Þverpólitískt „úps“

Ber það virkilega vott um árangur í baráttu gegn spillingu að nefnd pólitíkusa skyldi komast að samhljóða niðurstöðu um að REI-málið hafi verið svoddan klúður?

Ef pólitískar ákvarðanir og ráðningar eru vondar þá eru þær þverpólitísku margfalt verri. Sendiherraskipanir eru gott dæmi. Einn daginn var Svavar Gestsson svarinn andstæðingur ríkisstjórnarinnar, þann næsta var hann orðinn í talsmaður hennar erlendis. Guðmundur Árni studdi einn manna umdeilt frumvarp sem einmitt átti að koma veg fyrir sókn útbrunninna stjórnmálamanna í ýmsar opinberar tyllistöður. Að launum var hann gerður að sendiherra.

Eðlilega verða pólitískir andstæðingar stundum vinir í daglegu lífi, enda ekki nema mannlegt þegar menn þurfa að deila þingsal svo árum skipti. En að það skyldi víðtekin venja að nota utanríkisþjónustuna sem fjórðu stoð almannatryggingakerfis eldri stjórnmálamanna er óþolandi. Það er hægt að skilja að menn fylli sendiherrastöðum af mönnum sem eru þeim sammála. En að menn skildu setja þangað menn sem eru þeim ósammála er erfiðara að ná utan um. „Karlinn á þetta skilið,“ virðist viðmótið vera.

Að auki er ófaglegri pólitískri ráðningu ávallt mótmælt harðlega. En gagnrýni á ófaglega þverpólitíska ráðningu kæfir sjálfa sig í fæðingu. Því auðveldlega er hægt að benda á að slík ráðning sé ekki pólitísk og það þykir vera einhver trygging fyrir því að hún sé góð. Á sama hátt virðast menn telja sem mesti styrkur skýrslunnar um REI-málið hafi verið sá að niðurstaðan hafi verið að niðurstaðan hafi verið þverpólitísk. Að málið hafi verið massaklúður en hver og einn verði að eiga það við sjálfan sig hvað hann gerir næst. Sannkallaður stóráfangi í baráttu gegn spillingu!

Eftir allan hamagang seinasta hausts og harðorðar yfirlýsingar þá hefur niðurstaðan með rannsókninni orðið sú að segja ætti „æjæ“, „úps“ og „obbosí“ og taka sig svo á í framtíðinni. Hið þverpólitíska bandalag um ábyrgðarleysi pólitíkusanna hefur staðið af sér áhlaupið. Svandís Svavarsdóttir hefur náð sér í verðmæt stig í baráttu um sendiherrastöðu einhvern tímann í framtíðinni.

Útrýmingarbúðir Evrópusambandsins?

Með reglulegu millibili senda nokkrir öfgafyllri ESB-andstæðingar frá sér greinar þar sem Evrópushugsjóninni er líkt við nasisma og kommúnisma. Það er í raun ekki aðeins ósanngjarnt gagnvart Evrópusambandinu og fylgismönnum þess heldur einnig verulega ósanngjarnt gagnvart þeim Hitler og Stalín. Þeir menn lögðu sig allt of hart fram við að vera vondir til að hálfþungalamaleg alþjóðasamtök eigi skilið sömu upphafningu á sviði mannvonsku.

Þýskaland undir stjórn Hitlers og Sovétríkin undir stjórn Stalíns voru óneitanlega mjög vond ríki. En þrátt fyrir það má auðvitað finna fjölmörg atriði þar sem þessum vondu ríkjum svipar mjög til Íslands, eða annarra ríkja og ríkjasambanda. Í Þýskalandi var þingbundin stjórn með sterkum forsætisráðherra, eins og á Íslandi, og í Sovétríkjunum var heilbrigðisþjónusta að stærstu leiti ókeypis. Á báðum stöðum var talsverður áhugi á vegagerð og verndun þjóðararfs. En ekkert af þessu skapar þessum tveimur ríkjum sérstöðu í evrópsku samhengi. Hin miklu morð, sem bæði þessi ríki frömdu í nafni sinna ömurlegu hugmyndakerfa, gera það hins vegar.

Mér vitandi hefur Evrópusambandið aldrei drepið neinn, sem er meira en segja má um mörg önnur ríki og samtök. Og jafnvel þótt einhver geti hugsanlega grafið upp einhverjar skrýtnar ESB-reglur sem með einhverjum hætti sköpuðu töf sem varð þess valdandi að einhver dó, þá er þetta auðvitað alltaf spurning um hver ásetningurinn lagasetningunni sé. Síðan má auðvitað finna eins dæmi í öllum ríkjum heims.
Ef vanræksla embættismanns gerir það að verkum að tvöföldun fjölfarins vegar tefst, er hann þá morðingi?

Evrópusambandið hefur heldur aldrei farið í stríð við neinn. Þrátt fyrir það hefur sambandinu tekist að hafa stórkostleg áhrif á þróun mála austar í álfunni með utanríkisstefnu sinni. Tilvera þess hefur eflt lýðræðið og kapítalisma og dempað vinda þjóðernishyggju og haftastefnu. Það er engin spurning að þegar Slóvakar kvöddu Meciar, og þegar Serbar kvöddu Milosevic þá hafi hugsanleg ESB-aðild ráðið stóru þar um.

Nú ætlar ESB að reyna kaupa frið við Serba vegna sjálfstæðis Kósovó með því að lofa ríkinu snöggri aðild. Raunar hæpið að slíkt verði einfalt, en það undirstrikar engu að síður hve sterkt vopn loforð um aðild að sambandinu er. Stærsti styrkur þess er að jafnt stjórnvöld sem almenningur líta aðildina girndaraugum. Stjórnmálamennina þyrstir í þróunarsjóði og fríverslunarsamninga, meðan almenningur þráir það mun heitar að geta ferðast til annarra landa og stundað þar atvinnu. Löglega og án vandræða.

Hafa einhver atriði að ofan áhrif á það hvort að Ísland eigi að sækja um aðild að sambandinu? Í sjálfu sér ekki. Með EES-samningnum njótum við flestra þeirra réttinda og fríðinda sem íbúar Austur-Evrópu höfðu í hávegum þegar þeir kusu með aðild ríkja sinna að sambandinu. Og auðvitað eru ýmsar áhyggjur af stöðu sjávarútvegsins eftir inngöngu fullkomlega réttmætar, sem og almennar áhyggjur manna vegna skerts fullveldis og minni möguleika á að ganga lengra í fríverslun en Evrópusambandið mundi hugsanlega vilja. Og það má líka gagnrýna stjórnsýslu sambandsins fyrir seinagang, óskilvirkni og of mikinn skandifasisma í reglugerðasmíði.

En það verður seint sagt með góðri samvisku að ESB hafi valdið Evrópu miklum skaða. Hvað þá að það sé í eðli sínu vont. Eins og Þriðja ríkið.