Nöldrin þagna?

Það er alltaf gott fyrir fólk að hafa eitthvað til að nöldra yfir. Jólaundirbúningurinn, sem nú fer í gang, er tímabil mikils nöldurs: Sumum finnst ömurlegt að aðrir skreyti húsin sín. Aðrir prumpupumpa út sér blammeringum á búðir sem auglýsa jólavörur of snemma, enn aðrir finna sinn innblástur í því að rétt fyrir jólin komi margar bækur út á skömmum tíma. Svei!

Já, því miður virðast hugmyndafræði furðumargra byggjast á svokallaðri SLD – gagnrýni, það er að segja þeirri áráttu að amast við öllu því sem byrjar snemma, varir lengi og virðist dýrt. Til allrar hamingju hefur SLD- gagnrýnin ekki látið stýra löggjöf um jólahald enn. Enn má setja upp jólaseríur í nóvember, bókaútgáfu að hausti hafa ekki verið settar neinar skorður, og enn bólar ekkert á launatengdu þaki á útgjöld hvers og eins til flugelda og jólahalds. Aðrar greinar þjóðlífsins fá þó ekki að vera jafnmikið í friði.

Nú er að ljúka hrinu prófkjara á landinu. Síðasta prófkjörinu hjá Sjálfsstæðisflokknum lauk á laugardaginn og Vinstri-Grænir ætla að halda sitt „rófpjök“ um næstu helgi. Fyrir stjórnmálaáhugamenn er þetta, líkt og jólaösin, skemmtilegur tími, þótt endalaust nöldur ýmissa kverúlanta skemmi vissulega aðeins fyrir. Fjölmargir, og þá sér í lagi lúserar í prófkjörum, koma fram og syngja hinn gamalkunna söng: Prófkjörsbaráttan byrjar snemma, varir lengi og virðist dýr.

Nokkrir framamenn Frjálslyndra nöldruðu út af prófkjörum í Silfrinu fyrir tveimur helgum síðan. Það er auðvitað auðvelt að tilheyra flokki, þar sem meðlimir í hverju kjördæmi fylla út í skólastofu á góðum degi, og telja sig vita sannleikann varðandi uppraðanir á lista. Annar lúser, Valdimar Leó, fékk líka að þenja nöldurshornið í þættinum viku seinna. Fannst prófkjör vond leið til að raða á lista. Þetta hlýtur að vera rétt, fyrst hún sniðgengur hæfileikamenn eins og Valdimar Leó, þingmanninn sem ég heyrði fyrst um í Silfrinu fyrir viku síðan.

En nú á að sporna við þessum miklu prófkjörsútgjöldum. Engu máli skiptir þótt hin svæsnasta prófkjörsbarátta kosti líklegast varla meira en kynning á jólabók. Það er semsagt skárra að útbrunninn stjórnmálamaður spreði fé til að kynna bók þar sem hann skýri frá því sem hann vill meina að hann hafi gert, en að ungur stjórnmálamaður eyði fé til að kynna það sem hann hyggst gera.

Því miður virðast SLD-nöldurseggirnir ætla að vinna þennan slag. Þetta þýðir að enn erfiðara verður fyrir nýliða að koma sér inn í stjórnmálin. Sitjandi þingmenn hafa gert stöðu sína sterkari. Það er spurning hvort nöldrið muni þá loksins þagna…?

Frasistar

Það er alveg hárrétt að hin pólitíska umræða um útlendinga og innflytjendur á Íslandi hefur ekki verið sérstaklega margvíð hingað til. Á undanförnum tveimur áratugum hefur einfaldlega myndast ákveðin sátt um þessi mál og flestir flokkar og frambjóðendur hafa geta afgreitt þau með svipuðum, pólitískt réttum, hætti. En Frjálslyndir eru þar engin undantekning.

Leggja þarf aukna áherslu á íslenskukunnáttu innflytjenda til að auðvelda þeim
þátttöku í íslensku þjóðfélagi. Tryggja ber að þessi hópur njóti félagslegs jafnréttis
og geti tekið fullan þátt í samfélaginu, öllum til hagsbóta.

Íslenskt þjóðfélag mun í framtíðinni að hluta til verða myndað af hópum fólks
sem á rætur að rekja til ólíkra menningarheima. […]
tilkoma fólks af erlendu bergi brotið leiði[r] til víðsýni meðal þjóðarinnar og [eykur]
samkeppnishæfni hennar á alþjóðavettvangi. [Úr málefnahandbók Frjálslynda flokksins, janúar 2006]

Sem sagt, útlendingar eru fínir en það verður að taka vel á móti þeim. Já, og þeir ættu að læra íslensku. Frekar rökrétt allt saman. Þetta er svona eins og að prenta setninguna „hlúa ber vel að öldruðum“ inn í kosningabæklinginn sinn. Segir ekki neitt en samt kjósa allir að hafa þetta með.

Það má kannski segja það sama um málefni aldraða, útlendingamál og raunar mjög mörg önnur mál sem stjórnmálamenn taka sér fyrir hendur: umræðan verður oft ekki sérstaklega hnitmiðuð: Einhver einn kemur og segir að efla beri íslenskukennslu, einhver annar kemur segir það aðeins hærra, sá þriðji hneykslast á því hve illa það sé gert nú. Auðvitað þarf frekar að svara spurningum á borð við hver á að borga fyrir íslenskukennsluna, hver á að sjá um hana, hvernig á að umbuna þeim sem leggja á sig námið?

Það sem við þurfum ekki er enn einn frasinn á borð við „staldra ber við og huga að því hvernig samfélag við viljum að hér þróist.“ Í stað þess að fleygja fram fleiri fleiri kryptískum setningum gætu Jón og Magnús byrjað á því að svara spurningunni sjálfir:

Hvernig samfélag vilja þeir að hér þróist?

Hver veit nema að þeir svari með einhverri bombu á borð við: „Þróttmikið samfélag með duglegu fólki sem stolt er af arfleifð sinni og menningu.“ Eða eitthvað álíka konkret…