Heftur skemmtanamarkaður

Það er algjörlega óskiljanlegt hvers vegna tónlistar- og skemmtanabransinn, sem framleiðir allt þetta svala efni, er eiginlega meira púkó en landbúnaðurinn þegar kemur að fríverslun. Hagsmunaðilar iðnaðins hafa, með hjálp ríkisstjórna, byggt upp flókið kerfi einkaleyfa, höfundarréttargjalda, svæðaskiptinga, innflutningshafta og margfaldrar skattheimtu sem bókstaflega neyða annars löghlýðið fólk til að útvega sér skemmtiefnið á annan, oft vafasaman máta.

Brátt styttist í HM í knattspyrnu. Á Íslandi, eins og annars staðar geta knattspyrnuáhugamenn valið um það að horfa á mótið hjá einu tilteknu fyrirtæki, eða sleppa því alfarið.

Ef kaupa á bók þá er hægt að fara á netið og kaupa hana. Ef menn vilja ferðast með flugvél milli tveggja staða þá er oftast minnsta mál að koma slíku í kring gegnum netið. Bílar, hús, tónleikamiðar, allt er fáanlegt á netinu. En einhvern vegin er netaðgengi að gamaldags afþreyingu, í formi tónlistar, kvikmynda eða sjónvarpsþátta en alveg ótrúlega fábrotið og ávalt háð miklum hömlum.

Ef Íslendingur vill fylgjast með þáttaröðinni 24 þá er honum boðið að kaupa sér áskrift að Stöð 2, bíða í nokkrar vikur eftir að þátturinn rati til Íslands, verði þýddur og síðan sýndur í sjónvarpinu á einhverjum tilteknum tíma. Ef viðkomandi vill hins vegar fylgjast með þáttaröð sem alls ekki er sýnd á Íslandi stendur honum til boða að … gera það ekki.

Sjónvarpsstöðvar heimsins eru enn fastar í einhverju asnalegu kerfi einkaleyfa og hafta. Menn kaupa sér leyfi til að sýna tiltekinn sjónvarpsþátt í ákveðinn tíma og menn kaupa sér einnig einokun, þ.e.a.s. að engin annar í sama landi fái að sýna hann.

Nýlega bárust fréttir af því að breskt fyrirtæki sem sýnir Enska boltann hafi ákveðið að hætta að taka við áskriftargreiðslum frá Íslendingum, enda eiga aðrir sýningarréttinn á Íslandi. Neytendur fá sem sagt ekki sjálfir að ákveða hjá hverjum þeir kaupa vöruna. Líkt og á tímum einokunarverslunar er búið að ákveða það fyrir þá.

iTunes tónlistarbúðin er til dæmis ekki enn aðgengileg á Íslandi og ekkert bendir til að það muni breytast í bráð. Ástæðan er væntanlega flókið alþjóðleg net höfundarréttarlaga sem hagsmunaaðilar tónlistariðnaðarins hafa þrýst í gegn. Hinu íslenska STEFi þætti það eflaust óheillavænleg þróun ef menn gætu keypt sér tónlist í gegnum breskar eða bandarískar netsíður án þess að hin íslensku hagsmunasamtök fengu krónu í vasann. Þess vegna starfa allar tónlistarbúðir aðeins í einu landi, þær þurfa alltaf að semja við stefin á staðnum.

Það skiptir litlu máli hve margar málstaðsvekjandi ráðstefnur menn halda eða hve margar skammgreinar menn skrifa í blöðin. Það þarf einfaldlega að koma á almennilegum heimsmarkaði með tónlist og afþreyingu, þar sem efnið er ódýrt og aðgengilegt alls staðar í heiminum, á sama tíma. Annars mun fólk alltaf reyna að finna leiðir fram hjá höftunum.

Logið og flogið

Frjálslyndir eru flokkur eins málefnis, kvótans, og þrátt fyrir þeim hefur ekki tekist að fá fylgi til að koma sínu að í þeim efnum þá hefur þeim orðið ágegnt í því að skemma kosningabaráttur fyrir fólki sem hugsar um annað en fisk. Tvennar seinustu Alþingiskosningar snerust því miður ekki um annað en „kvótabrask“ og „eignir þjóðarinnar“. Það er eflaust erfitt fyrir einsmálefnisflokk eins og Frjálslynda flokkinn að taka þátt í kosningabaráttu í Reykjavík, þar sem eina málefnið þeirra hefur lítinn hljómgrunn.

Þessu hafa Frjálslyndir í Reykjavík ákveðið að redda með því að ná sér í annað málefni, „ekki-flutning“ Reykjavíkurflugvallar. Einsmálefnisflokkur um fisk varð því að einsmálefnisflokki um flugvélar.

Töluverður fjöldi Reykvíkinga vill enn hafa flugvöllinn þar sem hann er og eðlilegt er að einhver reyni að sækjast eftir atkvæðum þessa fólks. Hins vegar er það alveg ljóst að hinn nýframkomna aftstaða F-listans í flugvallarmálum, er eins og allt sem frá þeim kemur, tilviljanakennd, og snýst um fátt annað en að veiða til sín örfáum atkvæðaveiðum.

Hafi Ólafur F. Magnússon alla tíð verið þeirrar skoðunar að flugvöllurinn ætti að vera kyrr í Vatnsmýrinni þá var hann allavega fjarri góðu gamni þegar hinir borgarfulltrúar F-listans sammþykktu ályktun þar sem hugmyndum flugbraut á Lönguskerjum var fagnað.

Þegar bent var á þessa ályktun í nýlegum Kastljósþætti, brást Ólafur F. hinn versti við og sakaði Björn Inga um lygar. Staðfesta er reyndar ofmetinn dyggð, en auðvitað eiga menn að vera hreinskilnir þegar þeir skipta um skoðun en ekki láta eins unglingur þegar mamma finnur bjórinn hans. Hegðun Ólafs er einkar hálfvitaleg enda geta allir læsir menn lesið ályktunina á heimasíðu flokksins.

Af svipuðum toga er nýleg „atkvæðagreiðsla“ í borgarstjórn þar sem F-listinn greiddi hetjulega atkvæði gegn flutningi flugvallarins. Hrikalega kjánaleg brella, svona til að árétta afstöðu sína, en þjónar engum tilgangi ef virkilega á að berjast fyrir málstaðnum.

Hér á eftir fylgir svo níu mánaða gömul ályktun F-listans um flugvallarmál.

F-listinn í borgarstjórn fagnar þeirri umræðu sem nú á sér stað um flugvallarmál á höfuðborgarsvæðinu þar sem rætt er um flutning Reykjavíkurflugvallar innan höfuðborgarsvæðisins í stað tillagna um að leggja Reykjavíkurflugvöll niður og flytja alla starfsemi hans til Keflavíkur.

F-listinn telur það grundvallaratriði fyrir samgöngu- og öryggismál höfuðborgarsvæðisins og landsins alls að flugvöllur sé í hæfilegri nálægð við þær stofnanir og mannafla sem geta brugðist við neyðarástandi s.s. vegna slysa, veikinda eða náttúruhamfara.

Ef flutningur flugbrauta úr Vatnsmýri yfir í Skerjafjörð er möguleg án þess að draga á nokkurn hátt úr flugöryggi er ávinningur slíks tilflutnings augljós. Má þar nefna uppbyggingarmöguleika í Vatnsmýri og að flug yfir miðborginni legðist niður.

Vegtenging til suðurs yfir Skerjafjörð yrði að fylgja slíkri uppbyggingu því Miklabraut og fyrirhuguð vegtenging um Hlíðarfót dygði ekki til að mæta þeirri umferðaraukningu sem byggð í Vatnsmýri hefði í för með sér.

Fram þjáðir menn frá átta löndum

Fyrsti maí í ár snerist að mörgu leyti um málefni innflytjenda og erlends verkafólks. Í Bandaríkjunum, þar sem venjulega er haldið upp á verkalýðsdag á haustin, var áformað að þúsundir ólöglegra innflytjenda mundu leggja niður störf til að krefjast meiri réttinda. Í dag rann rann einnig út fyrsti aðlögunarfrestur ESB vegna verkafólks frá átta nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins.

ESB-löndin gömlu þurftu því aftur að taka afstöðu til þess hvort þau vildu opna landið fyrir nýju fólki eða ekki. Spánn, Grikkland, Portúgal og Finnland kusu að gera svo og nokkur önnur ríki, gerðu tilslakanir á hömlunum. Frakkland, Þýskaland, Ítalía og nokkur önnur lönd hyggjast þó að öllum líkindum halda vinnumörkuðum sínum læstum í fimm ár til viðbótar. Þetta eru slæmar fréttir, líklegast verstar fyrir ríkin sjálf, en nýlegar rannsóknir í Bretlandi benda til að ávinningur Breta af opnun vinnumarkaðarins fyrir tveimur árum hafi verið ótvíræður.

Á Íslandi var tekin sú frábæra ákvörðun að opna vinnumarkaðinn, reyndar ekki alveg alveg fullkomlega, sem sagt ekki verður nauðsynlegt fyrir Austur-Evrópubúa að sækja um sérstök atvinnuleyfi en þeir munu þó þurfa að senda ráðningarsamninga til Vinnumálastofnunar. Eitthvað þurfa opinberir starfsmenn að hafa að fyrir stafni.

Sem betur fer var fremur almenn samstaða um málið á Þingi, en sumir vildu þó fresta því til skemmri og lengri tíma, með þeim rökum „að málið væri ekki nógu vel undirbúið“. Margir sem þannig töluðu kváðust bera hagsmuni útlendingana fyrir brjósti og óttast að íslenskir kjarasamningar verði brotnir. Það er í sjálfu sér engin ástæða til að draga einlægni þeirra áhyggja í efa, en það er kannski svolítil skrítin hugulsemi að hindra fólk í því flytja að flytjast hingað og bæta sinn hag, vegna þess að einhverkunni að reyna að misnota sér það.

Vonandi að um sé að ræða fyrsta skrefið í nýrri utanríkis- og útlendingastefnu Íslendinga. Opnun landsins fyrir duglegu og menntuðu verkafólki gæti orðið mikill vaxtarbroddur fyrir þjóðfélagið. Þessu nýja fólki, sem og hinum íslensku verkamönnum sem fyrir eru óska ég innilega til hamingju með daginn.