101 Árbæjarsafn

Torfusamtökin héldu á dögunum fund til að mótmæla því að byggja ætti listaháskóla og verslunarmiðstöð í miðbænum. Með svona vini þarf miðborgin ekki á óvinum að halda.

Nú gæti einhver sagt að tilgangur með þeim fundi sem haldinn var á Boston um daginn hafi verið að mótmæla niðurrifi gamallra húsa fremur en uppbyggingu nýrra. En það ekki er hægt að búa til omlettu án þess að brjóta nokkur egg. Og mörg þeirra eggja sem á að brjóta í miðbænum hafa raunar staðið úldin utan kælis í fjölda ára. Svæðið nálægt Barónstíg og raunar stærsti hluti Hverfisgötu er engin augnaprýði, og raunar manekki eftir að það hafi nokkurn tímann verið það.

Menn láta stundum eins og það eigi alltaf að fara rífa Alþingishúsið i hvert skipti sem einhverjar hugmyndir um ný hús komi í stað hinna eldri. Auðvitað er það svo að menn geta haft ólíkar skoðanir á nýbyggingunum á sama hátt og flestir höfðu eflaust einhverjar skoðanir á þeim húsum sem nú á að rífa, á þeim tíma sem þau voru reist. Þau ruddu eflaust í burtu einhverjum þurrabúðum, hlöðum eða mosa sem einhverjum bæjarbúa þóttu ómissandi hluti Reykjavíkur. Allir hafa einhverja nýbyggingu í miðbænum sem þeir hata. En sem betur fer hefur margt heppnast vel, til dæmis nýja hótelið í Aðalstræti sem fellur vel að stíl miðbæjarins. Ég mundi seint gráta Landsímahúsið ef önnur bygging í sama stíl og það hótel ætti að koma þar í staðinn.

Miðbærinn á undir högg að sækja. Staða hans sem stærsta skemmtistaðar Íslands er enn óumdeild. En á mörgum öðrum sviðum, eins og verslun og þjónustu er hann svipur hjá sjón. Það er ótrúlegt að stór hluti Íslendinga leggur ekki leið sína í bæinn nema milli 22 og 5 á nóttunni. Hvernig má breyta því?

Við þurfum fólk í miðbæinn. Við þurfum íbúðir í miðbæinn. Við þurfum háskóla, stúdenta, búðir, leikhús og tónleikasali. Og ef einhver rotin húshræ þurfa að víkja fyrir þessum hlutum þá er það allt í lagi. Við megum hafa nostalgíu. Auðvitað verðum við að hafa nostalgíu. Án hennar verður engin sál í bænum. En við megum samt ekki líta á miðbæinn sem byggðasafn. Á áttunda og níunda áratugnum byggðu menn verslunarmiðstöðvar of þjónustustofnanir utan miðbæja til að “létta af þeim”. Slíkur var létturinn að miðbæirnir dóu, því engin fór þangað lengur. Og nú reyna framsæknir aðilar að að snúa við þessari þróun, og þá rekast þeir á einhverjar nostalgíuveggi.

Smáralindarsvæðið er ekkert að fara minnka á næstu árum. Miðbærinn þarf nýtt verslunarhúsnæði. Annars getum við bara girt af 101 og kallað hann “Árbæjarsafn – Kvosardeild”.

Leave a Reply

Your email address will not be published.