Ríkisrekstur, já. Forvarnir, tja.

Það er sorglegt að afstaða margra þeirra sem leggjast gegn frumvarpi um takmarkað verslunarfrelsi með léttvín og bjór skuli ekki byggjast á þeim vísindalega rökstyðjanlegu fullyrðingum að áfengisneysla skapi vandamál og að aukið aðgengi auki áfengisneyslu. Þess í stað kjósa menn að byggja málflutning sinn á þeirri staðhæfingu að ríkið kunni að stunda verslun en einkaaðilar ekki, en fáar rannsóknir í ómarxískri hagfræði renna stoðum undir þær fullyrðingar.

Frá því í sumar er hægt að kaupa áfengi til klukkan átta á kvöldin á tveimur stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Á Dalvegi og í Skeifunni. Það var auðvitað talsverð breyting fyrir neytendur þegar afgreiðslutíminn var lengdur á þessum tveimur stöðum. Nú geta menn farið úr vinnunni á venjulegum tíma, sótt börnin á æfingu, farið heim og eldað, náð jafnvel fréttunun, skotist síðan í rólegheitunum í Vínbúð meðan Kastljósið er í gangi og byrjað að leggja fjölskyldulífið í rúst, fullir yfir CSI – Miami.

Nei, í alvöru grínlaust. Menn geta þetta, og áreiðanlega gera einhverjir þetta. Eða eru enn dýpra sokknir, kannski búnir að drekka frá sér fjölskyldunni. Það eru til fjölmargar rannsóknir sem sýna fram á tengsl ofneyslu áfengis og mannlegra harmleikja og einnig eru til rannsóknir sem sýna tengsl aðgengis og neyslu. Þetta eru rannsóknir, menn geta verið ósammála því hvernig þær eru unnar, eða ósammála því hvernig þær eru notaðar í pólitískum tilgangi, en þetta eru samt rannsóknir og þær eiga skilið annað en huns. Jafnt stuðningsmenn sem andstæðingar frjálsar áfengisverslunar verða að taka mark á þeim.

En einhvern veginn hefur gagnrýnin aldrei náð því flugi að vera svona rosalega málefnaleg. Því hvar eru andstæðingar aukins aðgengis þegar Ríkið lengir opnunartímann til klukkan átta öll kvöld? Hvar eru sænsku kannanirnar um meinta aukningu sjálfsmorða og líkamsárása þegar vínbúðir eru opnaðar á kaupstöðum sem ekki bera ritfangaverslun? Hvar fussið og sveiið þegar ÁTVR auglýsir “Ítalska daga í apríl” og hvetur þannig til víndrykkju?

Hjá vinstrigrænum eru þessar áhyggjur einfaldlega ekki til staðar. Enda kom fram í fyrstu umræðum og léttvínssölufrumvarpið að VG fagnaði fjölgun vínbúða og bættri þjónustu við neytendur. Íhaldsvinstrið fagnar sem sagt auknu aðgengi áfengis hjá hinu opinbera, en vill ekki færa þjónustuna annað, til að aðgengið batni ekki neyslan með.

Þótt þessi afstaða sé í vægast sagt mótsagnakennd, er hún skiljanleg. Líklegast væri mun auðveldara fyrir Deigluna og aðra að berjast fyrir verslunarfrelsi með áfengi ef vínbúðir ríkisins væru sömu andlausu fangelsin, sömu Hús skammarinnar, og þær voru fyrir áratug síðan. Bætt þjónusta gerir fólk sáttara við höftin og minnkar líkurnar á breytingum í átt til einkarekstur. Eins og hægrimennirnir sem börðust gegn afnámi afnotagjalda af ótta við að andstaða í garð RÚV mundi minnka, vilja þeir í VG bæta aðgengi og þjónustu ríkisins þótt það kunni að auka neyslu.

Þeir vilja ekki ríkisrekstur í þágu forvarna, þeir vilja ríkisrekstur í þágu ríkisreksturs.

Leave a Reply

Your email address will not be published.