Óþorandi þingmenn

Frumvarp um afnám einkasölu Ríkisins á áfengi hefur verið lagt fram í fjórða skipti á jafnmörgum þingum. Það er mjög miður að svona spennandi og mikilvæg mál eins og þetta komist aldrei á dagskrá, meðan þingsályktunartillögur um brúargerð og fyrirspurnir um hlutfall íslenskrar tónlistar á öldum ljósvakans hljóta alltaf náð fyrir augum þeirra sem ákveða hvaða mál séu rædd.

Íslenskir þingmenn þora oft ekki að gefa upp afstöðu sína í siðferðismálum. Þess vegna eru þeir alltaf til í að ræða hluti sem falla vel að stefnum flokka þeirra. Verra er þegar fólk þarf að ræða um lífsskoðanamál. Á sjálfráða fólk að kaupa sér áfengi? Á að vera hægt að kaupa rauðvín út í búð? Eiga samkynhneigðir að ættleiða börn? Eiga þeir að fá að giftast í kirkju? Á að leyfa box? Á að banna reykingar á skemmtistöðum?

Það virðist almennt vera sem mun auðveldara sé að fá þingheim til að ræða “leiðinleg mál” en skemmtileg. Sjálfum þætti mér gaman að vita hvaða þingmenn styðji afnám einkasölu ríkisins á áfengi. En ég er orðinn svartsýnn á það að ég muni nokkurn tímann í bráð sjá úrslit úr atkvæðagreiðslu þar sem ég fæ svart á hvítu séð hverjir styðji þetta mál.

Það er auðvitað þægilegt fyrir þingmenn að flekka ekki mannorð sitt með allt of mörgum skoðunum sem þeir þurfa að svara fyrir og verja í framtíðinni. Best er auðvitað að geta svarað með frösum eða lagt til að “hlutirnir verði skoðaðið vel og vandlega”.

Það er hins vegar algjörlega ólíðandi fyrir okkur kjósendur að menn komist upp með það að gefa ekki upp afstöðu sína í málum sem eru það einföld að allir sem starfa að stjórnmálum ættu að vera búnir að mynda sér skoðun á.

Eftirfarandi þingmenn er meðflutningsmenn með frumvarpi um afnám einkasölu á bjór og léttvínum:

Guðlaugur Þór Þórðarson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Sigurður Kári Kristjánsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Pétur H. Blöndal, Birkir J. Jónsson, Einar Már Sigurðarson, Katrín Júlíusdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Gunnar Örlygsson, Ásta Möller,
Sigurrós Þorgrímsdóttir.

Þetta eru 14 þingmenn. Ég geng út frá að hinir 49 séu málinu andvígir. Ef einhver þingmaður les þetta og vill leiðrétta þennan skilning minn eða á einhvern annan hátt árétta afstöðu sína í málinu, þá er honum velkomið að senda mér línu, með því að smella á póstfangið mitt fyrir neðan.

Leave a Reply

Your email address will not be published.