Nauðgari á Deiglunni?

Meðal Deiglupenna er ódæmdur naugðgari. Það er þó engin ástæða til að tilgreina hann með nafni eða láta lögreglu vita. Hann verður bara eiga það við sjálfan sig hvort hann haldi áfram að nauðga eða ekki.

Ofangreind klausa á sér [vonandi] við engin rök að styðjast. Það er auðvitað fráleit afstaða að ákveða að alvarlegir glæpir einhvers einstaklings séu bara hans einkamál. Og það er enn fráleitara að lýsa þeirri afstöðu yfir.

Það er því undarlegt að þegar kemur að íslenskri spillingarumræðu er eins og það sé í lagi að tengja ákveðna hópa við spillingu án þess nefna neinar haldbærar staðreyndir og láta síðan eins og það komi kjósendum og skattborgurum ekkert við hvort að þjónir þeirra séu spilltir eða ekki. Stjórnmálamaðurinn verður bara að eiga þetta við sjálfan sig.

SH: En hvað segir þú sem kona sem gengin er úr Framsóknarflokknum, er þetta flokkur spillingarinnar eins og sumir hafa viljað segja?

Anna Kristinsdóttir: Ja, flokkurinn situr allavega undir því og það er alveg ljóst að…

SH: Getur þú neitað því, þekkjandi innvið hans?

AK: Að hann sé spilltur? Ég held að það séu einstaklingar inni í honum og utan hans sem eru spilltir og það er kannski…

SH: Viltu nefna þá?

AK: Nei, ég nefni þá ekki, ég get ekki dæmt menn nema að ég hafi einhverjar konkret sannanir í höndunum og ég hef það ekki.

[Viðtal við Önnu Kristinsdóttur, í Íslandi í dag, þann 22.11.2007]

Ef einhver verður var við spillingu, mútur erða fjárdrátt í opinberri stjórnsýslu þá á hann að láta vita. En ef einhver hefur ekkert fyrir sér í því nema eðlishvötina þá á hann eða hún ekki að rægja orðspor þeirra sem um ræðir með kryptískum yfirlýsingum.

„Ég er hættur að skrifa á Deigluna. Ég held að allir sem skrifa á vefritið séu þjófar. Hef ég eitthvað fyrir mér í þessu? Get ég nefnt einhver nöfn? Nei! Þetta er bara svona ræningjavæb sem ég hef fundið.“

Stundum virðist manni sem pólitíkusarnir hafi reist skjaldborg umhverfis starfsvið sitt. Þar sem allir munu á endanum þurfa vinna með öllum er ekki gott að búa sér til of marga óvini. Framsókn er holdgervingur spillingar dag einn, en traustur félagi þegar mynda þarf meirihluta. VG og Sjálfstæðisflokkurin sitja í stjórnum hægri og vinstri. Hægrisinnuð ríkisstjórn skipar Svavar Gestsson til að gæta hagsmuna sinna á erlendri grund. Ber er hver að baki…

Umræða um spillingu nær aldrei hærra stigi en að verða léttvægt hjal. Spilling er alvarlegt mál. Þeir sem vita um spillingu eiga að tilkynna um hana, en ekki bara að frasast í fjölmiðlum. Þeir sem eru sakaðir um hana ættu líka að verja sig af öllum þunga, enda alvarlegar ásakanir sem kjósendur eiga að fá að komast til botns í. Ekki bara slökkva á Silfrinu og hugsa: „Enn eitt þannig rifrildið.“

Hafa stjórnmálamenn með sér þegjandi sátt að tala ekki um vafasamar lóðaúthlutanir og verksölu án útboða? Erfitt að segja. En það er kannski umhugsunarefni að í stærsta spillingarmáli seinni ára, Árnamálinu, áttu lagerstarfsmenn og sendibílstjórar mun meiri þátt í að afhjúpa glæpinn en aðrir stjórnmálamenn. Hvort voru aðrir pólítíkusar svona rosalega grænir, eða einfaldlega meðvitað fáfróðir? Hver veit.

Leave a Reply

Your email address will not be published.