19, 20, 21 …

Swindon-hringtorgið alræmda, með fimm undirhringtorgum og öfugu, hægriumferðarhringtorgi í miðjunni. Pant taka bílprófið þarna!

Nýlega var lagt fram á Alþingi frumvarp um hækkun bílprófsaldurs upp í átján ár. Ein helstu rök fyrir slíkum breytingum eru oft þær að ökumenn á aldrinum 17-18 ára valdi hlutfallslega flestum umferðarslysum.

Með sambærilegri röksemdarfærslu má komast ansi langt. Þegar áðurnefnd breyting verður genginn í garð mun einhver rannsókn sýna, öllum að óvörum, að aldurshópurinn 18-19 sé nú sá sem flestum slysunum valdi. Þá verður kannski krafan að hækka hann upp í 19 ár, eða jafnvel 20, til að „samræma við áfengiskaupaaldurinn“.

Ég ætla ekki að halda því fram að þeir sem mæli fyrir hækkun bílprófsaldurs hyggist ætla að hækka hann áfram endalaust. Né heldur ætla ég halda því fram að flutningsmenn frumvarpsins séu það skyni skroppnir að þeir átti sig ekki á því að færni ökumanns sé eitthvað sem þjálfast með tíma og því sé eðlilegt að yngsti hópurinn sé ávallt með hlutfallslega verstu slysatíðni. En hins vegar lyktar þetta af fréttainnblásnum popúlisma, menn heyra um alvarleg slys meðal ungmenna eða verða vitni að glæfraakstri þeirra og hugsa með sér: „Eitthvað verður að gera!“

En vonandi gleyma menn ekki því að við verðum sjaldnast betri í einhverju ef við lærum það seinna. Það er auðveldara að læra erlend tungumál fyrr en seinna. Það er auðveldara að læra að hjóla ungur en gamall. Afreksmenn í íþróttum hefja oftast þjálfun strax á unga aldri. Sömu lögmál hljóta að gilda þegar kemur að akstri bifreiða. „Eitt ár til og frá getur ekki skipt miklu máli,“ kann einhver að hugsa. Enn þá má vísa aftur í fyrirsögn þessa pistils.

Það eru auðvitað fleiri hlið á þessu máli. Ábyrgðartilfinning vex oft með aldri og það er eiginleiki sem gott er að ökumenn hafi sem mest af. En, enn og aftur, verðum við að vega þetta og meta. Er réttlætanlegt að hækka bílprófsaldurinn upp um eitt ár og tapa um leið ári af verðmætum tíma þar sem heilinn okkar en enn mjög móttækilegur fyir nýrri tækni og þekkingu?

Miðað við þetta allt saman væri eflaust best að kenna fólki að keyra sem fyrst þó menn þurfi ekki að hleypa því út almenna umferð sem fyrst. Það var stigið jákvætt skref fyrir nokkrum árum þegar æfingaakstri var komið á geta menn nú æft sig reglulega á bíl frá sextán ára aldri. Sums staðar í Bandaríkjunum hafa yngri ökumenn heimild til að keyra aflminni bílum á ákveðnum svæðum, á ákveðnum tímum. Það er spurning hvort við ættum ekki frekar að stíga skrefið í þá átt með það að markmiði til að auka færni ungra ökumanna, fremur en að beita enn og aftur hinum dæmigerðu skandinavísku barnfóstrurökum.

Meðalgóðum háskóla drekkt í peningum

Á dögum undirritaði Menntamálaráðherra samning um stóraukin fjarframlög til rannsókna við Háskóla Íslands. Þó að efling rannsókna og framhaldsnáms sé nákvæmlega það eina sem hægt og nauðsynlegt er að gera til að bæta stöðu skólans í samanburði við aðra, er alls óvíst að flöt innborgun inn á reikning skólans skili miklu. Eða allavega eins miklu og aðrar aðferðir.

Í grein sem ég skrifaði í fyrra, kom fram að Háskóli Íslands þyrfti að fimmfalda rannsóknarafköst sín fimmfalt til að komast á lista yfir bestu 500 skóla í heimi, svo við tölum nú ekki um topp 100 listann. Þrátt fyrir að alltaf megi afsaka sig með fámenninu, getur það ekki annað en valdið miklum vonbrigðum að hundrað ára gamall háskóli skuli ekki standa betur að vígi.

Það er auðvitað ekki svo staðan hafi verið alslæm. Ef ég lít til dæmis á þær greinar þar sem ég þekki best til, raunvísindin, þá hafa nemendur Háskólans oft staðið sig ágætlega þegar kemur að því að komast í og stunda nám við fremstu skóla heims. HÍ hefur þannig staðið sig sæmilega sem grunnámsstofnun, en varla mikið meira en það, hingað til. Ég varð til dæmis sá fyrsti til að útskrifast með M.S. gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands. Það gerðist í vorið 2005, en stærðfræði hefur verið kennd í Háskólanum í yfir 30 ár. Reyndar heyrði ég kennara eitt sinn segja á fundi að það væri í sjálfu sér hægt að hafa eitthvað mastersprógram fyrir fólkið sem kæmist ekki til útlanda, en að við ættum ekki að fókusera mikið á þetta.

Með slíkum viðhorfum, sem vonandi eru á undanhaldi, mun auðvitað aldrei takast að koma Háskóla Íslands úr startholunum sem rannsóknarháskóla, hvað þá að koma honum í hina margnefndnu „fremstu röð“. Hér kemur að hinni sársaukafullu staðreynd sem starfsfólk Háskólans þarf að horfast í augu við: Ef takast á að koma HÍ í fremstu röð, þarf starfsfólk í fremstu röð og það þýðir að heilmargir núverandi starfsmenn Háskólans munu þurfa að leita sér að annarri vinnu.

Slappt rannsóknarfólk verður ekki betra þótt einhver drekki því í peningum. Því miður vita allir sem þekkja til starfsemi Háskólans að rannsóknarmenn sem ekki hafa birt grein svo áratugum skiptir, og menn sem nota rannsóknarleyfi sem venjuleg leyfi, eru allt of algeng sjón.

Vafalaust mun hin nýtilkomna innspýting fjármagns skila einhverju, vonandi sem mestu, til rannsókna í Háskólanum. Hins vegar hefði mun betra að nota þetta fé í samkeppnissjóði sem allt rannsóknarfólk á landinu gæti keppt um. Það gefur augaleið að peningar sem menn þurfa vinna fyrir eru betur nýttir en peningar sem menn fá gefins. Með því að láta Háskólann keppa um fé við aðra skóla mundum við hvetja hann til að ráða til sín eins hæft rannsóknarfólk og völ er á, því aðeins slíkt fólk mundi tryggja honum stærstan skerf þess rannsóknarfés sem stæði til boða. Með nýgerðum samningi skiptir í raun litlu máli hvaða rannsóknarfólk skólinn mun reyna fá til liðs við sig. Umbunin hefur þegar verið ákveðin.

Risasamrunar stjórnmálaársins

Þegar líður að kosningum dregur oft til tíðinda á stjórnmálasviðinu. Flokkar sameinast og klofna. Gamlir þingmenn hætta, einstaklega vondir þingmenn falla í prófkjörum og utanveltubesefar reyna koma sér á lista hjá slappari framboðum.

Stærsti og frægasti risasamruni seinasta árs var auðvitað samruni Frjálslynda flokksins og Nýs afls. Margrét Sverrisdóttir er reyndar ekki sátt við þessa tilhögun og vill meina að flokkurinn sé ekki nógu stór fyrir bæði hana og Jón Magnússon. Það mun vera sannleikskorn í þessu, því stór er hann vissulega ekki.

Í öðru lagi ber að nefna sameiningu Flokks útlendinga og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Nýi flokkurinn mun heita „Vinstri hreyfingin – grænt framboð“. Ég veit raunar ekki hvort fyrrnefndi flokkurinn hafi verið samsettur af öðru en formanni og nokkrum fréttum um áætlaða stofnun hans. En það er raunar gott og jákvætt að þeir sem að honum standa hafi fundið sér stað í pólitíska litrófinu, því auðvitað ættu útlendingar ekki að þurfa sérflokk, né heldur eru þeir það einsleitur hópur að skoðanir geti mótast í einum flokki.

Það er raunar forvitnileg staðreynd að áður hefur verið til flokkur á Íslandi þar sem mjög margir „útlendingar“ voru í framboði. Hann hét Húmanistaflokkurinn.

Það verður gaman að sjá hvort fleiri risasamrunar séu á leiðinni á kosningavetrinum. Mun Frjálshyggjufélagið ákveða að Íhaldið sé þrátt fyrir allt skásti kosturinn og hver veit nema að Þjóðarhreyfingin kjósi að styðja við bakið á einhverju framboði í næstu kosningum. Og hvaða framboð skildi það nú vera?

Það er raunar mjög forvitnilegt að skoða hvernig samrunar flokka hafi áhrif á fylgið eftir á en niðurstaðan verður sjaldan sú að fylgi þeirra flokka sem fyrir eru leggist saman. Kjósendur meta þá kosti sem standa til boða hverju sinni. Það getur vel verið að einhver þeirra sem bætist við fæli frá kjósendur sem gætu vel hugsað sér að kjósa einhvern annan í framboðinu.