Stjórnarskráin lengd með núlli

Á að setja í stjórnarskrá ákvæði um að “mennt sé máttur”? Eða að “æfingin skapi meistarann”? Á að taka af öll tvímælin um hið íslenska lambakjöt sé best í heimi, með því að bæta því við stjórnarskrána? Og ef vera skyldi að einhver vissi ekki enn að reykingar væru óhollar, þá hlýtur að vera góð hugmynd að taka það fram á fleiri stöðum, til dæmis í stjórnarskránni.

Framsóknarmenn eru til staðar í öllum lýðræðisríkjum. Þeir eru raunar til staðar í öllum flokkum og raunar mætti segja að innan með hverju okkar búi misstór framsóknarmaður.

Þetta er flott myndlíking, kannski að hún ætti heima í stjórnarskrá?

Til dæmis koma hinir pólsku framsóknarmenn óneitanlega upp í hugann þegar 23. grein pólsku stjórnarskrárinnar frá árinu 1997 er skoðuð.

“Fjölskyldubúskapur skal vera grunneining pólska landbúnaðarkerfisins. Þetta má þó þá ekki brjóta í bága við 21. og 22. grein. [atvinnufrelsisákvæði]”

Íslenska stjórnarskráin hefur hingað til verið hóflega laus við greinar á borð við þessa að ofan, enda sæmilega þvælulaust rit og til dæmis rúmlega 5 sinnum styttri en pólska stjórnarskráin. Líklega er þar mest að þakka því að hún er orðin tiltölulega gömul í grunninn, en stjórnarskrár hafa lengst mjög í gegnum tíðina. Það kannski ekki skrýtin tilhneygin í sjálfu sér, stjórnarskráin er minnsti samnefnari pólitískra skoðana hverrar þjóðar og allir vita að nefnarar verða almennt stærri og flóknari eftir því sem brotunum sem lögð eru saman fjölgar. Það var auðvitað auðveldara fyrir nokkra velstæða miðaldra karlmenn á 19. öld að koma sér saman um hver þeirra grunngildi væru en það er í dag.

Ekki er enn til þess vitað að reynt hafi verulega á 23. grein pólsku stjórnarskrárinnar og raunar erfitt að sjá hvernig það ætti að verða. Á sama hátt og íslenska auðlindrákvæðið þá er nefnilega um að ræða slagorð sem ætti mun frekar erindi á styttu eða inn í æviminningar útbrunnins stjórnmálamanns fremur en inn í grunnlögin.

Líklegast er auðlindaákvæði í stjórnarskránni þó mun minna æxli en sumir hafa viljað af láta og eins og staðan er núna þá stefnir æxlið í að góðkynja, þ.e.a.s. pirrandi og ljótt en þó fremur skaðlaust. Það hins vegar mjög miður að verið sé að lengja ágæta stjórnarskrá, ekki vegna aðkallandi þarfar heldur komandi kosninga.

Leave a Reply

Your email address will not be published.