Nöldrin þagna?

Það er alltaf gott fyrir fólk að hafa eitthvað til að nöldra yfir. Jólaundirbúningurinn, sem nú fer í gang, er tímabil mikils nöldurs: Sumum finnst ömurlegt að aðrir skreyti húsin sín. Aðrir prumpupumpa út sér blammeringum á búðir sem auglýsa jólavörur of snemma, enn aðrir finna sinn innblástur í því að rétt fyrir jólin komi margar bækur út á skömmum tíma. Svei!

Já, því miður virðast hugmyndafræði furðumargra byggjast á svokallaðri SLD – gagnrýni, það er að segja þeirri áráttu að amast við öllu því sem byrjar snemma, varir lengi og virðist dýrt. Til allrar hamingju hefur SLD- gagnrýnin ekki látið stýra löggjöf um jólahald enn. Enn má setja upp jólaseríur í nóvember, bókaútgáfu að hausti hafa ekki verið settar neinar skorður, og enn bólar ekkert á launatengdu þaki á útgjöld hvers og eins til flugelda og jólahalds. Aðrar greinar þjóðlífsins fá þó ekki að vera jafnmikið í friði.

Nú er að ljúka hrinu prófkjara á landinu. Síðasta prófkjörinu hjá Sjálfsstæðisflokknum lauk á laugardaginn og Vinstri-Grænir ætla að halda sitt “rófpjök” um næstu helgi. Fyrir stjórnmálaáhugamenn er þetta, líkt og jólaösin, skemmtilegur tími, þótt endalaust nöldur ýmissa kverúlanta skemmi vissulega aðeins fyrir. Fjölmargir, og þá sér í lagi lúserar í prófkjörum, koma fram og syngja hinn gamalkunna söng: Prófkjörsbaráttan byrjar snemma, varir lengi og virðist dýr.

Nokkrir framamenn Frjálslyndra nöldruðu út af prófkjörum í Silfrinu fyrir tveimur helgum síðan. Það er auðvitað auðvelt að tilheyra flokki, þar sem meðlimir í hverju kjördæmi fylla út í skólastofu á góðum degi, og telja sig vita sannleikann varðandi uppraðanir á lista. Annar lúser, Valdimar Leó, fékk líka að þenja nöldurshornið í þættinum viku seinna. Fannst prófkjör vond leið til að raða á lista. Þetta hlýtur að vera rétt, fyrst hún sniðgengur hæfileikamenn eins og Valdimar Leó, þingmanninn sem ég heyrði fyrst um í Silfrinu fyrir viku síðan.

En nú á að sporna við þessum miklu prófkjörsútgjöldum. Engu máli skiptir þótt hin svæsnasta prófkjörsbarátta kosti líklegast varla meira en kynning á jólabók. Það er semsagt skárra að útbrunninn stjórnmálamaður spreði fé til að kynna bók þar sem hann skýri frá því sem hann vill meina að hann hafi gert, en að ungur stjórnmálamaður eyði fé til að kynna það sem hann hyggst gera.

Því miður virðast SLD-nöldurseggirnir ætla að vinna þennan slag. Þetta þýðir að enn erfiðara verður fyrir nýliða að koma sér inn í stjórnmálin. Sitjandi þingmenn hafa gert stöðu sína sterkari. Það er spurning hvort nöldrið muni þá loksins þagna…?

Leave a Reply

Your email address will not be published.