Prósentur eru ekki fréttir

Það er ekkert nema gaman fyrir okkur tölfræði- og stjórnmálalúða hve margir og hve oft vilja sjá okkur fyrir tölum um fylgi flokka í þessu litla landi. En hins vegar eru þær prósentutölur sem út úr könnununum ekki alltaf tilefni til forsíðufyrirsagna eins og sumir virðast halda.

Maður er farinn að þekkja munstrið vel eftir öll þessi ár. Fyrst að búið er að hringja í 600-1000 manns og ónáða yfir kvöldmatnum telja menn sig knúna til að slá niðurstöðunum upp á forsíðunni. Gott er ef einhver flokkur eða jafnvel heil ríkisstjórn missir mikið fylgi því þá er það efni í fyrirsögn. Ef ekkert af þessu á sér stað þá má alltaf opna með þrumu á borð við: “Fylgi flokka breytist lítið.”

Síðan koma viðtöl við alla stjórnmálaleiðtogana. Þau eru álíka ófyrirsjáanleg, upplýsandi og tilgangsmikil og ef tekinn yrðu viðtöl við bæjarstjóra allra bæja á Íslandi í hvert sem ný veðurspá birtist. Rifjum þetta aðeins upp:

Ef flokkur vinnur vel á mun formaður hans vera ánægður með traustið og segjast, jú viti menn, hafa fundið fyrir töluverðum meðbyr með málstað sínum að undanförnu.

Formaður flokks sem tapar dálitlu fylgi, mun viðurkenna að staðan hafi verið betri, en benda jafnframt á að mörg erfið mál hafi dunið á þeim að undanförnu og engu að síður sé staðan ekki verri. “Það þýðir að grunnfylgið okkar er sterkt,” mun formaðurinn segja.

Formaður flokksins, sem stendur í stað, mun segja að fylgið hafi verið stöðugt að undanförnu. Þetta er án efa kjánalegasta orðagildra af þeim öllum. Stöðugleiki er vissulega góður eiginleiki að hafa, ef maður er bátur eða hjónaband, en stöðugt fylgi er ekki jafnfrábært.

Talsmaður flokks sem tapar miklu fylgi mun líklegast ekki segja að “ákveðin hagræðing hafi átt sér stað í kjósendahóp flokksins að undanförnu.” Hins vegar er hann líklegur til að benda fólki á að “einungis um skoðanakönnun sé að ræða.” Og ef flokkur mælist vart með lífsmörk þá er látið eins og skoðanakannanir séu bara á móti manni. “Við höfum fengið svona slaka útreið áður en samt komum við alltaf vel út út kosningum,” er sagt.

Þegar kosningar nálgast munu þessar umræður vera þéttari og tíðari. Líklegast verður þó hægt að fullyrða fyrir kjördag hver sigrar kosningarnar. Hins vegar munu fjölmiðlamenn (og stjórnmálaleiðtogar) reyna að halda spennunni fyrir okkur. Fólk mun vera duglegt að benda öðru fólki á að eini dómurinn sem skipti máli “sé dómur kjósenda”. Loks mun einhver benda á að fjórðungur eða fimmtungur kjósenda sé enn óákveðinn og sá hinn sami mun halda því fram að þetta hlutfalli sé óvenjumikið nú.

Leave a Reply

Your email address will not be published.