Hvenær loksins?

Ýmis mál tengd breytingum á fyrirkomulagi áfengisverslunar hafa verið lögð fram á seinustu þingum en ekkert þeirra hefur fangað athygli hins steingelda og hundleiðinlega þingheims. Ef núverandi meirihluti getur ekki klárað málið þá ættu frjálslyndir menn að fara að fordæmi margra íslenskra fyrirtækja: flytja inn stjórnmálamenn frá ríkjum EES og kjósa þá til að sinna verkum sem íslenskum pólitíkusum finnast erfið og leiðinleg.

Í fyrirspurnartíma ráðherra á seinasta SUS-þingi var forsætisráðherrra spurður hvort breytinga væri að vænta í áfengismálum. Svar forsætisrárðherrans var eitthvað á þá leið að hann vissi það ekki, málið væri margþætt og skoðanir skiptar innan Sjálfstæðisflokksins.

En þrátt fyrir það sem menn stundum halda fram eru þessi mál ekkert hvorki gríðarlega margþætt né neitt sérstkalega flókin. Um er að ræða gríðarlega einfaldar spurningar: “Viltu að Ríkið sjái um áfengissölu?” og “Hvort viltu að áfengiskaupaaldur sé 18 eða 20 ár?” Og það er líklegast þessi einfaldleiki sem hamlar framförinni fremur en nokkuð annað. Því einfaldleikinn gerir það að verkum að hægt er að lesa já eða nei svar út úr jafnvel torræðnustu stjórnmálamannaromsu og ef að það er eitthvað sem íslenskir stjórnmálamenn hræðast þá er það hvað öðrum finnist um það sem þeim finnst.

Afstaða er nefnilega leiðindafyrirbæri, sérstaklega á Alþingi þar sem jafnvel flóknustu málum þarf að lokum að svara með já/nei/veit ekki/svaf yfir mig. Það er til dæmis einkar neyðarlegt að til sé listi yfir fólk sem á sínum tíma var á móti litastjónvarpi og bjór. Auðvitað er náttúrlega hundósanngjarnt að nota þessa lista gegn sömu mönnum í dag. Engin vafi er á að á sínum tíma hafi þessi mál verið bæði “margþætt og flókin” og “skoðanir um þau skiptar”.

Á meðan þúsundir svelta…

Ein glötuðustu rök gegn færslu áfengisverslunar til einkaaðila, eða lækkun áfengiskaupaaldurs eru svokölluð “á meðan rök”, það er að segja þau rök að fáranlegt sé að sinna þessu máli á meðan eitthvað brýnna verkefni sé óleyst. Til dæmis að fáranlegt sé að sinna svona smámálum á meðan að stór hluti íslenskra barna lifi við fátækt eða að tíma Þingsins sé sóað í svona vitleysu á meðan að hringvegurinn standi ómalbikaður og tvíbreikkun einhverra brúa sé ólokið. Slíkt bull er kannski sönnun þess að feministar hafi rétt fyrir sér og pólitísk umræða sé enn gríðarlega karllæg. “Það þýðir ekki að vaska upp á meðan klósettið lekur.”

En þegar allt kemur til alls er eiginlega ekki hægt að sakast við andstæðinga einhverra mála vegna þess að þeir tefji framgöngu þeirra. Þótt það sé svekkjandi að þingmenn VG hafi í vor komið í veg fyrir afgreiðslu áfengisverslunarfrumvarpsins með ótrúverðugri málþófshótun er sökin ekki þeirra heldur þess meirihluta þingheims sem leyfði málinu og tefjast fram á seinustu stundu. Sökin er allra þeirra sem studdu ekki málið af nægilegum þunga.

Það er nefnilega einhvern veginn þannig að um leið og menn eru komnir til áhrifa í ríkisstjórn þá virðast þeir telja að smámál eins og áfengisútsala og áfengiskaupaldur komi þeim ekki lengur við. Þeir leyfa ungpólitíkusunum að sinnast í svona stússi. Sjálfir hafa þeir annað við sinn tíma að gera. Önnur og brýnni mál bíða lausnar.

Leave a Reply

Your email address will not be published.