Hvar er ævisagan, Davíð?

Væri ekki tími til kominn að fyrrverandi forsætisráðherra settist í helgan stein og leyfði okkur að njóta kímnigáfu sinnar á prenti fremur en að reyta fjaðrir af glæsilegri arfleifð sinni með illa ígrunduðum yfirlýsingum um efnahagsmál?

Helmut Kohl er ekki sendiherra Þýskalands í Belgíu. Margaret Thatcher situr ekki í útvarpsráði BBC. Tony Blair er ekki heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn Gordon Brown. Vaclav Havel stýrir ekki neytendastofnun í Tékklandi og Nelson Mandela er ekki hæstaréttardómari í Suður-Afríku. Engin þessara manna er svo seðlabankastjóri í ríki sínu.

Þegar stórpólitíkusar hætta, þá hætta þeir oftast fremur afdráttarlaust. Reynsla þeirra og sambönd gera það verkum að völd þeirra yrðu líklegast meiri en embætti þeirra gæfu til kynna. Það er ekki staða sem margir telja ákjósanlega í lýðræðisríki. Reyndar gat Deng Xiaoping alveg stjórnað Miðríkinu úr embætti heiðursforseta Kínverska briddssambandsins seinustu árin.

Spurningin um hæfi Davíðs Oddssonar í embætti Seðlabankastjóra er síðan allt önnur spurning og svarið við þeirri spurningu er allt annað en “já”. Flestir Seðlabankastjórar í einhvers metnum seðlabönkum hafa hagfræðimenntun að baki. Ekki er hægt að réttlæta slappan bakgrunn með því að menn hafi fullt af fínum ráðgjöfum sér til aðstoðar, ekki frekar en að góðir og hæfir ráðgjafar í Hæstarétti réttlæti það að þangað verði ráðnir hagfræðingar og læknar í stað lögfræðinga.

Nýlega yfirlýsingar svo Davíðs Oddssonar um evruna gefa sterklega til kynna að seðlabankastjórinn sé ekki í tengslum við restina af bankakerfinu. Því meðan hver íslenskur banki á fætur öðrum tekur upp evru í eigin viðskiptum og mikilsmetnir menn í atvinnulífinu ræða um upptöku gjaldmiðilsins fyrir landið allt, þá þykir Davíð sem umræðan sé hlægileg. Þetta er furðulega niðurstaða hjá Seðlabankastjóra þótt hún sé ekki jafnfurðuleg hjá Davíð Oddssyni, fyrrverandi forsætisráðherra. Verst að þetta skyldi vera sami maðurinn.

Íslensk stjórnmál á árunum 1990-2005 voru einleikur Davíðs og honum tókst að afreka marga góða hluti á þeim tíma. En nú er mál að linni. Við eigum skilið smá frí og Davíð sömuleiðis. Ég bíð spenntur eftir ævisögunni. Vona að kaflinn “Fúlu árin í Seðlabankanum” verði sem stystur.

Leave a Reply

Your email address will not be published.