Pólland hætt í ruglinu

Pólland hætt í ruglinu

Úrslit kosninganna í Póllandi eru ánægjulegar fréttir fyrir frjálslyndari menn alls staðar í álfunni. Hinir öfgafullu og íhaldssömu Kaczynski-tvíburar ráða ekki lengur lögum og lófum í landinu. Úrslit kosninganna má hins vegar ekki túlka sem eitthvað sérstakt afhroð fyrir tvíburana, því staða þeirra er í raun alls ekki svo slæm.

Þegar rýnt er í úrslit kosninganna í Póllandi, hljómar ýmislegt kunnulega. Sigurvegarar kosninganna, Borgaravettvangur, eru þannig 41% prósenta hægriflokkur, sem er gríðarlega frjálslyndur í efnahagsmálum en aðeins minna frjálslyndur í öðrum málum. Flest bendir svo til að hann muni mynda meirihluta með Pólska þjóðarflokknum, sem er tiltölulega málefnalaus bændaflokkur, sem er vanur því að mynda meirihluta með flestum í litrófinu.

Það sem merkilegt er fyrir íslenska áhorfendur, er hins vegar það að hægra megin við hin hægrisinnaða Borgaravettvang er 31 prósenta flokkur, sem má segja sé sá flokkur í Evrópu sem líkastur sé Repúblikanaflokknum að flestu leyti. Stefnumál tvíburanna byggja í stuttu máli aðallega á baráttu gegn glæpum og íhaldssamri afstöðu til ýmissa lífsskoðunarmála eins og fóstureyðinga, samkynhneigðar o.s.frv.

Tvíburarnir eru góðir popúlistar, enda hefur þeim farnast betur en flestum öðrum pólskum valdhöfum, þrátt fyrir tapið nú. Fyrir tveimur árum fengu vinstrimenn, sem þá höfðu haft næstum því hreinan meirihluta á þingi einungis 10 % atkvæða, fjórum árum áður duttu báðir stjórnarflokkarnir út af þingi. Kaczynski-bræðurnir hafa hins vegar alltaf kunnað að halda grunnfylginu við efnið. Til dæmis með því að minna fólk á fóstureyðingaandstöðu sína með tillögu að stjórnarskrárbreytingu um verndun lífs frá getnaði, stuttu fyrir kosningar.

Útkoma bræðranna er því alls engin hörmung og minnumst þess að Lecz Kaczynski er enn forseti Póllands svo hann getur neitað að skrifa undir lög en sá meirihluti sem nú er í smíðum mun ekki vera nægur til að hnekkja á því neitunarvaldi hans. Til þess mun stjórnin þurfa að reiða sig á vinstrimenn á þinginu en engir sérstakur kærleikur er á milli kristinlega demokratans Donald Tusk og fyrrverandi kommúninsta í röðum vinstrimanna.

En hvernig sem á það er litið þá eru úrslitin góðar fréttir fyrir Pólverja. Undanfarin tvö ár hafa skilað landinu litlu öðru en skömm á vettvangi evrópskra stjórnmála og ömurlegt hefur verið að horfa upp á óstöðuga stjórn tvíburanna, öfgaöfgaöfgahægriflokksins (já, hann var líka til) Pólska fjölskyldubandalagsins og róttæka bændaflokksins Sjálfsvarnar. Í þessu samkvæmi var eiginlega sem Tvíburarnir væru “mennirnir með vitið” og það segir nú ýmislegt um stöðuna. Það var sagt í gamni að baráttan við spillingu hafi verið mjög skilvirk á þessum tíma: Menn skipuðu sótspillta glæpamenn úr Sjálfsvörn í ábyrgðarstöður á vegum hins opinbera, og sendu svo leyniþjónustuna á eftir þeim til að uppræta spillingu. Dálítið eins og Kompásþáttur í útfærslu stjórnmálamanns.

Það eru betri tímar framundan. Þess ber þó að gæta að Borgaravettvangur er tiltölulega hefðbundin flokkur kristinlega demókrata og áherslur þeirra í lífsskoðunarmálum eru raunar ekki ólíkar þeim sem tvíburarnir hafa. Til dæmis mun hinni íhaldssömu fóstureyðingalöggjöf (nauðgun, fósturskaði og heilsa móður eru einu löglegu undantekningarnar frá banninu) seint verða breytt meðan þeir sitja við völd. Sömuleiðis er engra sérstakra réttarbóta fyrir samkynhneigða að vænta í Pólland frá Tusk og félögum, þótt þeir séu sem betur fer minna með þessi mál á heilanum en tvíburarnir. Þegar Lech Kaczynski var borgarstjóri í Varsjá kom hann árlega í veg fyrir Gay-pride göngur þar í borg, en núverandi borgarstýra Hanna Gronkiewich-Waltz frá Borgaravettvangi hefur leyft þeim að fara fram.

Leave a Reply

Your email address will not be published.