Þjóðsöngsteprur

Fimm eldri menn sungu þjóðsönginn í sjónvarpsþætti síðastliðinn laugardag. Það er í raun frétt út af fyrir sig – varla er til þjóðsögsfeimnari Evrópuþjóð en Íslendingar, nema hugsanlega Þjóðverjar, sem hafa þó kannski eilítið betri ástæður fyrir trega sínum til að syngja sitt lag.

Afstaða Íslendinga til þjóðsöngsins hefur lengst af verið sú að söngurinn sé afar fallegur en einkar erfiður í flutningi. Þessi víðtekna þjóðarskoðun hefur leitt það af sér að engin þorir að leggja út í þjóðsönginn nema hann sé nokkuð öruggur um eiginn sönghæfileika, því enginn vill gera sig að fífli með því að takast á við lag sem hann ræður engan veginn við. Eða gera sekur um landráð með því að falsa sig í gegnum Lofsönginn í fjórum ólíkum tóntegundum.

Þessi afstaða: “Fals er landráði næst” gerir það að verkum að harla nokkur maður þorir að syngja þjóðsönginn á íþróttaviðburðum eða við aðrar aðstæður. Þetta er auðvitað mikil synd enda er Lofsöngurinn okkar mikið stemningslag, og “Íslands þúsund áááár” kaflinn er svo tilþrifamikill að torfundin er betri andleg upphitun þegar valta á yfir aðrar þjóðir í handbolta eða fótbolta.

Þegar drukkið er, afsannast reyndar tvær helstu frumreglur um íslenska þjóðsöngurinn. Lagið verður skyndilega hvorki sérstaklega erfitt í flutningi, né reyndar heldur sérstaklega fagurt, en það gildir einu. Það er einmitt oft meðal fullra ungmenna í blautu tjaldi sem Lofsöngurinn nýtur sín best, þegar “Íslands þúsund ár” óma milli fjallshlíða í Þjórsárdal um verslunnarmannahelgi. Þá fyrst hættir hann að vera Ríkissöngur og verður að sannkölluðum Þjóðsöng.

Það er raunar ekki skrýtið að meðal þjóðar sem lítur á þjóðsöng sinn sem hálfgert tabú, skyldu menn bregðast svona illa þegar grínast sé með hann. Menn verða þó að skilja að vandamálið felst einmitt í þjóðsöngstepru sumra Íslendinga, en ekki því að fimm meðlimir þjóðarinnar hafi túlkað eign sína á þjóðsöngnum bókstaflega og gantast svolítið með hann. Hinir, ættu að hætta að skammast sín fyrir söng sinn, og taka hressilega undir næst þegar Ísland mætir Spáni á Laugardalsvellinum.

Þegar kynfræðslan féll niður

Ein mestu vonbrigði seinasta þings voru þau að frumvarp um bjór- og vínsölu í matvöruverslunum skyldi ekki hafa orðið að lögum. Þótt þægilegt væri að skella skuldinni á vinstri græna, sem hótuðu málþófi gegn frumvarpinu, þá hljóta menn auðvitað að spyrja sig að því til hvers að hafa hægrisinnaðan meirihluta, ef hann getur ekki klárað einföld mál eins og þetta.

Ég man ég las eitt sinn sögu út í grunnskóla sem átti að lýsa kynfræðslu fyrr á öldinni. Nemendurnir í sögunni áttu líffræðibók sem innihélt tvær „dónalegar“ blaðsíður um hvernig mannkynið fjölgar sér. Að sjálfsögðu biðu krakkarnir spenntir alla önnina eftir að farið yrði í efnið, en þegar komið var að opnunni góðu tilkynnti kennarinn að bekkurinn væri kominn aðeins eftir á og því yrði næsta kafla sleppt.

Það að fylgjast með framgangi þingmála sem lúta að verslun með áfengi er í raun nákvæmlega sama tilfinning og nemendurnir í skáldsögunni að ofan upplifðu. Síðastliðinn fjögur ár hefur greinarhöfundur fylgst með fréttum af áfengisverslunarfrumvarpinu, hangið á Alþingisvefnum til að sjá hvort málið kæmist úr nefnd eða inn í aðra umræðu, og skrifað um það fjölda greina. Eina sem þessi æsingur hefur skilað, er að gera vonbrigðin með að ekki hafi tekist frumvarpið að lögum, enn meiri en ella hefði orðið.

Manni líður eiginlega eins og hálfgerðum hálfvita, að hafa trúað því að hægt væri að fá löggjafann til að kjósa um löggjöf, í stað þess að röfla um eitthvað tæknikratískt bull daginn út og daginn inn. Ég man satt að segja ekki eftir neinni spennandi atkvæðagreiðslu á seinustu fjórum árum. Einu frumvörpin sem verða að lögum eru stjórnarfrumvörp samin í ráðuneytum og úrslit annarra þingmála ráðast ekki einu sinni með atkvæðagreiðslum, heldur með dagskrárgerð.

Í stað þess að vísa málum heiðarlega frá eftir fyrstu umræðu, eru málin send í nefnd og aldrei tekin fyrir þar, eða látin fara út úr nefnd og sett aftarlega á dagskrána í seinustu viku þingsins svo þau nái aldrei í aðra og þriðju umræðu. Meðan á þessu stendur fá ráðherrar að skvísa inn lagafrumvörpum á seinustu viku þingsins, í fullkomnu virðingarleysi við löggjafann. Hvers vegna dugði til dæmis vika til að samþykkja hin aðkallandi lög um vörugjöld á metanbifreiðir (þessar tvær sem hér eru) en fjögur ár dugðu ekki til að koma lögum um skynsamari áfengisverslun inn í þriðju umræðu?

Nú liggur það reyndar fyrir að líklegast hefði umrætt frumvarp orðið að lögum ef ekki væri fyrir málþófshótun vinstrigrænna á seinustu klukkustundum þinghalds. En eins forkastanleg og andlýðræðisleg og slík hótun er, þá breytir það því ekki að það er algjörlega á ábyrgð stuðningsmanna gefins frumvarps eða þingmeirihlutans hverju sinni að sjá til þess að málið fari alla leið. Menn hefðu einfaldlega átt að beita þrýstingi sínum og afgreiða þetta mál fyrir löngu síðan í stað þess að bíða með það fram á seinustu stundu, því þótt hegðun VG í þessu máli sé reiðarslag fyrir frjálslynda kjósendur, þá er hún varla óvænt eða óvenjuleg.

Allar afsakanir sem menn kunna gefa eru í besta falli jafngóðar og „Ég kom svo seint heim úr útilegunini að ég náði ekki að læra heima.“ Það verður því, því miður, að segjast að þeir sem að frumvarpinu stóðu hafi glatað einu besta tækifæri allra tíma til jákvæðra breytinga í áfengismálum Íslendinga. Þannig hafa þeir brugðist trausti þess frjálslynda fólks sem kaus þá.

Stjórnarskráin lengd með núlli

Á að setja í stjórnarskrá ákvæði um að „mennt sé máttur“? Eða að „æfingin skapi meistarann“? Á að taka af öll tvímælin um hið íslenska lambakjöt sé best í heimi, með því að bæta því við stjórnarskrána? Og ef vera skyldi að einhver vissi ekki enn að reykingar væru óhollar, þá hlýtur að vera góð hugmynd að taka það fram á fleiri stöðum, til dæmis í stjórnarskránni.

Framsóknarmenn eru til staðar í öllum lýðræðisríkjum. Þeir eru raunar til staðar í öllum flokkum og raunar mætti segja að innan með hverju okkar búi misstór framsóknarmaður.

Þetta er flott myndlíking, kannski að hún ætti heima í stjórnarskrá?

Til dæmis koma hinir pólsku framsóknarmenn óneitanlega upp í hugann þegar 23. grein pólsku stjórnarskrárinnar frá árinu 1997 er skoðuð.

„Fjölskyldubúskapur skal vera grunneining pólska landbúnaðarkerfisins. Þetta má þó þá ekki brjóta í bága við 21. og 22. grein. [atvinnufrelsisákvæði]“

Íslenska stjórnarskráin hefur hingað til verið hóflega laus við greinar á borð við þessa að ofan, enda sæmilega þvælulaust rit og til dæmis rúmlega 5 sinnum styttri en pólska stjórnarskráin. Líklega er þar mest að þakka því að hún er orðin tiltölulega gömul í grunninn, en stjórnarskrár hafa lengst mjög í gegnum tíðina. Það kannski ekki skrýtin tilhneygin í sjálfu sér, stjórnarskráin er minnsti samnefnari pólitískra skoðana hverrar þjóðar og allir vita að nefnarar verða almennt stærri og flóknari eftir því sem brotunum sem lögð eru saman fjölgar. Það var auðvitað auðveldara fyrir nokkra velstæða miðaldra karlmenn á 19. öld að koma sér saman um hver þeirra grunngildi væru en það er í dag.

Ekki er enn til þess vitað að reynt hafi verulega á 23. grein pólsku stjórnarskrárinnar og raunar erfitt að sjá hvernig það ætti að verða. Á sama hátt og íslenska auðlindrákvæðið þá er nefnilega um að ræða slagorð sem ætti mun frekar erindi á styttu eða inn í æviminningar útbrunnins stjórnmálamanns fremur en inn í grunnlögin.

Líklegast er auðlindaákvæði í stjórnarskránni þó mun minna æxli en sumir hafa viljað af láta og eins og staðan er núna þá stefnir æxlið í að góðkynja, þ.e.a.s. pirrandi og ljótt en þó fremur skaðlaust. Það hins vegar mjög miður að verið sé að lengja ágæta stjórnarskrá, ekki vegna aðkallandi þarfar heldur komandi kosninga.

VG úti að aka

Fyrir þingkosningar 1999 heimsótti ég kosningaskrifstofur allra flokkanna. Fékk epli hjá vinstri grænum. Spurði þá hvert þeir hentu lífræna ruslinu. Var bent á að setja kjarnann í vaskinn en ég varð satt að segja ekkert allt of sannfærður um að kjarninn mundi verða að heimilisáburði innan nokkurra vikna.

Vinstri grænir eru auðvitað fyrst og fremst vinstri og miklu síður grænir. Græningjastefna þeirra felst nánast einungis í andstöðu við vondar erlendar stóriðjuframkvæmdir. Eitthvað segir mér að andstæðan við innlendar ríkisreknar stóriðjuframkvæmdir yrði töluvert minni.

Þeir vinstri grænir sem ég þekki ná venjulegum Meðal-Þjóðverja úr Hannover ekki uppi nös þegar kemur að umhverfisvænu líferni. Þeir taka ekki strætó fremur en aðrir Íslendingar, þeir hjóla ekki fremur en aðrir Íslendingar, þeir flokka ekki ruslið sitt sérstaklega nema kannski dósirnar og þeir fara út úr húsi með öll ljósin kveikt.

Það er auðvitað mun auðveldara að espa menn til baráttu gegn vondu útlendu stórfyrirtæki heldur en að láta þá fórna eigin þægindum í þágu umhverfisins. Þingmenn vinstri grænna hafa þannig ítrekað lýst efasemdum gegn hugmyndum um gjaldtöku vegna notkunar af umferðarmannvirkjum, sem er algjörlega fáranleg afstaða af flokk sem á að heita grænn.

Í umræðu um ný vegalög sagði Þuríður Backman meðal annars:

„Við höfum eingöngu þekkt gjaldtökuna frá Hvalfjarðargöngunum. Á sínum tíma rúmaðist sú mikla framkvæmd engan veginn innan fjárlagarammans eða möguleika þess að fara samkvæmt hefðbundnu leiðum í þá framkvæmd, en ég man svo vel eftir öðrum rökum sem voru látin gilda og þau eru, ég tel að þau séu alveg jafngild í dag, að það sé valkvætt. Hægt er að keyra áfram Hvalfjörðinn. Þetta er ekki eina leiðin vestur eða norður, hægt er að fara Hvalfjörðinn.“

Já, sko menn geta ennþá keyrt Hvalfjörðinn. Gjaldtaka á brúnni við Selfoss er þá væntanlega í lagi, því menn geta enn valið um að fara „hina leiðina“.

Þegar kemur að málefnum almenningssamgangna hefur stefna flokksins varla farið mikið út fyrir setninguna „efla beri almenningssamgöngur“. Til samanburðar má nefna að vefritið sem þessi orð eru skrifuð á hefur gegnum tíðina birt þrefalt fleiri greinar um strætó og almenningssamgöngur en vefur vinstri grænna. Ég veit reyndar ekki hvort orðin „strætó“ og „almenningssamgöngur“ koma einu sinni fyrir í nýrri landsfundarályktun flokksins. Ég finn þau allavega ekki. Rétt fyrir seinustu kosningar lagði Árni Þór reyndar til að Strætó bs. yrði lagt niður og SVR komið á aftur. Frábær hugmynd: að láta ganga til baka eina af fáum virkilega góðum ákvörðunum í málefnum strætisvagna höfuðborgarsvæðisins seinustu ára.

Sjálfur á ég ekki bíl, heldur ýmist hjóla ég í i vinnuna eða tek strætó. Mér hefur ég fundist vera hálfgerður fugl með þessa afstöðu, miðað við staðsetningu mína á stjórnmálasviðinu. En það kemur í ljós að ég mundi þykja ekki síðra fyrirbæri ef ég léti sjá mig á hjólinu á seinasta landsfundi vinstrigrænna. Því eins og einn annar hjólreiðarmaður á fundinum benti á, þá voru fundarmenn svo sannarlega úti að aka þessa helgi.