Frjáls ferða sinna

Þær góðu fréttir bárust nýlega að ríkisstjórnin hefði ákveðið að aflétta höftum á frjálsa för verkafólks frá ríkjum nýjum aðildarríkjum ESB. Þetta eru ánægjuleg tíðindi fyrir íbúa þessara ríkja og kannski enn ánægjulegri fyrir Íslendingana sjálfa.

Sú hugmynd um að atvinna sé einhver takmörkuð auðlind, eins og olía eða kol, virðist seint ætla að deyja. Birtingarmyndir hennar eru mismunandi. Stundum er því haldið fram að hagkvæmara sé að gera hluti óhagkvæmt því þá geti fleiri dundað sér við þá. En algengast er að menn óttist að útlendingar eða einhver hópur “taki vinnu” af þeim sem fyrir eru. Með sama hætti mætti rökstyðja að Bandaríkjamenn í Ameríkuflugi Flugleiða að séu að “taka sæti” af Íslendingum. Raunin er auðvitað allt önnur. Sá mikli fjöldi útlendinga sem ferðast með Icelandair gerir það að verkum að flugfélagið getur boðið upp á ferðir tíðar og til fleiri áfangastaða. Auðvitað græða íslenskir farþegar Icelandair á því.

Lengst af hafa Íslendingar (eða öllu heldur íslenskir ráðamenn) verið tregir til að opna landið fyrir erlendum vörum og þjóðum. Að undanförnu hefur orðið góð breyting þarna á, meðal annars með tilkomu EES samningsins. Stoltastur hefði ég nú reyndar orðið ef Ísland hefði, eins og Bretland, Írland og Svíþjóð, opnað vinnumarkað sinn frá fyrsta degi en ákvörðun stjórnarinnar er engu að síður gríðarlegt fagnaðarefni og vonandi vísir að nýrri utanríkisstefnu Íslands.

Þegar kemur að atvinnumálum er nefnilega full ástæða til að líkjast Bretum sem mest og Þjóðverjum og Frökkum sem minnst eins og tölfræðin yfir atvinnuleysi þessara ríkja sýnir glöggt. Það er reyndar sorglegt hve miklum vítahring menn geta lent í með þetta. Vegna hás atvinnuleysið munu Þjóðverjar líklegast ekki afnema hömlur á austurevrópskt vinnuafl fyrr en eftir 5 ár. En það eru einmitt hömlur sem þessar sem mesta atvinnuleysinu valda.

Leave a Reply

Your email address will not be published.