Umræðustjórnmál fá uppreisn æru?

Í vorhefti Þjóðmála, sem kom út fyrr á þessu ári, var að finna grein eftir Jakob F. Ásgeirsson um breytingar á íslensku þjóðerni. Í greininni rekur höfundur prósentutölur um fjölgun útlendinga á Íslandi og undrast það hve litlar umræður um íslenskt þjóðerni þessi fjölgun hefur haft í för með sér.

Ég ætla í sjálfu sér ekki velta mér allt of mikið upp úr grein Ásgeirs, sem að mörgu leyti er ágæt. Það er til dæmis gott að benda á hve velheppnuð hin atvinnumiðaða útlendingastefna Íslendinga hefur verið hingað til, og þetta ítrekað gert í greininni. Áhyggjur greinarhöfundar af skorti á umræðu um íslenskt þjóðerni er hins vegar óþarfar, að mínu mati.

Hér á Deiglunni hafa verið skrifaðar fjölmargar greinar um málefni útlendinga, rasisma, útlendingalög, íslenskukennslu og fleira sem flokka mætti sem umræðu um íslenskt þjóðerni. Þessar greinar hafa oft vakið mikil viðbrögð í fjölmiðlum, mikið hefur verið í þær vitnað og fjölmargir Deiglupennar hafa þurft að fylgja skrifum sínum eftir með viðtölum í ljósvakamiðlum. Skorturinn hefur sem sagt allavega ekki verið alger. Hins vegar hafa þessi skrif vissulega oftast verið á annarri bylgjulengd en þeirri sem flestir þeirra sem koma að útgáfu Þjóðmála liggja.

Þegar Evrópusinnar krefjast aukinnar umræðu um aðild Íslands að ESB gera þeir það ekki bara vegna þess að þeim finnst umræður skemmtilegar heldur vonast þeir til að (jákvæð) umræða stuðli á endanum að aðild landsins að sambandinu. Fólk vill umræðu vegna þess að það vill breytingar. Þess vegna væri fróðlegt að vita hver hin almenna afstaða íhaldsmannanna í Sjálfstæðisflokknum í málefnum “þjóðernis” sé. Því varla er aukin umræða takmark í sjálfu sér.

Það er raunar undarlegt hvernig hinir indælustu frumskógarkapítalistar verða að forhertum tæknikrötum þegar kemur að hlutum eins og ríkisborgararétti eða útgáfu dvalarleyfa. Skyndilega er það orðið að ágætishugmynd að smíða flókið net reglugerða um lágmarkstungumálakunnáttu og ýmsa aðra hluti til að tryggja að engin geti orðið Íslendingur án hæfilega skammts af almennu veseni og peningaútláta.

Ég hef mínar efasemdir um að umræða af því tagi sem Þjóðmál hvetja til mundi endilega vera af hinu góða. Umræður leiða oftast til nýrra laga og reglna um hitt og þetta, sem oft mætti vera án. Ég ítreka það hins vegar að ég ætla ekki að saka þá alla um rasisma sem hafa aðra skoðun í málefnum innflytjenda en ég. En mér finnst satt að segja furðumargir koma út úr skápnum sem reglugerðadýrkendur og tæknikratar þegar kemur að þessum tiltekna málaflokki.

Leave a Reply

Your email address will not be published.