Hvenær loksins?

Ýmis mál tengd breytingum á fyrirkomulagi áfengisverslunar hafa verið lögð fram á seinustu þingum en ekkert þeirra hefur fangað athygli hins steingelda og hundleiðinlega þingheims. Ef núverandi meirihluti getur ekki klárað málið þá ættu frjálslyndir menn að fara að fordæmi margra íslenskra fyrirtækja: flytja inn stjórnmálamenn frá ríkjum EES og kjósa þá til að sinna verkum sem íslenskum pólitíkusum finnast erfið og leiðinleg.

Í fyrirspurnartíma ráðherra á seinasta SUS-þingi var forsætisráðherrra spurður hvort breytinga væri að vænta í áfengismálum. Svar forsætisrárðherrans var eitthvað á þá leið að hann vissi það ekki, málið væri margþætt og skoðanir skiptar innan Sjálfstæðisflokksins.

En þrátt fyrir það sem menn stundum halda fram eru þessi mál ekkert hvorki gríðarlega margþætt né neitt sérstkalega flókin. Um er að ræða gríðarlega einfaldar spurningar: “Viltu að Ríkið sjái um áfengissölu?” og “Hvort viltu að áfengiskaupaaldur sé 18 eða 20 ár?” Og það er líklegast þessi einfaldleiki sem hamlar framförinni fremur en nokkuð annað. Því einfaldleikinn gerir það að verkum að hægt er að lesa já eða nei svar út úr jafnvel torræðnustu stjórnmálamannaromsu og ef að það er eitthvað sem íslenskir stjórnmálamenn hræðast þá er það hvað öðrum finnist um það sem þeim finnst.

Afstaða er nefnilega leiðindafyrirbæri, sérstaklega á Alþingi þar sem jafnvel flóknustu málum þarf að lokum að svara með já/nei/veit ekki/svaf yfir mig. Það er til dæmis einkar neyðarlegt að til sé listi yfir fólk sem á sínum tíma var á móti litastjónvarpi og bjór. Auðvitað er náttúrlega hundósanngjarnt að nota þessa lista gegn sömu mönnum í dag. Engin vafi er á að á sínum tíma hafi þessi mál verið bæði “margþætt og flókin” og “skoðanir um þau skiptar”.

Á meðan þúsundir svelta…

Ein glötuðustu rök gegn færslu áfengisverslunar til einkaaðila, eða lækkun áfengiskaupaaldurs eru svokölluð “á meðan rök”, það er að segja þau rök að fáranlegt sé að sinna þessu máli á meðan eitthvað brýnna verkefni sé óleyst. Til dæmis að fáranlegt sé að sinna svona smámálum á meðan að stór hluti íslenskra barna lifi við fátækt eða að tíma Þingsins sé sóað í svona vitleysu á meðan að hringvegurinn standi ómalbikaður og tvíbreikkun einhverra brúa sé ólokið. Slíkt bull er kannski sönnun þess að feministar hafi rétt fyrir sér og pólitísk umræða sé enn gríðarlega karllæg. “Það þýðir ekki að vaska upp á meðan klósettið lekur.”

En þegar allt kemur til alls er eiginlega ekki hægt að sakast við andstæðinga einhverra mála vegna þess að þeir tefji framgöngu þeirra. Þótt það sé svekkjandi að þingmenn VG hafi í vor komið í veg fyrir afgreiðslu áfengisverslunarfrumvarpsins með ótrúverðugri málþófshótun er sökin ekki þeirra heldur þess meirihluta þingheims sem leyfði málinu og tefjast fram á seinustu stundu. Sökin er allra þeirra sem studdu ekki málið af nægilegum þunga.

Það er nefnilega einhvern veginn þannig að um leið og menn eru komnir til áhrifa í ríkisstjórn þá virðast þeir telja að smámál eins og áfengisútsala og áfengiskaupaldur komi þeim ekki lengur við. Þeir leyfa ungpólitíkusunum að sinnast í svona stússi. Sjálfir hafa þeir annað við sinn tíma að gera. Önnur og brýnni mál bíða lausnar.

Hvar er ævisagan, Davíð?

Væri ekki tími til kominn að fyrrverandi forsætisráðherra settist í helgan stein og leyfði okkur að njóta kímnigáfu sinnar á prenti fremur en að reyta fjaðrir af glæsilegri arfleifð sinni með illa ígrunduðum yfirlýsingum um efnahagsmál?

Helmut Kohl er ekki sendiherra Þýskalands í Belgíu. Margaret Thatcher situr ekki í útvarpsráði BBC. Tony Blair er ekki heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn Gordon Brown. Vaclav Havel stýrir ekki neytendastofnun í Tékklandi og Nelson Mandela er ekki hæstaréttardómari í Suður-Afríku. Engin þessara manna er svo seðlabankastjóri í ríki sínu.

Þegar stórpólitíkusar hætta, þá hætta þeir oftast fremur afdráttarlaust. Reynsla þeirra og sambönd gera það verkum að völd þeirra yrðu líklegast meiri en embætti þeirra gæfu til kynna. Það er ekki staða sem margir telja ákjósanlega í lýðræðisríki. Reyndar gat Deng Xiaoping alveg stjórnað Miðríkinu úr embætti heiðursforseta Kínverska briddssambandsins seinustu árin.

Spurningin um hæfi Davíðs Oddssonar í embætti Seðlabankastjóra er síðan allt önnur spurning og svarið við þeirri spurningu er allt annað en “já”. Flestir Seðlabankastjórar í einhvers metnum seðlabönkum hafa hagfræðimenntun að baki. Ekki er hægt að réttlæta slappan bakgrunn með því að menn hafi fullt af fínum ráðgjöfum sér til aðstoðar, ekki frekar en að góðir og hæfir ráðgjafar í Hæstarétti réttlæti það að þangað verði ráðnir hagfræðingar og læknar í stað lögfræðinga.

Nýlega yfirlýsingar svo Davíðs Oddssonar um evruna gefa sterklega til kynna að seðlabankastjórinn sé ekki í tengslum við restina af bankakerfinu. Því meðan hver íslenskur banki á fætur öðrum tekur upp evru í eigin viðskiptum og mikilsmetnir menn í atvinnulífinu ræða um upptöku gjaldmiðilsins fyrir landið allt, þá þykir Davíð sem umræðan sé hlægileg. Þetta er furðulega niðurstaða hjá Seðlabankastjóra þótt hún sé ekki jafnfurðuleg hjá Davíð Oddssyni, fyrrverandi forsætisráðherra. Verst að þetta skyldi vera sami maðurinn.

Íslensk stjórnmál á árunum 1990-2005 voru einleikur Davíðs og honum tókst að afreka marga góða hluti á þeim tíma. En nú er mál að linni. Við eigum skilið smá frí og Davíð sömuleiðis. Ég bíð spenntur eftir ævisögunni. Vona að kaflinn “Fúlu árin í Seðlabankanum” verði sem stystur.

Ógildur meðlimur

Mundu margir fá sér nettengingu ef þeir þyrftu fyrst að greiða fyrir hana í tólf mánuði áður en þeir gætu tengst vefnum? Mundi einhver versla við líkamsræktarstöð sem krefðist þess að menn greiddu félagsgjöld í tólf mánuði áður en þeir fengju aðgang að tækjasalnum? En bókabúð sem heimtaði að fólk greiddi tólf bóka tryggingu áður en það fengi fyrstu bók sína afhenta, mundi slík bókabúð fá marga viðskiptavini?

Nei. Líklegast gætu fá fyrirtæki eða félög sem reiða sig á frjáls og óþvinguð viðskipti leyft sér þann munað að byrja veita viðskiptavinum sínum þjónustu í fyrsta lagi nokkrum mánuðum eftir að þeir byrja að greiða þeim peninga. Engu að síður er þetta víðtekinn venja meðal íslenskra stéttarfélaga. Algeng regla er að menn þurfi að greiða félagsgjald í þrjá mánuði áður en þeir teljast “fullgildir meðlimir félags”. Þeir hjá VR gera gott betur. Þar stendur þetta busunartímabil yfir í heilt ár!

Það þurfa sem sagt að líða tólf mánuðir og þar sem nýr “félagsmaður” greiðir 0,7% verndargjald til Virðingar-Réttlætis (ríspekt djöstis) áður en hann getur leigt sér sumarbústað, splæst í meðferð eða fengið niðurgreitt ræðunámskeið. Eða gert hvað annað gagnlegt sem aðild að stéttarfélögum veitir mönnum.

Allt þetta tryggir náttúrlega það að sumarstarfsmenn á aldrei neitt til baka af sínum launum. Þeir þurfa réttlausir að greiða inn í sjúkra-, orlofshúsa og menntunarsjóði foreldra sinna og kennara í þrjá til fjóra mánuði á hverju sumir. Þeir borga niður sumarhúsaferðir, tölvunámskeið og áfengismeðferðir handa öðrum, oftast sér eldri félagsmönnum.

Og síðan þurfa þeir að hlusta á fólk býsnast yfir frekju og yfirgangir þessarar ungu kynslóðar.

Seinasti strætó

Þegar ég get ekki synt upp í straum
og mótlætið megn mér um verður
í ljósbláum vagni ég keyri á brott
með seinustu
heimferð.

Ó, miðnæturstrætó, sem þeysir um torg
og stræti og breiðgötur borgar,
bjargaðu okkur, skipbrotsmönnum,
frá drukknun
og sorgum.

-Búlat Okúdjava, Seinasti strætó, 1957 [Þýðing höfundar]

Georgíski listamaðurinn ljóðskáldið Búlat Okúdjava, var í senn hógvær og lítitlátur maður, líklega fínir eiginleikar fyrir listamenn í Sovétríkjunum til að hafa. Hann hlaut enga formlega tónlistarmenntun og leit á sjálfan sig raunar ekki sem tónlistarmann, þrátt fyrir að hafa samið fleiri tugi sönglaga. “Þegar ég byrjaði að spila, kunni ég bara þrjú grip,” sagði hann í viðtali undir lok ævinnar, “en í dag kann ég sex.” Okúdjava lést í París árið 1997.

Lög Búlats eru sjaldnast sérstaklega pólitísk. Þetta eru fyrst og fremst fögur og hugljúf kvæði. En auðvitað eru þau, eins og önnur list, ákveðin heimild um þann tíma sem þau voru samin í. Þannig er lagið hans um Seinasta strætóinn frá árínu 1957 ákveðinn heimild um það að almenningssamgöngur á nóttunni í Moskvu fyrir hálfri öld síðan voru líklega svipað góðar og þær eru í Reykjavík í dag. Það er að segja: seinasti strætóinn keyrir í kringum miðnætti.

Undirritaður nýtti sér næturstrætisvagna nokkuð reglulega þegar þeir gengu og sá óneitanlega eftir þegar þeirri þjónustu var hætt. Sú ákvörðun var engu að síður skiljanleg, undir lokin hefðu farþegar hverrar ferðar auðveldlega komist fyrir í einum stórum leigubíl. Líklegast var skortur á posum stærsta vandamálið hér eins og venjulega, nema að hann var magnaður upp enn frekar þar sem græn kort og miðar gengu ekki á nóttunni. Bara tvöhundruðkall í klinki.

Í kvöldfréttum seinasta föstudag (31. 08. 2007) mátti heyra að framkvæmdarstjóri Hreyfils væri nú að leggja til að næturferðum strætisvagna væri komið aftur á. Þetta vildi þrátt fyrir að það kæmi niður á tekjum leigubílstjóra, því það væri betra en ef menn kenndu skorti á leigubílum um ástandið í miðbænum. Enda væri nóg af leigubílum í Reykjavík að sögn framkvæmdarstjórans.

Já, sko, það er alveg hárréttur fjöldi af leigubílum í borginni. Hins vegar er of lítið af næturstrætóum, og of margir vilja taka leigubíl á sama tíma. Svo eru sumir að taka leigubíl sem gætu bara labbað. Aðrir fara á tveimur leigubílum þótt áfangastaðirnir séu steinsnar hvor frá öðrum en aðrir hringja og panta bíl en nota hann svo ekkert. Bölvaður almenningurinn. Það er búið að reikna að 550 leigubílar sé hárréttur fjöldi fyrir Reykjavík en svo kunna menn bara ekkert að fara með þá!

Það er algjörlega óskiljanlegt hvers vegna, meðan allt efnahagslífið hefur tekið stakkaskiptum, þurfi leigubílamarkaðurinn enn að starfa eftir svipuðum lögmálum og giltu í því ríki sem Búlat Okúdjava bjó megnið af ævi sinni. Það er auðvitað fáranlegt að það að mega flytja fólk milli staða gegn greiðslu sé háð fjöldatakmörkunum af hálfu yfirvalda! Og ef menn eru hræddir við að markaðurinn verði algjörlega stjórnlaus verið hann gefinn frjáls, þá er ekkert sem segir að það megi ekki setja einhverjar reglur til að “verja greyið neytendur,” til dæmi að setja verði kílómetragjaldið stórum stöfum á glugga bifreiðar, og setja reglur um að hvernig restin af gjaldskránni skuli fylgja kílómetragjaldinu. Þessi leið er til dæmis víða farin í Póllandi og öðrum löndum.

Hvað sem því líður þá eru næturstrætóar hin fínasta viðbót. Næturstrætóar, ásamt leigubílaflota sem ákvarðast af raunverulegri markaðsþörf en ekki útreikningum stjórnmálamanna og hagsmunaaðila, ættu að geta gert heimferð margra skipbrotmanna helgarinnar mun auðveldari. Þá er bara að vona að þessar breytingar verði örari en framfarir Búlats Okúdjava í gítarleik.