Róttæklingur fokkar upp ártali

Liðins árs má eflaust minnast fyrir ýmislegt, en ef menn skortir hugmyndir þá geta þeir minnst þess sem ársins þegar Múrinn klúðraði ártali. Og ekki hvaða ártali sem er. Við erum að tala um ártal í sögu Suður-Ameríku, meintri ljónagryfju íslenskrar vinstribesservisku.

„Fallinn er Óli fígúra í Chile“ sagði menntaskólakennari nokkur daginn eftir að einræðisherrann Augusto Pinochet hafði tapað þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi völd árið 1989. Nemendur hans fengu frí þann daginn. Pinochet var eitt af mörgum fórnarlömbum þess að járntjaldið féll um þær mundir.[…]” – Sverrir Jakobsson sagnfræðingur í pistli á Múrnum.

Hingað til hef ég talið mig geta treyst auðtjekkanlegum staðreyndum, eins og ártölum eða nöfnum höfuðborga, þegar um skrif róttæklinga um suðurameríska sögu hefur verið að ræða. Ég meina, þegar ástríðan og þráhyggjan á málaflokknum er slík, gerir maður hálfpartinn ráð fyrir því að þekkingin fylgi. En þar sem ég var sjálfur að vinna að pistli um Chile á þessum tíma skoðaði ég málið nánar, og viti menn, Wikipedíur allra tungumála vildu meina að umrædd þjóðaratkvæðagreiðsla hafi farið fram í október 1988, en ekki árið 1989.

Vissulega gæti hér verið um sakleysislega innsláttarvillu að ræða. Tölurnar 8 og 9 liggja, jú, skammt hvor frá annarri á flestum vestrænum lyklaborðum.

Það er hins vegar verra að Sverrir kýs að nota þessa innsláttarvillu sína til að rökstyðja öfugt orsakasamband milli hruns járntjaldsins og endaloka Pinochets. Staðreyndin er hins vegar sú að kommúnisminn í Austur-Evrópu féll seinni hluta ársins 1989, átta til fjórtán mánuðum eftir sigur lýðræðisaflanna í Chile á fasistahyskinu þar. Vissulega lá ýmislegt í loftinu á þessum tíma, en engan óraði fyrir hve hröð þróunin handan Járntjaldsins mundi verða.

Þegar leiðtogar Samstöðunnar í Póllandi höfðu, vorið 1989, knúið fram hálflýðræðislegar kosningar, lögðu þeir af stað í kosningabaráttuna með von um að hljóta um það bil 5% allra þingsæta. Kommúnistarnir sjálfir óttuðust víst mest að Samstaðan mundi ekki fá neitt einasta þingsæti, því það mundi líta svo illa út á álþjóðavettvangi. Þessa má geta að Lech Walesa og félagar ryksuguðu upp öll þingsætin í Efri deild og náðu öllum þeim 35% sæta í Neðri deild sem þeir höfðu rétt á. Niðurstaðan kom flestu í opna skjöldu, og jafnvel þurfti að breyta kosningalögum fyrir seinni umferð kosninganna því þáverandi löggjöf gerði ekki ráð fyrir slíku bursti og ekki hefði verið hægt að manna öll sæti á þinginu að óbreyttu.

Það er því eflaust fremur svekkjandi fyrir Chilebúa að komast að því að þeir hafi einungis fylgt í kjölfarið á Austur-Evrópuþjóðum og að Pinochet hafi verið fórnarlamb einhvers annars en frelsisþrár sinnar eigin þjóðar. Sérstaklega að þegar kosningin fór fram sátu margar kommúnistastjórnirnar sem fastast og enn var verið að skjóta á fólk sem reyndi að flýja yfir Múrinn.

Það er kannski í takt við þá söguskoðun að allt sem miður fer í Suður-Ameríku sé Könum að kenna, að loksins þegar eitthvað jákvætt gerist þá hljóti það að vera Slövum að þakka. Hver gæti trúað því að Chilebúar gætu gert eitthvað sjálfir?

Allt er í heiminum hverfult. Lengi vel var “hagfræði” efst á lista yfir hluti sem Múrinn gat ekki fjallað um án þess að klúðra einhverju. Það kemur mér verulega á óvart að “saga Suður-Ameríku” skildi nú bætast við þann lista.

Verulega vondur gaur deyr

Sovéskir kvikmyndagerðarmenn voru að gera mynd um manngæsku Stalíns. Í einu atriði gengur lítill strákur að leiðtoganum og spyr:

„Áttu brjóstsyk handa mér, Jósep frændi?“

„Farðu í rassgat,“ svarar Stalín.

Á augabragði er myndavélinn beint að risavöxnu skilti sem á stendur: HANN GAT DREPIÐ!

– gamall austantjaldsbrandari –

Nú liggur engin vafi á því að Augusto Pinochet hafi verið, eins og flestir einræðisherrar, verulega vondur karl. Hann ber ábyrgð á morðum og pyntingum á þúsundum einstaklinga og hann hélt þjóð sinni í gíslingu í sextán ár.

Og jafnvel þótt maður samþykki þá greiningu á ástandinu að Salvador Allende hafi verið búinn að búta niður lýðræðisskipulagi og efnahag landsins á þeim þremur árum sem hann hafði gegnt embætti forseta, jafnvel þótt maður viðurkenni tsjilíska þingsins um að kalla á herinn til að koma á lögum og reglu í landinu hafi verið rétt og lögmæt, þá er auðvitað ekkert sem réttlætir þann óskapnað sem átti sér stað seinna meir.

Það er auðvitað ekki hægt að nota 3ja ára óstjórn kommúnista til að réttlæta 16 ára harðstjórn. Það er ekki hægt að nota ólöglegar landtökur og þjóðnýtingar til að rökstyðja morð, kúgun og pyntingar. Hugsanlega hefði þetta verið fyrirgefanlegt ef þingið hefði fengið afhent völdin innan skamms tíma og boðað hefði verið til kosninga, en það stóð auðvitað aldrei til.

Pinochet á sér hins vegar málsvörn. Hann missti völdin eftir þjóðaratkvæðagreiðslu 1988. Kim Jong Il mun ekki missa völdin í þjóðaratkvæðagreiðslu, Saddam Hussein mun ekki missa völdin í þjóðaratkvæðagreiðslu. Annar suðuramerískur leiðtogi sem nú liggur við dauðans dyr á eyju í karabíska hafinu er heldur ekki líklegur til að tapa kosningum á allra næstu árum.

Því kannski sama hve vondir menn eru þá eiga þeir samt alltaf smá virðingu skilið ef þeir kunna að hætta með sæmilegri sæmd og láta völdin af hendi án þess að blóð fossi. Margir austurevrópskir leiðtogar eiga þakkir skilið fyrir að beita ekki hervaldi í lok níunda áratugarins heldur að gefa eftir. Pinochet er kannski svipað dæmi. Það er ekki hægt að segja margt gott um hann nema kannski það sama og í brandaranum um góðmennsku Stalíns.

Hann hefði getað drepið (meira).

Atvinnuhagfræði Zenons

Fyrir nokkru las ég viðtal við forsvarsmann í verkalýðshreifingunni sem taldi að lágmarkslaun þyrftu að hækka um 20 % í næstu kjarasamningum og þá mundu þau samt einungis ná meðallaunum í landinu.

Í samtali við nokkra kunningja mína komumst við að þeirri niðurstöðu að líklegast væri varla til skorinorðari lýsing á markmiðum jafnaðarstefnu en þessi krafa, þ.e.a.s. krafan um að lágmarkslaun og meðallaun yrðu þau sömu. Og rétt eins og jafnaðarstefnan sjálf þá hljómar þessi krafa afskaplega vel því auðvitað óskar maður engum þeirrar ólukku að laun hans verði lægri en meðallaun.

En rétt eins og jafnaðarstefnan sjálf þá hefur einnar setningar útgáfa hennar við ákveðinn vanda að etja: hún samræmist ekki almennri rökhugsun. Í þessu tilfelli hrasar krafan á þeim stærðfræðilegu eiginleikum meðaltals að þurfa vera fyrir ofan sumar tölur en fyrir neðan aðrar.

Það blasir nefnilega við að til að einhver þiggi laun sem eru jöfn meðallaunum, þarf einhver annar að þiggja hærri laun og einhver enn annar lægri laun. Ef lágmarkslaun eru hækkuð þá hækka meðallaunin líka. Þau munu þá eflaust ná gömlu meðallaununum en nýju meðallaunin verða mun hærri. En þá má víst alltaf endurtaka sömu kröfu í næstu kjarasamningum!

Þetta minnir óneitanlega á þekkta þversögn Zenons: Akkiles mun aldrei ná skjaldbökunni þótt hann hlaupi 10 sinnum hraðar, því þegar hann nær þeim stað sem hún var þegar hann hóf hlaupið mun skjaldbakan hafa hreyfst fram um nokkra metra. Hann hleypur því að þeim stað sem hún er nú á, og missir aftur af henni. Svona gengur þetta endalaust fyrir sig.

Á sama hátt mun aldrei takast að koma því þannig fyrir að engin í þjóðfélaginu hafi það undir meðallagi gott. Eina leiðin til að lágmarkslaun nái meðallaunum er að allir verði með sömu laun, sem er raunar einmitt markmið jafnaðarstefnunnar. En þótt þeim markmiðum verður aldrei náð má auðvitað alltaf reyna. Og ef ríka liðið sættir sig ekki við sömu laun og strætóbílstjórinn þá getur það bara farið til útlanda. Ó, hve gott væri Ísland án ríka liðsins!