„Ótrúleg umræða“

Sumir hafa látið sem umræða um nýlega héraðsdómararáðningu hafi verið einstaklega óvægin og uppblásin. Myndum við virkilega vilja búa í samfélagi þar sem ráðning skyldmenna æðstu ráðamanna í dómarastöður myndi ekki kalla á viðbrögð? Nei, þótt sú umræða kunni að virka ljót, þá er hún samt eðlileg.

Það má til dæmis velta því fyrir sér hvernig breska pressan hefði brugðist við svipuðum ákvörðunum. Mundi Sun láta slíka frétt ósnerta og yrðu stóru orðin spöruð? Í því ljósi virkar umræða undanfarinna vikna eiginlega bara dempuð og yfirveguð, þó ég haldi því ekki fram að ég mundi óska sjálfum mér og fjölskyldu minni að verða skotmark einhvers sambærilegs.

Það er auðvitað alveg eðlilegt að ráðherrar hunsi af og til vilja einhverra sérfræðinganefnda, enda bera þeir ábyrgð á stjórnvaldsaðgerðum en ekki þær. Nóg er núþegar af einhverjum „klerkaráðum“ sem enginn virðist geta andmælt eða skipt út í stjórnkerfinu, hvort sem er. Það væri til dæmis óskandi ef jafnmikil hefð væri fyrir því að sniðganga skoðanir hinnar ömurlegu húsafriðunarnefndar og fyrir því að líta framhjá álitum nefndarinnar sem metur hæfi umsækjenda um dómarastöður.

Það er líka enginn vafi á því að valdið til að skipa dómara liggur hjá ráðherrum. Sumir hafa spurt sig hver sé tilgangurinn með þessum matsnefndum ef ráðherrann fer ekki að ráðum þeirra. Með sama hætti mætti auðvitað spyrja sig hver sé tilgangurinn með ráðherranum ef nefndin ætti alltaf að ráða. Svarið þið þessum spurningum er væntanlega eitthvað á þá leið að það er gott að hafa einhverja ráðgjafanefnd sem er það mikið í takt við heilbrigða skynsemi að oftast sé hægt að tillögum hennar athugasemdalaust. Þá er betur hægt að spotta betur út þær ákvarðanir ráðherra sem kunna að orka tvímælis. Þær ákvarðanir þegar ráðherrum og ráðgjöfum ber ekki saman. Í þeim tilfellum stöldrum við við og spyrjum: „af hverju var þessi ákvörðun tekin?“

Ábyrgð ráðherra á ráðningu dómara er pólitísk. Rétt eins og þegar ábyrgðin á því að leggja á nýjan toll eða breyta rekstrarformi heilbrigðisstofnunar. Hugmyndin er sú að afleiðingar af vondri mannaráðningu verði þær sömu og afleiðingar af öðrum vondum gjörninguum ráðherrans; minnkandi vinsældir og tap í kosningum. Hvort þessi fælingarmáttur virki nógu sterkt má deila um en allavega er ljóst að ráðherrar skulda okkur skýringar á öllum þeim pólitískum ákvörðum sem þeir taka. „Ég ræð þessu bara“ ekki nógu gott svar við spurningunni „af hverju var þessi ákvörðun tekin.“

Það er ekki annað hægt en að taka undir með þeim afdönkuðu sósíalistum, Pétri Kr. Hafstein og Sigurði Líndal, þegar þeir halda því fram að rökstuðningur Árna fyrir nýlegri dómaraskipan hafi verið veikur. Við bætist síðan að Árni hafi væntanlega þurft að eiga góð og mikil samskipti við fyrrverandi forsætisráðherra á uppvaxtarárum sínum í pólitíkinni, líkt og raunar allir núverandi ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, sem kannski verður ekki til þess að slá á allan vafa um hugsanlega spilllingu þegar ráðningar nánustu fjölskyldu hans eru annars vegar. Kannski eru til betri leiðir til að ráða dómara og gaman ef einhverjum tækist að finna þær, en pólitísku valdi fylgir pólitísk ábyrgð og þeim báðum fylgir umræða. Sem er líka pólitísk.

Þegar lögreglan yfirheyrir menn vegna endurtekinna hjólreiðameiðsla makans þá er vissulega eðlilegt að þeir fyllist reiði yfir því að vera sakaðir um eitthvað slæmt. En menn geta líka spurt sig: „Væri það eðlilegt ef þeir myndu ekkert spyrja mig?“

Við Laugaveg stóð kofi einn

Fyrir tveimur árum lauk heildstæðri vinnu um friðun húsa á Laugaveginum. Þar var gengið ansi langt í friðunarátt, líklegast lengra en var miðbænum fyrir bestu. En nú á að ganga enn lengra og friða hús með númerum 4-6 því húsið með númeri 2 sé svo flott. Með þessu áframhaldi verður bílasalan Hekla orðin að þjóðargersemi fyrir árslok.

Ég ætla biðja lesendur um að hugsa sér eina ljóta nýbyggingu í miðbæ Reykjavíkur. Flestir hafa væntanlega fundið eitthvað dæmi áður en þeir kláruðu að lesa fyrstu setningu í þessari efnisgrein. Það er af nógu að taka, og væntanlega verða flestir lesendur komnir með 3-5 dæmi til viðbótar áður áður en þeir klára þennan pistil. Eða 4-6 dæmi um vond hús á innan við fimm mínútum. Ekki slæmt.

En það hafa líka hlutir tekist vel til, eins og til dæmis nýja hótelið í Aðalstræti. Hver hefði trúað því að þar væri á ferð bygging sem byggð væri eftir aldamótin? Glæsileg bygging sem sameinar gamlan stíl og nýja tíma. Svona „Bárujárnshús 21. aldarinnar“ eins og einhverjir klisjugjarnari stjórnmálamenn myndu kalla það.

Þær tillögur sem nú á að stoppa á seinustu stundu á Laugavegi 4-6 eru vel unnar og smekklegar. Líklegast hafa fáir verktakar og arkítektar lagt sig jafnmikið fram við að reyna koma til móts við afstöðu borgaryfirvalda, eins og rakið var í Morgunblaðinu um helgina. Og einn helsti tengiliður þeirra innan borgarkerfisins, var Nikúlás Úlfar Másson, formaður húsafriðunarnefndar, sem nú lætur eins og hann hafi aldrei séð tillögurnar áður. Borgin brást því verktökunum algjörlega. Eins og bent hefur verið á voru það 3 ólíkir meirihlutar sem komu að samþykkt tillagnanna og það grátlega er að ef verktakinn hefði neitað borgarstjóra um þennan tveggja vikna frest til að flytja húsin, sem borgarstjóri bar upp á allra seinustu stundu, þá hefði Húsafriðunarnefnd aldrei geta sett af stað þennan farsa.

Rökstuðningur formanns nefndarinnar er svo sérkapítúli út af fyrir sig, en helsta ástæðan sem gefin er að nefndinni hafi það sem koma átti í staðinn ekki vera nógu flott. Ég hélt satt að segja að rangt hafi verið haft eftir formanninum fyrst þegar ég heyrði þetta. Er Húsafriðunarnefnd orðin einhver dómstóll um fagurfræði nýbygginga? Og getur hún kveðið dóma sína nokkurn veginn hvenær sem er? Hvað mun það hafa að segja fyrir allar uppbyggingu í miðbænum, byggingu verslunarmiðstöðvar og Listaháskóla ef allir aðilar eiga það á hættu að fimm manna klúbbur áhugamanna um kofa og bárujárn getur stöðvað framkvæmdir á seinustu stundu?

Með engum rökstuðning, bara tilvísan í eigin smekk.

Borgarstjórinn segir málið vera hjá Menntamálaráðherra, Menntamálaráðherra vill heyra álit borgarinnar. Hvað er í gangi? „Lenti“ þetta fólk í stjórnmálum? Og hvenær varð þessi blessaða húsafriðunarnefnd að einhverju æðsta klerkaráði um öll málefni sem tengjast skipulagi í miðborginni? Hvernig getur það verið að nefndin getur í 6 ár álitið einhver hús ekki vera friðunar virði til þess eins að stoppa niðurrif í þann mund sem maðurinn með kúbeinið er mættur á svæðið?

Eigendur vildu ekki friða húsin. Meirihluti borgarbúa vill ekki friða húsin. Meirihluti borgarstjórnar vildi ekki halda í húsin. Það er ekki einu sinni meirihluti fyrir friðun þeirra innan meirihlutans núverandi. Nú liggur á að Menntamálaráðherra standi vörð um, eignarétt, meðalhófsreglu og bara heilbrigða skynsemi og stöðvi þetta blessaða flipp.

Árið sem Múrinn féll

Fyrir rúmlega einu ári síðan benti Deiglan á ártalsvillu í umfjöllun Múrsins um sögu Suður-Ameríku. Í kjölfarið hætti Múrinn að koma út. Það var nú kannski fullmikið af hinu góða.

Í greininni Alræmdasti einræðisherra samtímans sem birtist á Múrnum þann 17. desember 2006 var því ranglega haldið fram að þjóðaratkvæðagreiðslan þar sem Pinochet tapaði völdum hafi farið fram árið 1989 og komið í kjölfarið á hruni járntjaldsins, á meðan að hið sanna er að hún fór fram árið 1988, a.m.k. átta mánuðum fyrir fyrstu hálflýðræðislegu kosningarnar í Póllandi sem mörkuðu upphaf endaloka kommúnismans í Austur-Evrópu. Undirritaður benti á þessa staðreyndavillu í pistlinum Róttæklingur fokkar upp ártali sem birtist á Deiglunni þann 29. desember árið 2006.

Það liðu um það bil 6 mánuðir frá fyrstu hálflýðræðislegu kosningum í Póllandi og þar til kommúnískar harðstjórnir höfðu fallið í Póllandi, Ungverjalandi, Tékkóslóvakíu, Austur-Þýskalandi, Búlgaríu og Rúmeníu. Það liðu sömuleiðis einungis 6 mánuðir frá ártalsvillunni meinlegu og þangað til að Múrinn, hinn íslenski, var fallinn. Svo valtur var kommúnisminn í Austur-Evrópu að hann féll með hraðanum eitt ríki á mánuði. Var Múrinn svo brothættur að það þurfti ekki nema eina innsláttarvillu til að kippa fótum undan tilveru hans?

Það var sagt á sínum tíma að vefritin höfðu komið í staðinn fyrir flokksblöð. Færslan úr flokksblöðunum yfir í vefrit þýddi fjölmennari, hraðari, óvægari og oftast nær óvandaðri málflutning. Nú spá því margir að vefritin fari sömu leið og flokksblöðin og bloggið taki alfarið við. Þetta mun væntanlega þýða enn fjölmennari, enn hraðari, enn óvægari og oftast nær enn óvandaðri málflutning en áður, en það þýðir ekkert að býsnast yfir því. Og flest bendir til að þessar spár séu að rætast. Mörg vefrit hafa lagt upp laupanna að undanförnu eða átt í miklu basli með að halda uppi reglulegri uppfærslutíðni og háum gæðum. Nema Vefþjóðviljinn, sem kemur ótrauður út alla daga ársins, og enginn vafi liggur á að þar séu ágætir íslenskumenn á ferð.

Ein af fyrstu greinum sem ég skrifaði á Deigluna fjallaði um Hrun kommúnismans og greinin svar við þeirri fullyrðingu, sem oft hefur heyrst meðal margra íslenskra vinstrimanna, að það hafi verið harðstjórnarþátturinn í sósíalisma Austur-Evrópu sem hafi gert hann ónýtan og vondan en ekki sósíalisminn sjálfur. Flest okkar sem bjuggu handan járntjaldsins litu með öfundaraugum til þess vöruúrvals og lífsgæða sem íbúar á Vesturlöndum bjuggu við. Það hefði verið frábært að geta sagt að við þráðum málfrelsið og lýðræðið heitar en gosið, plastinnkaupapokana og gallabuxurnar, en það var bara ekki þannig. Aðalástæða hrunsins var ást fólks á kapítalisma, ekki andúð á þess á harðstjórn.

Þessar fullyrðingar mínar kölluðu vitanlega á viðbrögð, hér og þar um vefinn, meðal annars á Múrnum. Það var mikil upphafning fyrir ungan penna og var mér hvatning í áframhaldandi skrifum. Ég hafði ekki haft aldur eða þroska til að reyna brjóta hinn gamla múr í Berlín. En hinn íslenska Múr reyndi ég að kítla af og til.

Múrsins, hins íslenska, sakna ég. Reglulega lendi ég í því þegar ég sest fyrir framan tölvuna að fingurnir slá lén Múrsins af gömlum vana, ég horfi á óuppfærðu síðuna birtast og renni yfir seinustu greinar. Í seinustu grein er aftur minnst á Pinochet, sem virðist vera rauður þráður í þessari sögu. Þar á eftir les maður kveðjugreinar allra helstu besservisseranna á vefritinu, sem maður vissi ekki að væru kveðjugreinar þótt þeir hefðu eflaust vitað það. Mér finnst það erfitt við hinn frjálsa markað þegar rótgróin fyrirtæki breyta um nafn eða hverfa þann fyrsta einhvers mánaðar án þess að maður fái tíma til að kveðja gamla vörumerkið. Dag einn hætti Tal að vera til. Og ég sem hafði fjárfest í kúli öll þessi ár!

Þannig kvaddi Múrinn skyndilega vefhringinn minn eftir sjö ára samveru. Við hin verðum bara að halda áfram að halda uppi merkjum vefritanna. Og passa vel upp á ártölin okkar.

Einn maður – einskonar atkvæði

Fyrir átta árum höfðu réðu kjósendur á Florida úrslitum í kosningum um forseta Bandaríkjanna. Í forkosningunum undir lok mánaðar munu íbúar fylkisins komast að því hvernig það er að vera á hinum enda valdastigans, en þá fara fram forkosningar um alla núll fulltrúa fylkisins á landsfundi Demokrata, sem fram fer síðar á árinu. Þetta er aðeins einn fjölmargra gimsteina á hinu litskrúðuga perlufesti bandarískra kosningareglna.

Eins og margir vita þá kjósa bandarískir kjósendur ekki beint um forseta heldur um kjörmenn sem síðan kjósa forseta. Flest fylkin úthluta öllum kjörmönnum sínum til þess frambjóðanda sem sigrar í fylkinu, sem skynsamlegasta stærðfræðilega niðurstaðan út frá hverju fylki enda hámarkar þetta vægi fylkisins og um leið áhuga frambjóðandans á því. Fylkin Maine og Nebraska nota raunar aðra aðferð en þar kýs hvert þingkjördæmi einn fulltrúa og sá sem vinnu fylkið allt fær tvo fulltrúa að auki. Fyrir seinustu kosningar kusu íbúar Colorado um það hvort skipta ætti kjörmönnum fylkisins með hlutfallskosningum. Þar var á ferð tilraun Demokrata til að ná í hluta kjörmannanna í hinu almennt rauða fylki. Þessi tillaga var felld.

Þrátt fyrir að vera jafngamalt og Bandaríkin sjálf nýtur kjörmannakerfið nýtur ekki stuðnings meirihluta Bandaríkjamanna. Fjölmargar tilraunir hafa verið gerðar til að koma á einfaldri meirihlutakosningu á landsvísu en með litlum árangri enda er gríðarlega erfitt að breyta bandarísku stjórnarskránni. Nýlega hefur hins vegar komið fram hugmynd um hvernig koma mætti á slíkri kosningu án þess að leggja niður kjörmenn eða breyta stjórnarskránni. Það hefur verið bent á að ef stór hluti fylkja mundi úthluta kjörmönnum sínum til þess sem vinnur kosninguna á landsvísu, en ekki til þess sem vinnur hana í fylkinu, mundi það í reynda jafngilda meirihlutakosningu á landsvísu.

Maryland-fylkið hefur þegar samþykkt þátttöku í slíkum millifylkjasamningi og nýlega neitaði Arnold Schwarzenegger ríkisstjóri að skrifa undir lög sem hefðu gert California-fylkið að aðila að honum. Sambærilegar tillögur hafa verið setta fram í fjölmörgum annarra fylkja og náð mislangt í lagasetningarkerfinu. Það verður gaman að fylgjast með framgangi þessa máls enda sanngjarnt og rökrétt að atkvæði allra kjósendi vegi jafnt. Hins vegar eru það nánast einungis Demokratar sem styðja þessa hugmynd svo það má draga í efa að hún að verða að veruleika.

Bandarískar kosningareglur eru sem sagt ólíkar eftir fylkjum, og sama gildir í raun um forkosningarnar. Báðir stóru flokkarnir velja frambjóðendur sína á landsfundum og það er um fulltrúa á þessa landsfundi sem slagurinn stendur í forkosningunum. Hjá Demokrötum eru fulltrúarnir valdir með hlutfallskosningu innan hvers fylkis en Repúblikanar eru gjarnari á að nota sama „winner-takes-it-all“ kerfi og í stóru kosningunum, það gildir hins vegar ekki um öll fylki.

Það er hins vegar undir alveg undir fylkjunum eða flokkunum innan fylkisins komið hvernig og hvenær kosningarnar fara fram þótt móðurflokkarnir reyni oft að hafa áhrif á þetta ferli. Í ár ákváðu báðir flokkarnir að forkosningar mætti ekki halda fyrir 5. febrúar, með undantekningum fyrir Iowa, New Hamshire, Nevada og Suður Karólínu. Bæði Michigan og Florida færðu hins vegar kosningarnar sínar fram í janúar og brást Demokrataflokkurinn við með því að svipta bæði fylkin ÖLLUM fulltrúm sínum á landsfundi. Í tilfelli Florida er staðan raunar það undarleg að það Florida fylkið sjálft en sem skipuleggur forkosningarnar en ekki Demokrataflokkurinn í fylkinu og ákvörðunin um flutning forkosinganna var tekinn af fylkisþinginu, þar sem Repúblikanar eru í meirihluta. Vafalaust mun þetta skaða Demokrata í þessu mikilvæga fylki töluvert, en fróðlegt verður að sjá hve margir frambjóðendur láta sjá sig á Florida í baráttu um ekki neitt.

Í ár munu úrslitin þó að öllum líkindum ráðast 5. febrúar þegar forkosningar fara fram í 22 fylkjum. Þetta verður langstærsti massaþriðjudagur (super-tuesday) í sögu Bandaríkjanna og í raun hálfgerð fyrsta umferð forsetakosninganna. Það væri því afar skemmtilegt ef íslenskar sjónvarpsstöðvar uppfylltu þarfir kosninganörda og sýndu beint frá þeim atburði.