Óþorandi þingmenn

Frumvarp um afnám einkasölu Ríkisins á áfengi hefur verið lagt fram í fjórða skipti á jafnmörgum þingum. Það er mjög miður að svona spennandi og mikilvæg mál eins og þetta komist aldrei á dagskrá, meðan þingsályktunartillögur um brúargerð og fyrirspurnir um hlutfall íslenskrar tónlistar á öldum ljósvakans hljóta alltaf náð fyrir augum þeirra sem ákveða hvaða mál séu rædd.

Íslenskir þingmenn þora oft ekki að gefa upp afstöðu sína í siðferðismálum. Þess vegna eru þeir alltaf til í að ræða hluti sem falla vel að stefnum flokka þeirra. Verra er þegar fólk þarf að ræða um lífsskoðanamál. Á sjálfráða fólk að kaupa sér áfengi? Á að vera hægt að kaupa rauðvín út í búð? Eiga samkynhneigðir að ættleiða börn? Eiga þeir að fá að giftast í kirkju? Á að leyfa box? Á að banna reykingar á skemmtistöðum?

Það virðist almennt vera sem mun auðveldara sé að fá þingheim til að ræða „leiðinleg mál“ en skemmtileg. Sjálfum þætti mér gaman að vita hvaða þingmenn styðji afnám einkasölu ríkisins á áfengi. En ég er orðinn svartsýnn á það að ég muni nokkurn tímann í bráð sjá úrslit úr atkvæðagreiðslu þar sem ég fæ svart á hvítu séð hverjir styðji þetta mál.

Það er auðvitað þægilegt fyrir þingmenn að flekka ekki mannorð sitt með allt of mörgum skoðunum sem þeir þurfa að svara fyrir og verja í framtíðinni. Best er auðvitað að geta svarað með frösum eða lagt til að „hlutirnir verði skoðaðið vel og vandlega“.

Það er hins vegar algjörlega ólíðandi fyrir okkur kjósendur að menn komist upp með það að gefa ekki upp afstöðu sína í málum sem eru það einföld að allir sem starfa að stjórnmálum ættu að vera búnir að mynda sér skoðun á.

Eftirfarandi þingmenn er meðflutningsmenn með frumvarpi um afnám einkasölu á bjór og léttvínum:

Guðlaugur Þór Þórðarson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Sigurður Kári Kristjánsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Pétur H. Blöndal, Birkir J. Jónsson, Einar Már Sigurðarson, Katrín Júlíusdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Gunnar Örlygsson, Ásta Möller,
Sigurrós Þorgrímsdóttir.

Þetta eru 14 þingmenn. Ég geng út frá að hinir 49 séu málinu andvígir. Ef einhver þingmaður les þetta og vill leiðrétta þennan skilning minn eða á einhvern annan hátt árétta afstöðu sína í málinu, þá er honum velkomið að senda mér línu, með því að smella á póstfangið mitt fyrir neðan.

Íslenska 1A

Íslendingar hafa lengi kennt útlendingum að íslenska sé erfitt mál, í stað þess að telja þeim trú um að hún sé auðveld.

Líklegast mundu flestir reka upp stór augu ef þeir læsu að besta leiðin til að bæta samgöngurnar í Reykjavík væri að kaupa fleiri neðanjarðarlestir í Borgina. „Það eru, jú, ekki einu sinni teinar í Reykjavík!“ mundi einhver segja. Svipuð staða er uppi á teningnum varðandi íslenskukennslu útlendinga. Stoðkerfið er ekki til staðar.

Þegar rætt er um slaka útkomu íslenskra grunnskólanemenda í stærðfræði verður niðurstaðan sjaldnast sú að íslensk börn séu heimskari en börn annars staðar í heiminum. Raunar verður flestum ljóst að helsta leiðin til að bæta árangurinn sé að bæta menntun stærðfræðikennara. Með svipuðum hætti ættu flestir að sjá að lykillinn, eða alla vega forsenda þess, að bæta tungumálakunnáttu nýrra Íslendinga, sé að efla menntun þeirra sem kenna hana. En hér stendur (fyrsti) hnífurinn í kúnni. Engin slík menntun er til staðar í landinu.

Það ætti að vera algjört forgangsverkefni að bjóða upp á slíkt nám innan Háskóla Íslands eða einhvers hinna háskólanna. Án þess, og án almennilegrar rannsóknarstofnunar á sviði kennslu á íslensku sem erlends mál, lendum við aftur í járnbrautardæminu: við höfum ekki einu sinni neitt til að efla.

Meðan við komum okkur upp sérþekkingu í kennslu á okkar eigin máli er vert að huga að því hvernig við tryggjum það, sem svo mörgum er umhugað um: að útlendingar á Íslandi læri íslensku. Hér má annaðhvort fara leið lagalegrar þvingunar, þ.e.a.s. gera íslenskunám að skyldu (eins og þegar hefur verið gert), eða beita öðrum hvötum. Í rauninni þarf ekki nema að skoða tölur frá Þjóðskrá til að átta sig á hvor leiðin sé vænlegri til árangurs.

Skv. frétt vísis.is voru um 4000 nýjar kennitölubeiðnir afgreiddar í ágúst og september. Þar af voru 1900 Pólverjar um 250 Þjóðverjar og svipað eins af Litháum. Þetta fólk kemur frá EES-svæðinu og verður ekki þvingað til eins eða neins. Það er því aðeins lítið brot þeirra sem nú flytjast til Íslands “þurfa” að læra málið. Hættan er á að aðrir, þ.m.t. Pólverjarnir, Þjóðverjarnir og Litháarnir líti svo á að nú “þurfi þeir ekki” að læra íslensku.

Mikilvægustu verkefni framundan eru að fjölga þeim útlendingum sem kjósa að læra íslensku og búa til þannig markað fyrir kennslu hennar. Einnig þyrfti að koma á viðurkenndum stigsprófum í íslensku sem myndu gera nemendum kleift að meta stöðu sína, færa sig á milli skóla og nýst gætu vinnuveitendum eða skólastofnunum við mat á íslenskukunnáttu tilvonandi starfsmanna eða nemenda.

Um þetta verður fjallað nánar í næstu pistlum.

Pawel Bartoszek

Pawel Bartoszek (2. frá vinstri) matvælafræðingur frá Poznan.

Þetta er líklegast fyrsti pistillinn á Deiglunni sem ber sama nafn og höfundurinn sjálfur. En þrátt fyrir þennan egósentríska titil fjallar pistillinn alls ekki um höfundinn sjálfan heldur um einhverja allt aðra menn.

Fyrir rúmi ári síðan fékk ég ímeil frá Pawel Bartoszek matvælafræðingi frá Poznan. Hann hafði gúglað nafninu upp mínu (já, eða sínu) og vildi vita hvort ég hefði einhverjar pólskar rætur og hver ég eiginlega væri. Hann sendi bréf sitt á ensku en ég svaraði honum á pólsku. Ég fékk reyndar aldrei svar til baka. Kannski er pólskan mín eitthvað gelgjuleg og svo þúaði ég hann líka í stað þess að þéra. En það er bara asnalegt að þéra alnafna sinn, einhvern sem deilir með manni manns helsta einkenni.

Matvælafræðingurinn Pawel Bartoszek hefur verið iðinn að undanförnu. Hann er tíður gestur á ráðstefnum um fæðu og hreinlæti, hann er mikilvægur hlekkur í Evrópsku rammarannsókninni um matvæli og fékk nýlega evrópskan styrk til að kynna sér verkaðferðir CARTIF stofnunarinnar á Spáni. Hér er frétt frá þessari ferð, fyrir þá sem hafa áhuga.

Pawel Bartoszek, markvörður B-liðs SV Körne.

Meðan sumir reyna fyrir sér í hinum nýja evrópska rannsóknarumhverfi Póllands, leggja aðrir land undir fót. Annar Pawel Bartoszek býr í Dortmund Þýskalandi. Hann kom engum vörnum við þegar lið hans, B-lið SV Körne, fékk á sig umdeilda vítaspyrnu í leik á móti Hörder Kickers:

Mit einem überzeugenden Auswärtssieg startete die 2. Mannschaft in die Rückrunde. Tobias Schigowski brachte den Gast dank krassem Torwartfehler in Führung. Hörde spielte mehr für die Galerie und bekam mit dem Halbzeitpfiff einen fragwürdigen Elfmeter. Pawel Bartoszek war ohne Chance.

Reyndar vann Sv Körne leikinn, 1-3 og var það ekki síst fyrir vaska framgöngu Pawels, en markvörslur hans voru í „Weltklasse“ samkvæmt fréttinni. Bæði liðin spila í 3. deild C í héraðsdeild Dortmund borgar.

Pawel Bartoszek, plötusnúður frá Florida.

Í nýlegu viðtali við vefsíðuna www.expressgaynews.com segir plötusnúðurinn Oren Nizri frá samstarfi sínu við Pawel nokkurn Bartoszek, en þeir mixuðu nýlega laginu „Hung Up“ með söngkonunni Madonnu.

Pawel Bartoszek er fæddur í Jaroslaw en fluttist til Bandaríkjana 10 ára gamall. Bæði afi hans og frændi voru virtir tónlistarmenn í sínu heimalandi og þennan áhuga hefur Pawel erft. Hann fékk snemma áhuga á tónlist og lærði á fjölmörg hljóðfæri, t.d. píanó, harmónikku og trommur ásamt því að leggja stund á tónsmíði.

Árið 1996 flutti Pawel til New Jersey og spilaði trommur með ýmsum hljómsveitum en sveið metnaðarleysi annarra listamanna og fór í auknum mæli að einbeita sér að raftónlist og produseringum. Fyrir rúmu ári síðan flutti hann til Miami og hefur verið áberandi í klúbbasenunni síðan.

Það er merkilegt hvernig leiðir fólks liggja stundum saman. Vegna þeirrar áráttu að fletta reglulega upp mínu eigin nafni er ég orðinn áskrifandi að lífshlaupum þriggja einstaklinga sem hafa lítið til saka unnið nema að heita sama nafni og ég.

Nei, nei. Netið er ekki tímaþjófur.

Her fer

En öll él birta upp um síðir, og þó framundan sé óvissa, er þó eitt víst, að bezta ráðið er að standa saman sem einn maður – taka þessu með jafnvægi og ró. Þolinmæðin þrautir vinnur allar, segir gamalt og viturlegt íslenzkt máltæki. Eins og nú á stendur óska ég, að íslenzka þjóðin skoði hina brezku hermenn, sem komnir eru til Íslands, sem gesti og samkvæmt því sýni þeim eins og öðrum gestum kurteisi í hvívetna.

Hermann Jónasson í útvarpsávarpi þann 10. maí 1940.

Það var flott samlíking hjá Hermanni Jónassyni forsætisráðherra að kalla breska hernámsliðið gesti íslensku þjóðarinnar. Hún var auðvitað langt frá því að vera sönn eða nákvæm en flott var hún. Hún gaf mönnum færi á að bera höfuðið hátt, þrátt fyrir litla ástæðu til, verandi hersetnir, ritskoðaðir og öðrum háðir um framtíð sína. En það var móralskt styrkjandi að vera gestgjafi en ekki fangi. Það þykir flottara að vera afinn sem hjálpar ættingjum í neyð, en drykkfelldi frændinn sem þarf að gista í sófanum eftir erfiðan skilnað.

Gestirnir komu og gestirnir ílengdust. Rétt eins og frændinn sem þarf aðeins smá tíma til að finna sér vinnu og íbúð, þurftu okkar gestir að sinna eftirliti á Norður-Atlantshafi og vinna kalda stríðið. Að því loknu fóru þeir í snatri en leyfðu okkur að eiga draslið sitt. Nú eigum við slatta af morknum hermannablokkum og Wendy’s stað. Vei!

Þessi gestasamlíking er ágæt svo langt sem hún nær. En hún nær svona fram á tíunda áratug seinustu aldar. Að loknu kalda stríðinu var lengi ljóst að herinn vildi fara en við skriðum til þeirra á hnjánum og grátbáðum þá um að vera aðeins lengur. Við studdum ruglstríðið þeirra og leituðum að sinnepsgasi fyrir þá. Og ástæðan? Byggðastefna, trompás íslenskrar stjórnmálaumræðu.

Það má þakka hernum um eitt. Þökk sé veru hans hefur umræða um varnarmál aðallega snúist um hvort herinn ætti fara eða vera. Án hans hefði umræðan líklegast snúist um hvort eða hvernig her hér ætti stofna. Og sú umræða hefði getað endað illa, þ.e.a.s. með stofnun fjöldahers sem stelur nokkrum mánuðum úr lífi ungmenna og fræðir þau um tilvist annarra siðferðiskerfa en þeirra sem banna morð. En nú er vonandi orðið of seint fyrir slíkar hugmyndir.

Herinn er farinn. Líklegast er best að taka þessum nýja veruleika, eins og Jónas hefði sagt, með jafnvægi og ró. Með tímanum getum við keypt aðra þyrlu, eða stækkað Víkingasveitina, það mun líklegast dekka allar þær hættur sem við sjálf getum brugðist við. En fyrst þurfum við þó byrja borga fyrir okkar eigin flugvöll. Og fara yfir draslið sem drykkfelldi frændinn leyfði okkur að eiga þegar hann fór.