Bókasafn dauðans

Eitt af þeim samfélagslegu vandamálum sem kom upp á yfirborðið í vikunni er sú staðreynd að íslenskir unglingar svindli sér inn á Þjóðarbókhlöðuna til að lesa þar í óleyfi. Uss, æskan í dag!

Fjallað var um þetta hræðilega vandamál í blaðinu 24 stundum seinasta miðvikudag. Í kaflanum á eftir undirfyrirsögninni „Aldurstakmark 18 ár“ segir að framhaldskólanemendur sæki í auknum mæli í Bókhlöðuna yfir prófatímann og að það veki misjafna kátínu stúdenta. Einn starfsmaður bókasafnsins segir að að það komi fyrir að starfslið Bókhlöðunnar þurfi að stugga við ungu fólki sem leggur undir sig lesrými með látum og tali. Þau séu þá stundum beðinn um að sýna skilríki og „viti þá upp á sig sökina“ og fari sjálfviljug.

Þessi saga sýnir enn og aftur hvílíka vitleysu börn, unglingar, framhaldsskólanemendur og allt ungt fólk þurfa að lifa við á hverjum degi. Auðvitað ættu allir sem eru til friðs fyrir öðrum að fá sjálfir að vera til friðs á landsbókasafni. En til að auðvelda sjálfum sér sönnunarbyrðina hafa starfsmenn Þjóðarbókhlöðunnar ákveðið dónaskapur og læti endi sjálfkrafa við 18 ára aldur. Það er nefnilega talsvert auðveldara að sanna þann dónaskap, dónaskapinn sem felst einungis í því að vera yngri en 18 ára, heldur en dónaskapinn sem felst í því að tala of hátt. Eins og skandifasistarnir í VR og Akureyrabæ þá bannar Þjóðarbókhlaðan dónalegan aldur fremur en dónalega hegðun.

Í lögum og reglum um Landsbókasafn verður varla séð að Þjóðarbókhlaðan hafi yfir höfuð heimild til að setja slík aldursmörk. Það verður heldur engan veginn séð að þessa ráðahögum samræmist almennum hugmyndum um hvenær sé rétt að setja aldursmörk. Aldursmörk á að setja til að vernda börn og unglinga, en ekki til að vernda aðra frá því að þurfa að rekast á börn og unglinga, eins og sumir í þjóðfélaginu virðast vera farnir að halda.

Líklegast er undirritaður einn af þeim sem ber einhverja á abyrgð á því að þessi aldursmörk voru sett, en hann notaði safnið stíft þegar hann var enn á unglingsaldri. Vitanlega fór það því mjög fyrir brjóstið á honum þegar að 17 ára aldurstakmark var sett í safninu og var þá haft samband við Umboðsmann barna og vælt. Eitthvað hefur barátta umboðsmannsins gengið brösulega því nú, rúmum áratug síðar, er búið að hækka aldurstakmarkið um eitt ár til viðbótar. Við búum sem sagt í landi þar sem börnum er meinaður aðgangur að bókasöfnum. Til hamingju Ísland, ég fæddist (reyndar ekki) hér.

Ef ungt fólk er ósátt við aldurstakmarkanir hefur það tvennt til ráða, erfiða leiðin er að fara í erfiða baráttu gegn kerfinu og láta sjálfumglatt, fullorðið fólk hæðast að sér. Hin leiðin er einfaldlega að eldast. Flest okkar velja seinni leiðina og gleyma fljótt því ranglæti sem á okkur dundi. En dæmin frá því á Akureyri í sumar sýna að hatri á ungu fólki, í sífellt víðari skilningu, virðast engin takmörk sett. Hvað næst? „Nei, vinur. Þessi mynd er bönnuð innan þrjátíu.“ Nei, ég viðurkenni að það er nú dálítið fáranlegt dæmi. Álíka fáranlegt að banna fólki undir átján ára að fara inn á bókasafn til að lesa.

„Hérna er gulrótin þín“

Með inngöngu 9 ríkja í Mið- og Austur-Evrópu í Schengen-svæðið er íbúum svæðisins launuð sú þolinmæði sem þeir sýndu í erfiðum umbótum seinasta áratugar. Án frjálss flæðis fólks og vinnuafls hefði stækkun Evrópusambandið ekki geta orðið að veruleika.

„Hvað getur mann svosem munað um að sýna passann sinn af og til?“ gæti einhver spurt. „Er það ekki allt of dýr og áhættusöm breyting að leggja niður innri landamæri ESB-ríkja bara til að spara bakpokakrökkum eina mínútu hér og þar? Og erum við ekki að gera smyglurum og glæpamönnum lífið of auðvelt?“ Vissulega mætti taka undir mörg þessara sjónarmiða. Og jafnvel ef bent er á að Schengen samstarfinu fylgja ýmis úrræði, eins og sameiginlegt upplýsingakerfi og samstarf í löggæslu, þá hefði mátt koma þeim á án þess að leggja niður innri landamæri ESB. (Í raun er það það sem Bretar og Írar hafa kosið að gera.)

„Gaman að þurfa ekki að sýna passann sinn, en hvert er pointið?“

Pointið er eiginlega nákvæmlega það að venjulegu fólki finnst gaman að þurfa ekki að sýna passann sinn. Þegar ég keyrði í lest á milli Danmerkur og Þýskalands skömmu eftir að landamæragæslu þar var hætt, fann ég fyrir einhverri undarlegri hlýju. Það er notarlegt að vita til þess þegar stjórnvöld viðurkenndu það loksins að langflestir ferðalangar séu heiðvirt fólk, sem ekki þarf að tékka á og leita á. Manni leið eins og unglingi sem fær lyklana að bíl foreldranna í fyrsta skipti og heyrir, „Æi, og ekki gera neina vitleysu!“

Evrópusambandið er frábært. Því hefur nú tekist að innleiða kapitalisma og vestræna löggjöf í tíu ríkjum Austur-Evrópu með yfirgnæfandi stuðningi almennings þessara ríkja! Við skulum átta okkur á að inngöngu í ESB fylgdu á tímum mjög erfiðar efnahagslegar og samfélagslegar umbætur. En þegar erfiðri lagasetningu fylgdu þær skýringar að hún væri nauðsynleg vegna inngöngunnar í Evrópusambandið þýddi það oftast endalok þeirrar umræðu. „Jæja, við verðum að harka þetta af okkur, leiðin til Evrópusambandsins er þyrnum stráð,“ hugsaði fólk þá.

Og hvers vegna var stuðningur almennra borgara í fyrrverandi kommúnistaríkjum við inngöngu í ESB svona mikill? Var það vegna þess að Meðal-Evrópubúi er mikill fríverslunarsinni sem elski sameiginlegu landbúnaðarstefnuna og dýrki svæðisþróunarsjóði? Varla. Slíkt er fyrst og fremst áhugamál stjórnmálamanna. Venjulegur maður hefur mun meiri áhuga á því að hann sjálfur komist óáreittur til Frakklands heldur að einhver stóll sem hann skrúfar saman geri það. Í þessu felst snilld og sigur stækkunarinnar. Frjálst flæði fólks er gulrótin sem fær almenning til að samþykkja allar hinar hugmyndirnar sem hagfræðingunum og stjórnmálmönnum detta í hug.

Á meðan að mörg þúsund kílómetrar af landamærum í Evrópu hætta að vera til, og raunhæft er orðið að búa í einu landi en vinna í öðru, er verið að reisa gaddavírsgirðingu og fjárfesta í innrauðum myndavélum á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Síðan furða sig allir á því að einungis þriðjungur Mexikóbúa styðji hinn frábæra NAFTA-samning. Hve langt væri Meðal-Ameríkubúi tilbúinn til að ganga ef það þýddi frjálst flæði fólks í álfunni? Líklegast ansi langt.

101 Árbæjarsafn

Torfusamtökin héldu á dögunum fund til að mótmæla því að byggja ætti listaháskóla og verslunarmiðstöð í miðbænum. Með svona vini þarf miðborgin ekki á óvinum að halda.

Nú gæti einhver sagt að tilgangur með þeim fundi sem haldinn var á Boston um daginn hafi verið að mótmæla niðurrifi gamallra húsa fremur en uppbyggingu nýrra. En það ekki er hægt að búa til omlettu án þess að brjóta nokkur egg. Og mörg þeirra eggja sem á að brjóta í miðbænum hafa raunar staðið úldin utan kælis í fjölda ára. Svæðið nálægt Barónstíg og raunar stærsti hluti Hverfisgötu er engin augnaprýði, og raunar manekki eftir að það hafi nokkurn tímann verið það.

Menn láta stundum eins og það eigi alltaf að fara rífa Alþingishúsið i hvert skipti sem einhverjar hugmyndir um ný hús komi í stað hinna eldri. Auðvitað er það svo að menn geta haft ólíkar skoðanir á nýbyggingunum á sama hátt og flestir höfðu eflaust einhverjar skoðanir á þeim húsum sem nú á að rífa, á þeim tíma sem þau voru reist. Þau ruddu eflaust í burtu einhverjum þurrabúðum, hlöðum eða mosa sem einhverjum bæjarbúa þóttu ómissandi hluti Reykjavíkur. Allir hafa einhverja nýbyggingu í miðbænum sem þeir hata. En sem betur fer hefur margt heppnast vel, til dæmis nýja hótelið í Aðalstræti sem fellur vel að stíl miðbæjarins. Ég mundi seint gráta Landsímahúsið ef önnur bygging í sama stíl og það hótel ætti að koma þar í staðinn.

Miðbærinn á undir högg að sækja. Staða hans sem stærsta skemmtistaðar Íslands er enn óumdeild. En á mörgum öðrum sviðum, eins og verslun og þjónustu er hann svipur hjá sjón. Það er ótrúlegt að stór hluti Íslendinga leggur ekki leið sína í bæinn nema milli 22 og 5 á nóttunni. Hvernig má breyta því?

Við þurfum fólk í miðbæinn. Við þurfum íbúðir í miðbæinn. Við þurfum háskóla, stúdenta, búðir, leikhús og tónleikasali. Og ef einhver rotin húshræ þurfa að víkja fyrir þessum hlutum þá er það allt í lagi. Við megum hafa nostalgíu. Auðvitað verðum við að hafa nostalgíu. Án hennar verður engin sál í bænum. En við megum samt ekki líta á miðbæinn sem byggðasafn. Á áttunda og níunda áratugnum byggðu menn verslunarmiðstöðvar of þjónustustofnanir utan miðbæja til að „létta af þeim“. Slíkur var létturinn að miðbæirnir dóu, því engin fór þangað lengur. Og nú reyna framsæknir aðilar að að snúa við þessari þróun, og þá rekast þeir á einhverjar nostalgíuveggi.

Smáralindarsvæðið er ekkert að fara minnka á næstu árum. Miðbærinn þarf nýtt verslunarhúsnæði. Annars getum við bara girt af 101 og kallað hann „Árbæjarsafn – Kvosardeild“.

Hjartnæm áköll um framsóknarmennsku í stjórnmálum

Eitt merkilegasta upphlaup ársins var undrun manna yfir því Guðlaugur Þór skildi ekki hætta að styðja sitt eigið vínfrelsisfrumvarp þegar hann gerðist ráðherra. „Hvernig dirfist ráðherrann að vinna gegn skoðunum nokkurra undirmanna sinna?“ spurðu menn hlessa.

Framsóknarmenn lenda sjaldan í krísu útaf árekstrum á milli eigin sannfæringar og hagsmunum þeirra stétta sem þeir umgangast mest, kannski vegna þess að það fyrra er sjaldnast til staðar. Þau embætti sem framsóknarmenn gegna skilgreina alfarið þeirra pólitíska sjálf. Eða er það ekki merkilegt að utanríkisráðherrar Framsóknar seinustu árin, Halldór og Valgerður, urðu bæði Evrópusinnuð þegar á leið? En Guðni, hann sat allan þennan tíma sem landbúnaðarráðherra, og varð ekkert Evrópusinnaður, bara mjög landbúnaðarsinnaður. Sannkallaður umboðsmaður bænda, eða allavega umboðsmaður þess kerfis sem hann starfaði fyrir.

Almennt ættu embættin auðvitað frekar að mótast af þeim mönnum sem gegna þeim fremur en öfugt, enda væri lítill tilgangur með lýðræði annars. Síðan eiga þessir lýðræðislega kjörnu fulltrúar auðvitað að stjórna undirmönnum sínum í umboði okkar, en ekki eins og sumir virðast telja: segja okkur til verka í umboði viðfangsefna sinna. Þannig á utanríkisráðherra að gæta hagsmuna Íslendinga í útlöndum en ekki að gæta hagsmuna útlanda á Íslandi. Eins er það ekki hlutverk menntamálaráðherra að vera talsmaður og málsvari menntastétta gangvart almenningi og ríkisstjórn. Hlutverk hans er að sjá til að menntastofnanir fari að lögum.

Það þótti einstaklega merkilegt að Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra skyldi áfram styðja gamalt þingmannafrumvarp sitt um afnám ríkiseinokunar á léttvíni og bjór þrátt Landlæknisembættið og Lýðheilsustöð hafi lagst gegn því. Bölvaður dónaskapur hjá ráðherranum! Þó ætli hann ekki að beita embætti sínu til þess að berjast fyrir þessari skoðun sinni, annað en sagt verður um starfsmenn áðurnefndra stofnana.

Það er stundum eins og menn gleymi því að stjórnmálamenn, þar með taldir ráðherrar, eru kosnir af fólki. Þeirra ábyrgð er því gagnvart þeim kjósendum sem þá kusu, en ekki gagnvart undirmönnum sínum í ráðuneytunum og ekki gagnvart þeim sem sérhagsmunahópum sem þeir umgangast mest. Guðlaugur Þór er fulltrúi ákveðinnar hugmyndafræði og var kosinn í prófkjöri og inn á þing á grundvelli hennar. Honum er til hróss að hafa látið hjartnæm óp um meiri lipurð í túlkun hennar sem vind um eyru þjóta, enda var það það hið eina rétta í stöðunni. Eitt atkvæði landlæknis dugar skammt í prófkjöri.

„Kristnir fá frí“

Mundi Jesús halda fermingarferð á skólatíma? Mundi Jesús sækja um leyfi til að kristnu börnin kæmust í þessa ferð? Mundi hann sækja um slíkt leyfi í heilu lagi fyrir allan hópinn eða mundi hann láta hvert foreldri faxa sína eigin beiðni til skólastjórans? Og hvað mundi hann gera ef hann væri skólastjórinn? Mundi hann veita leyfið eða ekki?

Já hvað myndi Jesús gera sem skólastjóri. Væri leyfisveiting af hálfu hans háð því hvort beiðnin kæmi frá Kirkjunni eða foreldrunum sjálfum? Mundi hann hringja í fjölmiðla? Eða mundi Jesús senda fyrirspurn til Menntamálaráðuneytisins um nánari útfærslu á þeim tilmælum ráðuneytisins að trúarstarf skuli ekki fara fram á skólatíma. Og hvað mundi Jesús gera sem Menntamálaráðherra? Mundi hann lúffa fyrir biskupnum eða standa ótrauður vörð um trúfrelsi í skólum?

Óháð því hvert svör við hinum fáranlegu spurningum hér að vera kynnu að vera er hins vegar alveg klárt hvert rétta afstaðan er í þessum málum árið 2007. Það gefur augaleið að skólastarfið á ekki að skipuleggja í kringum viðburði einstaka trúfélaga ekki fremur en það eigi að skipuleggja það í kringum viðburði íþróttafélaganna. Samfélagsmynstrið okkar býður ekki upp á slíkt. Sum börn eru látin fermast, önnur ekki. Sum börn eru látin æfa knattspyrnu önnur ekki.

Á sama hátt gefur það augaleið að ef sótt er um leyfi til að fara í svona ferðalag er varla hefð fyrir öðru en að slík leyfi séu veitt. Líklegast ætti fjögurra barna hópur ekki erfitt með að fá frí til að fara á viðburð á vegum einhvers annars trúfélags, íþróttafélags eða tónlistarskóla. Sama ætti auðvitað að gilda um börn sem skráð hafa verið í Þjóðkirkjuna. Spurningin er bara hvort það væri litið á það jákvæðum augum ef önnur trúfélög, íþróttafélög eða tónlistarskólar skipulegðu vísvitandi starfsemi sína þannig að hún kæmi niður á skólasókn þeirra barna sem viðburðina sóttu. Auðvitað verður stundum ekki komið í veg fyrir árekstra. Páskana væri til dæmis ekki hægt flytja auðveldlega en öðru máli gildir um einhverjar skálaferðir. Og auðvitað setja slíkar ferðir dagskrár skólanna úr skorðum. Væri of mikils ætlast að vilja að þær færu fram um helgi?

Fullorðnir heimskari en áður?

Ein þreyttasta tugga allra tíma er sú staðhæfing að ungt fólk sé á einhvern hátt orðið, dónalegra, háværara, heimskara og latara en það var einu sinni. Slíkar staðhæfingar virðist mega setja fram án nokkurs vísindalegs rökstuðnings heldur nægir oftast óljós tilfinning manna sem voru ungir einu sinni en hafa hætt því. En sjónarhorn skipir auðvitað heilmiklu máli. Þannig er það pistlahöfundi ljóst að fullorðið fólk sé orðið bæði leiðinlegra, dónalegra og heimskara en það var fyrir 20 árum síðan.

Fyrir tuttugu árum síðan, þegar undirritaður var sjö ára voru fullorðnir upp til hópa frekar jákvæður þjóðflokkur. Þeir voru duglegir að hrósa fyrir vel unnin störf og dáðust af flestu því sem maður tók sér fyrir hendur. Smám saman virðist þjóðfélagið hafa breyst því á þessum tveimur áratugum hefur orðið sjaldgæfara að manni sé hrósað fyrir verk sín. Nú þegar maður vaskar upp eða fer út með ruslið er litið á það sem gefinn hlut. Já, fullorðið fólk var tvímælalaust þakklátara í gamla daga.

Í staðinn virðist fullorðið fólk orðið uppteknara af því að nöldra en áður. Þau nöldra yfir umferðarteppum, peningum, heilbrigðiskerfinu, en mest af öllu nöldra þau yfir hvert öðru. Fullorðið fólk gerði minna af því að baktala annað fullorðið fólk þegar ég var lítill. Mikið hefur samfélagið breyst til hins verra!

Svo er fullorðið fólk líka orðið mun dónalegra og kuldalegra. Þegar maður gekk í skólann með skólatöskuna og endurskinsmerkin á níunda áratugnum stoppuðu allir bílar fyrir manni óttaslegnir yfir því að meiða mann. Þetta gerir fullorðið fólk ekki lengur, því virðist standa meira á sama en áður. Og þegar menn meiddust í gamla daga eða lentu í einhverju mótlæti þá var fullorðið fólk sjaldnan lengi á staðinn til að hugga mann. Nú er öldin önnur. Ef einhver harmleikur hendir mann, mun kannski einhver segja þurrt: „Ég samhryggist þér innilega.“ En hvar eru faðmlögin og ljúfu huggunarorðin: „Þetta verður allt í lagi. Ég lofa því.“ Fólk virðist hafa glatað allri tilfinninganæmni á þeim tveimur áratugum frá því að ég var sjö ára.

Greind fullorðins fólk er síðan sérkapítúli út af fyrir sig, en allir jafnaldrar mínir geta vottað það að fullorðið fólk í dag eru algjörir hálfvitar samanborið við fullorðið fólk árið 1987. Í þá daga gat fullorðið fólk svarað flestum þeim spurningum sem maður hafði, hvort sem það var um alheiminn, mannkynssögu, lög og reglur samfélagsins eða ástæður þeirra. Það gat svo nær undantekningalaust unnið mann í rökræðum. Í dag rekst maður æ oftar á fullorðið fólk sem er hefur litla sem enga þekkingu á ofantöldum atriðum, og pistlahöfundur, sem hefur að sínu mati ekkert breyst frá því að hann fæddist, hefur æ oftar haft betur við fullorðið fólk í málefnalegum umræðum. Hvað hefur gerst á þessum tuttugu árum? Hefur allt þetta nöldur og öll þessi neikvæðni eyðilagt heilana í fullorðnu fólki?

Getur það kannski verið að ég sjálfur hafi breyst og sjónarhorn mitt þar með? Gæti það verið að hin aldargamla klisja um hnignun æskunnar mótist af því að fylleríslæti séu öllu fyndnari þegar Gunni og Siggi úr bekknum eiga í hlut en þegar um er að ræða ónefnda „karlmenn á tvítugsaldri“ í dagbók Lögreglunnar? Hmm… leyfið mér að hugsa. Nei, rökréttari skýring hlýtur að vera að allir í þjóðfélaginu, börn, unglingar, ungt fólk, fullorðnir og gamalt fólk séu orðnir dónalegri, neikvæðari, kuldalegri og heimskari en áður.

Nema ég. Ég er alltaf eins.

Pólverjinn sem vissi ekki betur

Hamingjusama hóran er komin með kærasta. Það er Pólverjinn sem vissi ekki að ölvunarakstur væri bannaður. Saman geta þau haldist í hendur, horft á sólsetrið og ort ljóð um hvernig sé að vera ungur, fátækur og ekki til.

Það eru tveir pólar þegar kemur að afstöðu fólks til innflytjenda. Annars vegar eru það þeir sem eru hræddir við þá og svo hinir sem vorkenna þeim. Umræðan um ölvunarakstur útlendinga, og aðra glæpi sem þeir kunna að fremja hefur gegnsýrst af þessu. „Allir Pólverjar keyra fullir,“ segir hinn skíthræddi. „Já, en þeir vita ekki betur. Við verum að fræða þá betur um það sé bannað,“ svarar sá miskunnsami.

Hugsanlega hefur það einhvern tímann gerst að lögreglan hafi tekið einhvern Pólverja fullan við akstur og að hann hafi borið fyrir sér menningarólæsi og sagst ekki vita betur. Slík fullyrðing átti að fara á langan lista yfir lélegar afsakanir ölvaðra ökumanna ásamt „ég var bara að færa bílinn“ og „ég vissi ekki að bollan væri áfeng.“

Kannski er þessi saga sönn, kannski ekki. Kannski var þessi Pólverji til, kannski ekki. Enn eitt sem er víst að Pólverjinn sem veit ekki að ölvunarakstur er hættulegur og bannaður, sá Pólverji er ekki til. Pólsk lög um ölvunarakstur eru þannig mun strangari en þau íslensku. Leyfileg mörk áfengis í blóði ökumanna í Póllandi eru 0,2 prómil, samanborið 0,5 prómil á Íslandi. Íslenskur ökumaður sem mælist með 0,6 prómil í blóð getur átt von á 2 mánaða ökuleyfissviptingu, 12 mánaða sviptingu er beitt ef vínandamagn fer yfir 1,2 prómil. Allir ökumenn í Póllandi sem mælast yfir 0,5 prómilum eru sviptir ökuleyfum í 12 mánuði.

Fréttir af ölvuðum ökumönnum eru tíðar í pólskum fjölmiðlum. Viðbrögð almennings við þeim fréttum eru þau sömu og viðbrögð almennings á Íslandi: mikil hneykslan og algjör samfélagsleg fordæming þeirra einstaklinga sem um ræðir. Og viðbrögðin eru að sjálfsögðu enn harðari ef slys verða á fólki. Ég hef aldrei rekist á þau sjónarmið í pólskum fjölmiðlum að þetta „væri nú bara hluti af okkar menningu.“ Kannski er samt til einhver sem heldur þessu fram. Hann er þá væntanlega bróðir mannsins sem vissi ekki betur.

Afstaða pólsks almennings og löggjafans hefur einnig harðnað mjög á seinustu árum. Nú geta þingmenn til dæmis ekki lengur skýlt sér á bak við þinghelgi til að komast hjá dómi ef þeir keyra drukknir. Þá hefur komið til tals að birta nöfn og myndir þeirra sem verða teknir í blöðum og jafnvel að gera ökutæki þeirra upptæk.

Er með þessu sagt að ölvunarakstur sé ekki vandamál í Póllandi? Nei, lög og afstaða við brotum ókunnugra segja lítið um raunverulegt ástand. Sumarið 2006 framkvæmdu Evrópsku umferðarlögreglusamtökin TISPOL, samræmda rannsókn á ölvunarakstri evrópskra vegfarenda í 19 löndum. Pólverjar voru þeir fjórðu verstu á listanum en 5,77% allra ökumanna reyndust ölvuð þá vikuna sem rannsóknin fór fram! Einungis Bretland, Slóvenía og Portúgal komu verr út en í þeim löndum var yfir 8,7% allra ökumanna undir áhrifum áfengis! Á Norðurlöndum var hlutfallið um og undir 1%. Ísland tók ekki þátt í könnuninni.

Það þýðir því ekki að deila á það að ölvunarakstur sé mikið samfélagslegt vandamál í Póllandi eins og víða í heiminum. En þótt það sé eflaust vel meint að nota einhverja „þjóðarmenningu“ til að afsaka ölvunarakstur nokkurra einstaklinga þá er slíkur móralskur stórkallaháttur einfaldlega móðgun við viðkomandi þjóð og viðkomandi menningu. Nauðganir á útihátíðum eru smánarblettur á íslensku samfélagi. Þær eru ekki hluti af íslenskri menningu. Hvað finndist okkur ef viðbrögð við ólátum einhverra Íslendinga á Hróaskeldu væru „Þetta eru Íslendingar, þeir vita ekki betur.“

Það eru aðeins ein rétt viðbrögð við ölvunarakstri, sama hver á í hlut, þau eru að sekta og svipta. Það á ekki að sakfella heilu þjóðflokkana né heldur að afsaka glæpi einstaklinga með meintri víðsýni í garð meintrar menningar þeirra. Ölvunarakstur er ákvörðun. Sautján ára fullur Íslendingur, tvítugur fullur Pólverji, fertugur fullur Spánverji og fimmtug full bresk kona eiga eitt sameiginlegt (fyrir utan að vera full).

Þau vissu öll betur.

Talfrelsi Ögmundar að klárast

Allir þingflokkar utan eins standa að breytingum á þingsköpum Alþingis, sem miða að því að stytta ræðutíma á þingi. Hver af öllum mönnum skyldi líta á þetta sem aðför að málfrelsinu?

Orðið málfrelsi virðist þýða ótalmargt nú til dags. Sjaldan þó tengist það því þeim upprunalegu hugmyndum að ríkisvaldið skuli ekki starfrækja opinbera ritskoðunarstofnun eða fangelsa menn fyrir skoðanir þeirra. Það þykir sérstakt dæmi um aðför að málfrelsinu þegar svart fólk (og annað) móðgast þegar einhver gefur út bók sem móðgar svart fólk. Hvar er málfrelsið þegar maður getur ekki móðgað einhvern án þess að hann móðgist? Tekur stjórnarskráin ekki á slíku?

Nei, reyndar ekki, en gömul Cheerios auglýsing gerir það. “Maður á alltaf að segja það sem manni finnst,” segir þar víst.

En Cheerios auglýsingin er ekki sú eina sem grípur ranga staðalmynd málfrelsishugtaksins. Nú mun Ögmundur Jónason, yfirmasari, berjast gegn takmörkunum á ræðutíma í annarri umræðu þingmála, með þeim rökum að verið sé að ráðast að málfrelsi þingmanna. Hljómar dramatískt þangað til við gerum okkur grein fyrir því að málfrelsi í skilningi Ögmundar er “rétturinn að tala eins mikið og honum sýnist, hvenær sem er, sama hvað öðrum finnst um það“. Það er ekki málfrelsi! Þetta var kallað Talfrelsi í flippuðum auglýsingum enn flippaðra farsímafélags fyrir um áratug.

Reyndir stjórnmálamenn eiga auðvitað að ekki að þurfa sjö klukkustunda ræður til að gera grein fyrir afstöðu sinni eða færa rök fyrir máli sínu. Það er ekki aðför að málfrelsi þingmanna að setja reglur um það hve lengi og í hvaða röð þeir megi tala. Auðvitað vita allir, að þegar stjórnarandstaða talar um að ræða þurfi eitthvað mál vel, þýðir það aldrei neitt annað en málþóf, sem mundi sjaldnast kallast “góð umræða” á öðrum vettvangi. Umræður á Alþingi eiga að vera vandaðar, málefnalegar og skemmtilegar. Mas fram á miðja nótt er sjaldnast nokkuð af þessu.