Smáborgarabylting vegna klámstefnu

Ef einhver hélt að Ísland væri svo rótgróið og þroskað lýðræðisríki að stjórnmálamennirnir væru yfir það hafnir að stússast í því hver bókaði hótelherbergi á íslenskum hótelum þá er líklegt að sá hinn sami sé að skoða ódýrar pakkaferðir til Hollands yfir næstu tvær vikurnar.

Undanfarin ár hafa baráttusamtök samkynhneigðra reynt að standa fyrir svokölluðum jafnréttisgöngum í stærstu borgum Póllands. Göngurnar hafa oftar en ekki mætt andstöðu stórs hluta íbúa og kaþólsku kirkjunnar og oftar en ekki hafa stjórnmálamennirnir skorist inn í leikinn og beitt einhverjum tæknilegum lagaflækjum til að koma í veg fyrir að að göngurnar geti farið fram. Lech Kaczynski, þáverandi borgarstjóri Varsjár og núverandi forseti Póllands, veitti til dæmis ekki leyfi fyrir göngunum á sínum tíma vegna vegna, takið eftir þessu, hættu á ofbeldisfullum gagnmótmælum öfgahægrimanna. Villta hægrið var hrifið af þessarir lausn hans Lech. „Gott að hafa bannað þessum öfuguggum að þramma um höfuðborgina. Pólska þjóðin kærir sig ekki um svona lagað.“

Líklega eru hvorki til veikari né um hættulegri rök gegn hópi fólks en þau að hann ógni siðferði samfélagsins. Hvað geta þeir sem í hlut eiga gert annað en að halda sjálfum sér til hlés og vonast til að slíkt gangi yfir? Hvernig á fólk að bera sig að þegar menn nota orð eins og siðgæði og siðferði til þess einungis að geta sagt „Mér finnst þú ógeðslegur!“ á aðeins háfleygari máta?

Nú er bloggurum og femínistum þessa lands að sjálfsögðu heimilt að hneykslast á hverju því sem þeim þykir hneykslanlegt og ógeðslegt. En verra er þegar borgarstjórinn í Reykjavík og aðrir ráðamenn fara beita valdi sínu og áhrifum til síga lögreglunni á ráðstefnugesti fyrirhugaðrar klámráðstefnu og gera sér þannig mat úr nýuppsprottinni siðferðisvakningu landans.

Það blasir auðvitað við þessi lögreglurannsókn er algjör sóun á almannafé enda mun hún aldrei geta leitt til ákæru eða sakfellingar á hendur einum né neinum. Hins vegar mun hún örugglega skila sínu ef markmiðið er að halda þessu fólki frá því að koma til Íslands. Það væru nú ekki margir Íslendingar sem væru tilbúnir að fara frí til Evrópu ef lögreglurannsókn vegna stuðnings við „ólöglegar og viðbjóðslegar“ hvalveiðar ætti að fylgja hverjum okkar. Við erum sem sagt að upplifa það að hæpin lögreglurannsókn sé notuð til að losa sig við óþægilegt fólk. Þetta vekur upp sælar minningar eða hitt og heldur!

Hver eru grundvallargildi íslensks samfélags? Hvers vegna vill fólk búa hér? Ég held að fáir mundu svara þeirri spurningu með orðunum „út af því að klám er bannað“ eða „út af því að Íslendingar eru svona rosalega þéttir siðferðislega séð“. Sjálfum þykir mér vænst um frelsið, aðrir mundi eflaust nefna jöfnuð eða velferðarkerfið, en ég held að enginn mundi í alvörunni vilja monta sig af því helsti kosturinn við landið þeirra væri að „þar væru stjórnmálamenn voða duglegir að gera fólki sem hafði öðruvísi skoðanir en meirihlutinn lífið leitt“.

Auðvitað eiga menn rétt á því að vera á móti klámi eins og hverju öðru. En menn ættu ekki að krefjast þess ofbeldi ríkisvaldsins verði beitt í þeirri baráttu með því að fangelsa eða gera brottræka úr landi þá sem eru á öndverðum meiði. Og auðvitað ætti hið opinbera ekki að verða við slíkum beiðnum. Stjórnmálamenn í rótgrónu lýðræðisríki verða að þola það að einn og einn klámhundur kunni að gista í hótelum landsins á nokkurra ára fresti.

– PB

… svo lengi sem það skaðar ekki aðra

Næsta sumar verður orðið bannað að reykja á skemmtistöðum. Líkt og mörgum öðrum óreykjandi hægrimönnum, hefur mér reynst þetta mál dálítið erfitt. Annars vegar hlakkar maður til þess að geta notað sömu fötin tvo daga í röð, en hins vegar er vill maður ekki að vinum manns finnist maður vera einhver helvítis kommúnisti.

Frá því ég hef verið lítið hefur mér verið kennt að frelsi sé réttur til gera það sem manni sýnist svo lengi sem það skaðar ekki aðra. Hér stendur hnífurinn einmitt í kúnni. Reykingar skaða aðra. Talið um reykingarlyktina af jakkafötunum er í sjálfu sér ekki nóg til banna fólki að reykja á opinberum stöðum. Ekki frekar en við eigum að banna prump og rop. Hins vegar er það bara bláköld staðreynd að reykingar skaða ekki bara reykingarmanninn. Það er því ekki hægt að láta sem einungis um eitthvað einstaklingsfrelsismál sé að ræða.

Nú er auðvitað hægt að benda á, að engin sé neyddur til að fara inn á bari eða veitingastaði þar sem má reykja. Á sama hátt var auðvitað enginn neyddur til að ferðast til útlanda, taka strætó eða fara í bíó þegar þar mátti reykja. Hins vegar má til sanns vegar færa að fræðilega séð eru varla til staðir sem auðveldara sé að forðast en einmitt skemmtistaðir. Mun nær væri því að banna reykingar á götum úti og á heimilum þar sem börn búa áður en barirnir eru gerðir reyklausir. Maður hefur auðvitað val um það á hvaða skemmtistað maður fari eða hvort það sé gert yfirhöfuð. Hins vegar vita flestir auðvitað að eins og íslenskt félagslíf virkar þá er þetta val oft hvorki sérstaklega virkt, né sérstaklega virt.

Líklegast væri það frá frjálslyndu sjónarhorni betri leið að nöldra endalaust í reykingarfólki og krefjast þess að fara á reyklausa staði þangað til að manni væri hent út úr símanum, fremur en að krefjast þess að Alþingi taki af manni ómakið. En ég held allavega að aðrir vígvellir en þessi séu heppilegri undir orrustur um framtíð eignaréttar. Ég fæ allavega ekki séð að um endalok kapítalismans sé að ræða þótt fólki verði bannað að skaða samborgara sína í húsnæði þriðja aðila.