á Taívan var ekki eitthvað fjarlægt og raunverulegt, maður fann hann á hverju götuhorni.

Taívanir eru Íslendingum líkir að því leyti að fréttir af fréttaflutningi annarra um ríkið eru algengar. Sama gildir um raunar um öll ummæli sem útlenskir stjórnmálamenn viðhafa um landið. Fyrsta daginn minn í Taívan rakst ég á mann sem veifaði enskumælandi blaði með forsíðufyrirsögn þess efnis að Bandaríkjamenn ætluða áfram að selja vopn til Taívan. Maðurinn gerði ráð fyrir að við værum bandarísk og vildi allt fyrir okkur gera. Var mjög þakklátur fyrir þennan stuðning okkar.

Meðan ég fylgdist með hafnaboltaleik þar sem svartir og hvítir bandaríkjamenn þeyttust um völlin með kínversk tákn á bakinu þá áttaði ég mig á því að Taívan væri afskaplega óheppið ríki. Það hefur tekið upp alla þá siði og ósiði sem vestrænni menningu fylgja í von um að efla tengsl sín við Vesturlönd. En samt virðist ekki mega umbuna þeim þessa viðleitni vegna þess hve frekan og stóran nágranna þau hafa.

Ummæli Ingibjargar Sólrúnar í kínverskum ríkisfjölmiðlum eru óþarflega hörð. Það væri auðvitað að svo stöddu glapræði að fara taka upp formlegt stjórmálasamband við Taívan. Við eigum heldur ekki að hvetja Taívani til að lýsa yfir sjálfstæði, enda er það umdeilt mál á eyjunni sjálfri. En hins vegar eigum við að vera skýr í því að styðja við bakið á lýðræðinu á Taívan og hafna öllum hugmyndum um innlimun eyjunnar með valdi.

Alþjóðlegur þrýstingur er eitt af því sem hindrar Alþýðulýðveldið frá því að hertaka eyjuna. Það er ekki stórmannlegt að efla stöðu sína á alþjóðavettvangi með því að níðast á nördinu sem sterka stráknum er illa við.

Leave a Reply

Your email address will not be published.