Auglýsingaspræna

Fyrir hverjar kosningar má heyra háværar áhyggjur þeirra sem kvarta undan “auglýsingaflóði” og “fjáraustri” stjórnmálaflokkanna. En rétt eins og svo margt annað nöldur eiga þessar áhyggjur við lítil rök að styðjast.

Í bókinni Freakonomics eftir Steven Levitt og Stephen J. Dubner er sagt frá því að árlega kosta kosningabaráttur í Bandaríkjunum tæplega einn milljarð dollara. Það hljómar vissulega eins og há tala með mörgum núllum, þangað til að höfundar benda á að þetta er svipuð upphæð og Bandaríkjamenn eyða í tyggjó ár hvert.

Það er því nauðsynlegt að huga að því að í samanburði við aðrar herferðir eru auglýsingaherferðir flokkanna fátæklegar. Þannig náðu stjórnmálaflokkarnir nýlega samkomulagi um að takmarka auglýsingaútgjöld sín við 28 milljónir. Flestum auglýsendum innan bankanna, tryggingafélaga eða bókaútgefenda þættu þetta ekki háar upphæðir. Sérstaklega ef þess er gætt að um er að ræða auglýsingabaráttu sem afkoma “fyrirtækjanna” næstu fjögur árin mun ráðast af.

Það að einhverjir stjórnmálaflokkar komi sér saman um hámarksauglýsingakostnað fyrir Alþingiskosningar er svo sem allt gott og blessað. Verra er hins vegar þegar nöldur um “fjáraustur” og “auglýsingamaskínur stjórnmálaflokkanna” verður beinlínis grundvöllur lagasetningar. Í nýsamþykktum lögum um fjármál stjórnmálaflokkanna er til dæmis kveðið á um að hámarksframlög hvers aðila til stjórnmálaflokks á hverju ári mega ekki vera hærri en 300 þúsund. Hér er á ferðinni regla sem þrengir mjög að nýjum framboðum. Það er gjörsamlega óskiljanlegt af hverju einstaklingum skildi ekki vera heimilt að styrkja þann málstað sem þeir trúa á, um meira en sem nemur verði á tíu ára gamallri, mikið ekinni Toyotu.

Ef rasistaflokkur yrði til á Íslandi og færi fram með miklum látum, væri mönnum þá óheimilt að styðja baráttu gegn honum með þeim ráðum sem þeir höfðu. Og af hverju geta menn ekki einu sinni lagt meira fé í kassann ef um þeirra eiginn pening er að ræða? Hvar liggja hagsmunaárekstrarnir þá?

Önnur áhrif umræddra laga eru þau að virkni ýmissra félagasamtaka, sem ekki þurfa að hlýta lögunum, eykst frá því sem áður var. Nú var Framtíðarlandið til dæmis nýlega með auglýsingaherferð í sjónvarpi þar sem fólk var hvatt til að taka þátt í netundirskriftasöfnun. Dálítið óverkill, ekki satt?

Líklega er hvergi meiri löggjöf um fjármál stjórnmálaflokkanna en í vestanhafs. Líklega er hvergi í lýðræðisríki erfiðara að stofna nýjan flokk eða bjóða fram utan rótgróinna stjórnmálahreyfinga. Það er raunar miður að Ísland skyldi vera að færast nær Bandaríkjunum hvað þetta varðar.

Leave a Reply

Your email address will not be published.