Evrópusambandið er frábært

Um næstu áramót bætast Búlgaría og Rúmenía við raðir Evrópusambandsins. Þá hafa Króatía, Makedónía og Tyrkland sótt um aðild og önnur ríki á Balkansskaga munu nær örugglega fylgja fordæmi þeirra. Á sama tíma eru Bandaríkjamenn að reisa vegg á landamærum við Mexíkó.

Hvað sem ekki verður sagt um Evrópusambandið er vart hægt að neita því að að áhrif þess að þróun lýðræðis og frjáls markaðar í nágrannaríkjum hafa verið góð. Á innan við fimmtán árum tókst fólki í Austur-Evrópu að breyta löndum sínum úr kommúnískum einræðisríkjum í lýðræðisríki með markaðshagkerfi. Og þótt þær breytingar hefðu hugsanlega verið framkvæmanlegar án ESB, mundu þær aldrei geta orðið jafnhraðar. ESB-gulrótin var, og er, ótrúlega áhrifarík leið til að ýta í gegn umbótum sem annars hefði tekið áratugi að koma í framkvæmd.

Það er annars fróðlegt að bera saman stefnu ESB í málefnum Austur-Evrópu við stefnu Bandaríkjanna í málefnum Suður- og Mið-Ameríku. Sú fyrrnefnda gengur út á það að verðlauna góðan árangur á sviðum markaðsmála, stjórnsýslu og mannréttinda með aukinni samvinnu sem endar loks í fullri aðild. Sú síðarnefnda hefur því miður allt of oft snúist um hernaðaríhlutanir og stuðning við harðstjóra.

Bandaríkjunum hefur sem sagt, öfugt við Evrópu, ekki tekist að búa til góða hvata fyrir aðrar þjóðir til að taka upp lög sín. Aðild Mexíkó að Bandaríkjunum kemur auðvitað aldrei til greina og fríverslunarsamningar eru ekki jafnmiklir gersemar í augum almennings og þeir eru í augum hagfræðinga. Venjulegur maður hefur auðvitað mun meiri áhuga á að hann sjálfur komist til útlanda en að einhverjar vörur eða fjármunir geri það.

Líklegast væru margir Mexíkóbúar tilbúnir að láta ýmislegt yfir sig ganga ef það þýddi frjálsa för verkafólks til og frá Bandaríkjunum. En því miður blása vindarnir í Washington ekki beint í þá áttina. Nú er til umræðu að reisa girðingu á stórum hluta landamæranna til að hindra flæði ólöglegra innflytjenda þaðan.

Með því að búa til verðlaunapakka sem eru jafn aðlaðandi fyrir ríkisstjórnir og almenning hefur Evrópusambandinu tekist að skapa þverpólitíska sátt um aðildarviðræðurnar í viðkomandi ríkjum. Þar með urðu margar umbætur, pólitískar sem efnahagslegar, mun auðveldari í framkvæmd en ella hefði orðið. Þetta eitt hefur flýtt umbótum í A-Evrópu um marga áratugi og skapað mikinn stöðugleika á svæðinu öllu.

Fyrir það á ESB miklar þakkir skilið.

Leave a Reply

Your email address will not be published.