Nauðgari á Deiglunni?

Meðal Deiglupenna er ódæmdur naugðgari. Það er þó engin ástæða til að tilgreina hann með nafni eða láta lögreglu vita. Hann verður bara eiga það við sjálfan sig hvort hann haldi áfram að nauðga eða ekki.

Ofangreind klausa á sér [vonandi] við engin rök að styðjast. Það er auðvitað fráleit afstaða að ákveða að alvarlegir glæpir einhvers einstaklings séu bara hans einkamál. Og það er enn fráleitara að lýsa þeirri afstöðu yfir.

Það er því undarlegt að þegar kemur að íslenskri spillingarumræðu er eins og það sé í lagi að tengja ákveðna hópa við spillingu án þess nefna neinar haldbærar staðreyndir og láta síðan eins og það komi kjósendum og skattborgurum ekkert við hvort að þjónir þeirra séu spilltir eða ekki. Stjórnmálamaðurinn verður bara að eiga þetta við sjálfan sig.

SH: En hvað segir þú sem kona sem gengin er úr Framsóknarflokknum, er þetta flokkur spillingarinnar eins og sumir hafa viljað segja?

Anna Kristinsdóttir: Ja, flokkurinn situr allavega undir því og það er alveg ljóst að…

SH: Getur þú neitað því, þekkjandi innvið hans?

AK: Að hann sé spilltur? Ég held að það séu einstaklingar inni í honum og utan hans sem eru spilltir og það er kannski…

SH: Viltu nefna þá?

AK: Nei, ég nefni þá ekki, ég get ekki dæmt menn nema að ég hafi einhverjar konkret sannanir í höndunum og ég hef það ekki.

[Viðtal við Önnu Kristinsdóttur, í Íslandi í dag, þann 22.11.2007]

Ef einhver verður var við spillingu, mútur erða fjárdrátt í opinberri stjórnsýslu þá á hann að láta vita. En ef einhver hefur ekkert fyrir sér í því nema eðlishvötina þá á hann eða hún ekki að rægja orðspor þeirra sem um ræðir með kryptískum yfirlýsingum.

„Ég er hættur að skrifa á Deigluna. Ég held að allir sem skrifa á vefritið séu þjófar. Hef ég eitthvað fyrir mér í þessu? Get ég nefnt einhver nöfn? Nei! Þetta er bara svona ræningjavæb sem ég hef fundið.“

Stundum virðist manni sem pólitíkusarnir hafi reist skjaldborg umhverfis starfsvið sitt. Þar sem allir munu á endanum þurfa vinna með öllum er ekki gott að búa sér til of marga óvini. Framsókn er holdgervingur spillingar dag einn, en traustur félagi þegar mynda þarf meirihluta. VG og Sjálfstæðisflokkurin sitja í stjórnum hægri og vinstri. Hægrisinnuð ríkisstjórn skipar Svavar Gestsson til að gæta hagsmuna sinna á erlendri grund. Ber er hver að baki…

Umræða um spillingu nær aldrei hærra stigi en að verða léttvægt hjal. Spilling er alvarlegt mál. Þeir sem vita um spillingu eiga að tilkynna um hana, en ekki bara að frasast í fjölmiðlum. Þeir sem eru sakaðir um hana ættu líka að verja sig af öllum þunga, enda alvarlegar ásakanir sem kjósendur eiga að fá að komast til botns í. Ekki bara slökkva á Silfrinu og hugsa: „Enn eitt þannig rifrildið.“

Hafa stjórnmálamenn með sér þegjandi sátt að tala ekki um vafasamar lóðaúthlutanir og verksölu án útboða? Erfitt að segja. En það er kannski umhugsunarefni að í stærsta spillingarmáli seinni ára, Árnamálinu, áttu lagerstarfsmenn og sendibílstjórar mun meiri þátt í að afhjúpa glæpinn en aðrir stjórnmálamenn. Hvort voru aðrir pólítíkusar svona rosalega grænir, eða einfaldlega meðvitað fáfróðir? Hver veit.

Ríkisrekstur, já. Forvarnir, tja.

Það er sorglegt að afstaða margra þeirra sem leggjast gegn frumvarpi um takmarkað verslunarfrelsi með léttvín og bjór skuli ekki byggjast á þeim vísindalega rökstyðjanlegu fullyrðingum að áfengisneysla skapi vandamál og að aukið aðgengi auki áfengisneyslu. Þess í stað kjósa menn að byggja málflutning sinn á þeirri staðhæfingu að ríkið kunni að stunda verslun en einkaaðilar ekki, en fáar rannsóknir í ómarxískri hagfræði renna stoðum undir þær fullyrðingar.

Frá því í sumar er hægt að kaupa áfengi til klukkan átta á kvöldin á tveimur stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Á Dalvegi og í Skeifunni. Það var auðvitað talsverð breyting fyrir neytendur þegar afgreiðslutíminn var lengdur á þessum tveimur stöðum. Nú geta menn farið úr vinnunni á venjulegum tíma, sótt börnin á æfingu, farið heim og eldað, náð jafnvel fréttunun, skotist síðan í rólegheitunum í Vínbúð meðan Kastljósið er í gangi og byrjað að leggja fjölskyldulífið í rúst, fullir yfir CSI – Miami.

Nei, í alvöru grínlaust. Menn geta þetta, og áreiðanlega gera einhverjir þetta. Eða eru enn dýpra sokknir, kannski búnir að drekka frá sér fjölskyldunni. Það eru til fjölmargar rannsóknir sem sýna fram á tengsl ofneyslu áfengis og mannlegra harmleikja og einnig eru til rannsóknir sem sýna tengsl aðgengis og neyslu. Þetta eru rannsóknir, menn geta verið ósammála því hvernig þær eru unnar, eða ósammála því hvernig þær eru notaðar í pólitískum tilgangi, en þetta eru samt rannsóknir og þær eiga skilið annað en huns. Jafnt stuðningsmenn sem andstæðingar frjálsar áfengisverslunar verða að taka mark á þeim.

En einhvern veginn hefur gagnrýnin aldrei náð því flugi að vera svona rosalega málefnaleg. Því hvar eru andstæðingar aukins aðgengis þegar Ríkið lengir opnunartímann til klukkan átta öll kvöld? Hvar eru sænsku kannanirnar um meinta aukningu sjálfsmorða og líkamsárása þegar vínbúðir eru opnaðar á kaupstöðum sem ekki bera ritfangaverslun? Hvar fussið og sveiið þegar ÁTVR auglýsir “Ítalska daga í apríl” og hvetur þannig til víndrykkju?

Hjá vinstrigrænum eru þessar áhyggjur einfaldlega ekki til staðar. Enda kom fram í fyrstu umræðum og léttvínssölufrumvarpið að VG fagnaði fjölgun vínbúða og bættri þjónustu við neytendur. Íhaldsvinstrið fagnar sem sagt auknu aðgengi áfengis hjá hinu opinbera, en vill ekki færa þjónustuna annað, til að aðgengið batni ekki neyslan með.

Þótt þessi afstaða sé í vægast sagt mótsagnakennd, er hún skiljanleg. Líklegast væri mun auðveldara fyrir Deigluna og aðra að berjast fyrir verslunarfrelsi með áfengi ef vínbúðir ríkisins væru sömu andlausu fangelsin, sömu Hús skammarinnar, og þær voru fyrir áratug síðan. Bætt þjónusta gerir fólk sáttara við höftin og minnkar líkurnar á breytingum í átt til einkarekstur. Eins og hægrimennirnir sem börðust gegn afnámi afnotagjalda af ótta við að andstaða í garð RÚV mundi minnka, vilja þeir í VG bæta aðgengi og þjónustu ríkisins þótt það kunni að auka neyslu.

Þeir vilja ekki ríkisrekstur í þágu forvarna, þeir vilja ríkisrekstur í þágu ríkisreksturs.

Húsafriðun Gone Wrong

Ákvörðun menntamálaráðherra um að friða gamalt húshræ á Akureyri þvert á vilja eigenda hússins og íbúa bæjarins er algjörlega óviðunandi. Það er fáranlegt að skoðanir opinberra fagurkera í Húsafriðunarnefnd skulu látin vega þyngst þegar kemur að því að ákveða hvernig nýta beri lóðir í einkaeigu.

Fyrir helgi ákvað menntamálaráðherra að friða húsin Hafnarstræti 94-98. Lítill ágreiningur er víst uppi um friðun tveggja af þessum húsum en friðun á Hafnarstræti 98 er umdeild. Bæði eigandi hússins og Akureyrarbær gerðu ráð fyrir að húsið yrði rifið og annað nýtt byggt í staðinn. Þessi áform eru nú orðin að engu og hefur ríkið hugsanlega bakað sér skaðabótaábyrgð vegna þessa.

Húsafriðunarnefnd er auðvitað sérstakt fyrirbæri og hlutverk hennar í öllu ákvarðanferlinu sem snýr að framtíð gamallra húsa allt of mikið. Í raun gefur nafn nefndarinnar til kynna ákveðna skoðanabjögun sem þar ríkir, og áhugi nefndarinnar á því að friða ónýt hús, eins gamla Hótel Akureyri, rennir stoðum undir þessa kenningu. Miklu nær væri að mun fleiri aðilar, og þar með auðvitað eigendur, kæmu að friðunarferlinu.

En hvað sem verður ekki sagt um bárujárnsnördana í Húsafriðunarnefnd er auðvitað ekki við það ágæta fólk að sakast. Þeir vinna sín störf eflaust af alúð og í samræmi við sínar skoðanir um hvaða hús séu falleg, ómissandi fyrir götumynd eða hluti af ómetanlegum arfi. Það er hins vegar ráðherrans að sjá til þess að jafnræði sé á með skoðunum ríkisskipaðra friðunarsinna, eigenda húsanna og annarra íbúa. Og hér hefur ráðherrann brugðist, því hve ómissandi getur hús verið ef hvorki eigandanum né íbúum svæðisins (eða kjörnum fulltrúum þeirra) finnst missir af því.

Í lögum um húsafriðun segir að fara eigi eins að við ákvörðun skaðabóta eigi að fara eins að og ef um eignarnám væri að ræða. Menntamálaráðherra ákvað með öðrum orðum að banna manni að henda ónýtum hlut, og bjóðast í staðinn til að kaupa hann af honum fyrir fyrir pening skattborgarara. Það hljómar ekki eins og díll áratugarins.

Yfirlýsing frá Félagi vínkaupmanna

Deiglunni hafa borist fréttatilkynningar frá Félagi vínkaupmanna, Landsamtökum hverfisverslana, Samtökum vínbænda og vínframleiðenda, og Bandalagi sjálfstæðra brugghúsa og Hinu íslenska vínfræðifélagi. Öll þessi félagasamtök mótmæla harðlega frumvarpi Ögmundar Jónassonar og fleiri þingmanna og VG og Samfylkingarinnar um að áfengisverslun verði tekin af einkaaðilum of færð í hendur Ríkisins.

Félag vínkaupmanna segir þannig í yfirlýsingu sinni:

“Það er ljóst að frumvarpið er hrein og klár aðför að starfsemi sérvöruverslana með léttvín, en það liggur fyrir að þessar verslanir muni leggjast af í óbreyttri mynd nái frumvarpið fram að ganga. Þar með munu hundruð starfa leggjast af og verðmæt þekking tapast. Það raunar vart séð hvernig frumvarpið samræmist atvinnufrelsisákvæðum stjórnarskrárinnar.

Að auki mótmælir félagið harðlega þeim fullyrðingum sem koma fram í greinargerð frumvarpsins að ríkisrekinn verslun muni skila sér til neytenda í formi bættrar þjónustu og betra verðs. Þessar staðhæfingar fá engan veginn staðist. Hörð samkeppni ríkir á vínmarkaðnum og er álagning á vínum ekki meiri en álagning á aðrar lúxusvörur. Ekki verður séð að það sé sérstakt hlutverk ríkisins að niðurgreiða lúxusvín til hátekjufólks.

Félagið biður flutningsmenn um að falla frá frumvarpinu og beina kröftum sínum að brýnni verkefnum. Ef einhverjar breytingar á að gera á áfengisverslun þá gæti félagið fallist á þá breytingu að áfengið væri tekið úr matvöruverslunum og einungis selt í sérstökum vínbúðum, sem væru í eigu félagsmanna í viðurkenndum félögum vínkaupmanna.”

Samtök vínbænda og vínframleiðenda eru einnig andvíg frumvarpinu. Í yfirlýsingu frá samtökunum segir meðal annars:

“Að undanförnum árum hefur farið fram mikil vinna á vegum félagsins til að auglýsa vínrækt og víntengda ferðamennsku. Smásala á heimagerðum vínum er snar þáttur á þjónustu við viðskiptavini vínbænda. Með frumvarpinu er því verið að kippa stoðum undan vaxandi atvinnugrein. Samtökin skora á flutningsmenn að breyta frumvarpinu á þann vega á smásala á heimagerðum vínum beint frá framleiðendum verði áfram heimil.”

Undir þessi sjónarmið tekur Bandalag sjálfstæðra brugghúsa, sem segir að mörg sjálfstæð brugghús út á landi hafa rekið litlar verslanir samhliða starfseminni og að þessi þjónusta hafi mælst vel fyrir hjá heimamönnum.

Landssamtök hverfisverslana, sem í daglegu máli eru samtök svokallaðra “kaupmanna á horninu” eru enn harðorðari í afstöðu sinni.

“Verði frumvarp nokkurra þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar að lögum mun það þýða endalok smákaupmennsku á Íslandi. Tekjur af sölu áfengis eru milli fjórðungs og þriðjungs af heildartekjum smærri verslana. Án þessara tekna er fjárhagslegur rekstrargrundvöllur hverfisverslana brostinn. Ef áfengisverslun verður færð í ríkisreknar sérvöruverslanir munu slíkar verslanir að öllum líkindum einungis rísa í verslunarmiðstöðvum og munu leiða straum neytenda enn meira þangað sem mun endanlega ganga að hverfisverslunum dauðum. Vill þingheimur virkilega hafa það á samviskunni?”

Þá er Hið íslenska vínfræðifélag algjörlega andvígt frumvarpinu.

“Frumvarpið lýsir afar fornlegum og afturhaldssömum viðhorfum í áfengismálum. Að auki hefur það veruleg áhrif að atvinnumöguleika vínfræðinga sem eru vaxandi stétt í íslensku samfélagi og starfa hjá vínbúðum og stórmörkuðum um allt land. Verði frumvarpið að lögum munu flestir vínfræðingar missa vinnuna og einungis sumir muni geta fengið vinnu hjá hinum ríkisreknu verslunum. Félagsmenn óttast einnig að kjör þeirra muni versna við þessa breytingu.

Félagið ítrekar enn og aftur þá afstöðu sína um að lögvernda eigi starfsheiti “vínfræðingur” og tryggja það með lögum að einungis löggiltir vínfræðingar afgreiði áfengi í vínverslunum og stærri stórmörkuðum.”

“Á þá ekki bara að leyfa dóp?”

Eitt það undarlegasta í allri umræðunni um áfengismál að undanförnu er að andstæðingum frumvarpsins hefur tekist að gera alla þá sem málið styðja að einhverjum óskaplegum öfgamönnum. En því fer auðvitað fjarri að sú skoðun að aðrir en ríkið eigi að sjá um verslun með bjór, sé öfgafulla skoðunin í þessari umræðu.

Í umræðum í Silfri Egils síðastliðinn sunnudag var áfengisfrumvarpið til umræðu sem endra nær. Guðfríður Lilja varaþingmaður VG, sagðist vera komin með ofnæmi fyrir svona málum. Svo spurði hún flutningsmann frumvarpsins hvort það ætti ekki bara að leyfa dóp. Gömlum Morfís-hundi eins og Sigurði Kára hlýtur að hafa hlýnað um hjartaræturnar við að heyra þess konar málflutning á ný.

“Fundarstjóri, Börkur segir að útivistarlög séu sjaldan virt! Ha, á þá ekki bara að leyfa barnaþrælkun og morð?”

Í dag er íslenska áfengislöggjöfin sú strangasta í Evrópu, bæði hvað varðar verslunarfrelsi og áfengiskaupaaldur. Af þeim 700 milljónum manna sem búa í Evrópu búa allir við frjálslyndari löggjöf um áfengi en við. Af öllum þessum 700 milljónum búa einungis 19 milljónir í ríkjum þar sem ríkið sér um áfengissölu, þ.e.a.s. í ríkjum Norðurlanda utan Danmerkur. Til samanburðar þá búa um 16 milljónir í ríki sem hefur í reynd leyft dóp, Hollandi. Þetta eru jaðrarnir í vímuefnamálum, ríkiseinokun og lögleyfing, og í bláenda annars jaðarsins sitjum við og sum okkar skelfa af hræðslu við þá tilhugsun að taka svo lítið sem hænuskref frá þeim enda. Af ótta við að lenda óvart hinum megin. Í Hollandi.

“Já, á ekki bara að leyfa allt dóp. Það hlýtur að vera það næsta sem þau vilja.”

Af þeim 19 milljónum manna sem hafa ákveðið að láta ríkið selja sér áfengi geta allir nema Íslendingar þó keypt sér bjór úti í búð. Í Noregi og Finnlandi má bjórinn vera allt að 4,7%, en 3,5% í Svíþjóð. Alls staðar mega þeir sem sem eru 18 ára kaupa sér þennan umdeilda vökva. Alls staðar nema á Íslandi.

Ef Ísland leyfði sölu á bjór og léttvíni í matvöruverslunum yrðu Íslendingar fjórða íhaldsamasta Evrópuþjóðin þegar kemur að verslunarfrelsi með áfengi, því við myndum færast ögn fram úr Norðmönnum og Finnum með því að leyfa rauðvíninu að fara í búðirnar líka. Áfram væri þó ekkert land í Evrópu með hærra aldursmark á áfengiskaupum og jafnvel þótt stjórnarflokkarnir uppfylltu stefnu sína og leyfðu fólki á aldrinum 18-20 ára að kaupa bjór og vín þá yrðum við áfram næstíhaldsamasta þjóð Evrópu þegar kæmi að áfengiskaupaaldri.

Já, einmitt! Sú næstíhaldsamasta. Semsagt: Enn ansi langt yfir stóru hæðina til Hollands.

En kannski finnst sumum bara vera frábært að vera íhaldsamur í þessum málum, og það er bara allt í lagi. Menn höfðu rétt til að berjast fyrir áfengisbanni. Menn höfðu rétt fyrir að berjast gegn bjórnum og sömu menn, samtök og dagblöð hafa fulla heimild til að berjast gegn frjálsari áfengisverslun nú. Og menn hafa rétt að beita öllum þeim trikkum, rannsóknum, árásum, blaðagreinum, staksteinum, leiðurum, tilfinningarökum og kúgunum sem löglegar eru í lýðræðislegu ferli. Gott og vel, núverandi ástand skapar á sinn hátt alltaf ákveðna miðju í stjórnmálaumræðunni og þeir sem vilja takmarka aðgang að áfengi vita að miðjan mun færast svo hratt þegar breytingarnar eru gengnar í garð vandfundið verður það fólk sem mun kannast við að hafa nokkurn tímann verið á móti þeim. Fínt, menn mega auðvitað berjast fyrir sínu.

En þegar menn tala fyrir skoðun sem liggur á algjörum útjaðri skoðana í 700 milljóna manna heimsálfu, þegar menn tala gegn skoðun meirihluta almennings Íslandi, þegar menn tala fyrir skoðun sem einmitt er álíka útbreidd í Evrópu og sú skoðun að leyfa skuli dóp, þá ættu menn ekki að standa upp á kassa, mynda skel úr höndum sér og öskra yfir hópinn:

“Öfgamenn!”

Pólland hætt í ruglinu

Pólland hætt í ruglinu

Úrslit kosninganna í Póllandi eru ánægjulegar fréttir fyrir frjálslyndari menn alls staðar í álfunni. Hinir öfgafullu og íhaldssömu Kaczynski-tvíburar ráða ekki lengur lögum og lófum í landinu. Úrslit kosninganna má hins vegar ekki túlka sem eitthvað sérstakt afhroð fyrir tvíburana, því staða þeirra er í raun alls ekki svo slæm.

Þegar rýnt er í úrslit kosninganna í Póllandi, hljómar ýmislegt kunnulega. Sigurvegarar kosninganna, Borgaravettvangur, eru þannig 41% prósenta hægriflokkur, sem er gríðarlega frjálslyndur í efnahagsmálum en aðeins minna frjálslyndur í öðrum málum. Flest bendir svo til að hann muni mynda meirihluta með Pólska þjóðarflokknum, sem er tiltölulega málefnalaus bændaflokkur, sem er vanur því að mynda meirihluta með flestum í litrófinu.

Það sem merkilegt er fyrir íslenska áhorfendur, er hins vegar það að hægra megin við hin hægrisinnaða Borgaravettvang er 31 prósenta flokkur, sem má segja sé sá flokkur í Evrópu sem líkastur sé Repúblikanaflokknum að flestu leyti. Stefnumál tvíburanna byggja í stuttu máli aðallega á baráttu gegn glæpum og íhaldssamri afstöðu til ýmissa lífsskoðunarmála eins og fóstureyðinga, samkynhneigðar o.s.frv.

Tvíburarnir eru góðir popúlistar, enda hefur þeim farnast betur en flestum öðrum pólskum valdhöfum, þrátt fyrir tapið nú. Fyrir tveimur árum fengu vinstrimenn, sem þá höfðu haft næstum því hreinan meirihluta á þingi einungis 10 % atkvæða, fjórum árum áður duttu báðir stjórnarflokkarnir út af þingi. Kaczynski-bræðurnir hafa hins vegar alltaf kunnað að halda grunnfylginu við efnið. Til dæmis með því að minna fólk á fóstureyðingaandstöðu sína með tillögu að stjórnarskrárbreytingu um verndun lífs frá getnaði, stuttu fyrir kosningar.

Útkoma bræðranna er því alls engin hörmung og minnumst þess að Lecz Kaczynski er enn forseti Póllands svo hann getur neitað að skrifa undir lög en sá meirihluti sem nú er í smíðum mun ekki vera nægur til að hnekkja á því neitunarvaldi hans. Til þess mun stjórnin þurfa að reiða sig á vinstrimenn á þinginu en engir sérstakur kærleikur er á milli kristinlega demokratans Donald Tusk og fyrrverandi kommúninsta í röðum vinstrimanna.

En hvernig sem á það er litið þá eru úrslitin góðar fréttir fyrir Pólverja. Undanfarin tvö ár hafa skilað landinu litlu öðru en skömm á vettvangi evrópskra stjórnmála og ömurlegt hefur verið að horfa upp á óstöðuga stjórn tvíburanna, öfgaöfgaöfgahægriflokksins (já, hann var líka til) Pólska fjölskyldubandalagsins og róttæka bændaflokksins Sjálfsvarnar. Í þessu samkvæmi var eiginlega sem Tvíburarnir væru „mennirnir með vitið“ og það segir nú ýmislegt um stöðuna. Það var sagt í gamni að baráttan við spillingu hafi verið mjög skilvirk á þessum tíma: Menn skipuðu sótspillta glæpamenn úr Sjálfsvörn í ábyrgðarstöður á vegum hins opinbera, og sendu svo leyniþjónustuna á eftir þeim til að uppræta spillingu. Dálítið eins og Kompásþáttur í útfærslu stjórnmálamanns.

Það eru betri tímar framundan. Þess ber þó að gæta að Borgaravettvangur er tiltölulega hefðbundin flokkur kristinlega demókrata og áherslur þeirra í lífsskoðunarmálum eru raunar ekki ólíkar þeim sem tvíburarnir hafa. Til dæmis mun hinni íhaldssömu fóstureyðingalöggjöf (nauðgun, fósturskaði og heilsa móður eru einu löglegu undantekningarnar frá banninu) seint verða breytt meðan þeir sitja við völd. Sömuleiðis er engra sérstakra réttarbóta fyrir samkynhneigða að vænta í Pólland frá Tusk og félögum, þótt þeir séu sem betur fer minna með þessi mál á heilanum en tvíburarnir. Þegar Lech Kaczynski var borgarstjóri í Varsjá kom hann árlega í veg fyrir Gay-pride göngur þar í borg, en núverandi borgarstýra Hanna Gronkiewich-Waltz frá Borgaravettvangi hefur leyft þeim að fara fram.