19, 20, 21 …

Swindon-hringtorgið alræmda, með fimm undirhringtorgum og öfugu, hægriumferðarhringtorgi í miðjunni. Pant taka bílprófið þarna!

Nýlega var lagt fram á Alþingi frumvarp um hækkun bílprófsaldurs upp í átján ár. Ein helstu rök fyrir slíkum breytingum eru oft þær að ökumenn á aldrinum 17-18 ára valdi hlutfallslega flestum umferðarslysum.

Með sambærilegri röksemdarfærslu má komast ansi langt. Þegar áðurnefnd breyting verður genginn í garð mun einhver rannsókn sýna, öllum að óvörum, að aldurshópurinn 18-19 sé nú sá sem flestum slysunum valdi. Þá verður kannski krafan að hækka hann upp í 19 ár, eða jafnvel 20, til að “samræma við áfengiskaupaaldurinn”.

Ég ætla ekki að halda því fram að þeir sem mæli fyrir hækkun bílprófsaldurs hyggist ætla að hækka hann áfram endalaust. Né heldur ætla ég halda því fram að flutningsmenn frumvarpsins séu það skyni skroppnir að þeir átti sig ekki á því að færni ökumanns sé eitthvað sem þjálfast með tíma og því sé eðlilegt að yngsti hópurinn sé ávallt með hlutfallslega verstu slysatíðni. En hins vegar lyktar þetta af fréttainnblásnum popúlisma, menn heyra um alvarleg slys meðal ungmenna eða verða vitni að glæfraakstri þeirra og hugsa með sér: “Eitthvað verður að gera!”

En vonandi gleyma menn ekki því að við verðum sjaldnast betri í einhverju ef við lærum það seinna. Það er auðveldara að læra erlend tungumál fyrr en seinna. Það er auðveldara að læra að hjóla ungur en gamall. Afreksmenn í íþróttum hefja oftast þjálfun strax á unga aldri. Sömu lögmál hljóta að gilda þegar kemur að akstri bifreiða. “Eitt ár til og frá getur ekki skipt miklu máli,” kann einhver að hugsa. Enn þá má vísa aftur í fyrirsögn þessa pistils.

Það eru auðvitað fleiri hlið á þessu máli. Ábyrgðartilfinning vex oft með aldri og það er eiginleiki sem gott er að ökumenn hafi sem mest af. En, enn og aftur, verðum við að vega þetta og meta. Er réttlætanlegt að hækka bílprófsaldurinn upp um eitt ár og tapa um leið ári af verðmætum tíma þar sem heilinn okkar en enn mjög móttækilegur fyir nýrri tækni og þekkingu?

Miðað við þetta allt saman væri eflaust best að kenna fólki að keyra sem fyrst þó menn þurfi ekki að hleypa því út almenna umferð sem fyrst. Það var stigið jákvætt skref fyrir nokkrum árum þegar æfingaakstri var komið á geta menn nú æft sig reglulega á bíl frá sextán ára aldri. Sums staðar í Bandaríkjunum hafa yngri ökumenn heimild til að keyra aflminni bílum á ákveðnum svæðum, á ákveðnum tímum. Það er spurning hvort við ættum ekki frekar að stíga skrefið í þá átt með það að markmiði til að auka færni ungra ökumanna, fremur en að beita enn og aftur hinum dæmigerðu skandinavísku barnfóstrurökum.

Leave a Reply

Your email address will not be published.